Samstöðin hefur dregið úr fréttaskrifum í sparnaðarskyni vegna lögsóknar meintra auðmanna á hendur Hjálmari Friðrikssyni blaðamanni sem krafinn er um 15 milljónir króna. Það eru fjárfestarnir Arnar Hauksson, Jón Einar Eyjólfsson og Pétur Árni Jónsson, útgefandi Viðskiptablaðsins, sem krefjast þess að Hjálmar greiði þeim þrjár milljónir króna hverjum í miskabætur auk dráttarvaxta og málskostnaðar vegna skrifa um bruna þar sem sextugur maður lét lífið. Þá krefst Elja, félag þremenninganna þess að fá þrjár milljónir auk vaxta og kostnaðar. Lögmaður Hjálmars krefst þess að hann verði sýknaður.
Auk krafna þremenninganna, sem vilja fá þrjár milljónir á mann frá Hjálmari, gerir félag þeirra Elja-þjónustumiðstöð atvinnulífsins kröfu upp á 3 milljónir í skaðabætur vegna fjártjóns og þrjár milljónir að auki í miskabætur. Þá bætast við kröfur um málskostnað og dráttarvexti. Málið er á dagskrá héraðsdóms 17. desember 2024.
Um er að ræða tvær fréttir sem Hjálmar skrifaði á vef Samstöðvarinnar um bruna á Funahöfða í Reykjavík í október 2023 þar sem rúmlega sextugur pólskur karlmaður lét lífið. Vísir segir frá stefnunni.
Fréttirnar umdeildu eru með eftirfarandi fyrirsagnir: „Sannleikurinn er þó að Elja stundar nútíma þrælahald, sem hefur nú dregið mann til dauða á Íslandi“
„Nú hafa þessir vafasömu starfshættir dregið mann til dauða“.
„Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það má hafa góðar tekjur af þrælahaldi. Svo er raunin með Elju“.