Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Samþykki ekki leikreglur auðstéttarinnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólveig Anna Jónsdóttir flosnaði fljótt upp úr námi, varð móðir ung að aldri, dvaldi átta ár í Bandaríkjunum þar sem hún sannfærðist endanlega um skaðsemi kapítalismans, sneri aftur beint í hrunið þar sem hún lék stórt hlutverk í búsáhaldabyltingunni og var láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði í tíu ár áður en hún skyndilega stóð uppi með svo há laun að hún sá sig knúna til að lækka þau um 300 þúsund krónur.

„Ef við erum orðin svo klikkuð og svo langt leidd af firringu mannfjandsamlegrar hugmyndafræði að það er allt í einu orðið byltingarkennt að fólk geti lifað af dagvinnulaununum sínum og að skattkerfið verði mótað af þörfum þeirra sem raunverulega vinna vinnuna, þá hlýt ég að vera stolt af því að segjast vera byltingarmanneskja,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, sem í vor var kjörin formaður stéttarfélagsins Eflingar.  Hún er í fararbroddi nýrrar kynslóðar verkalýðsforingja sem þykja mun róttækari en þeir sem fyrir voru og þeir hafa hafa mikinn átakavetur á markaði verði ekki gengið að kröfum þeirra.

Brjáluð lýsing sem á sér enga stoð í raunveruleikanum

Sólveig Anna segir að það hafi verið mikil viðbrigði að fara úr því að hafa unnið láglaunastörf í áratug og vera skyndilega farin að stýra einu stærsta stéttarfélagi landsins. Bara það að vinna á skrifstofu hafi verið nýtt fyrir henni og fyrst um sinn hafi hún verið þjáð af svokölluðu svikaraheilkenni (e. impostor syndrome). „Ég er sem betur fer ekki þar lengur en ég vissi allan tímann að þetta yrði mjög erfitt og þess vegna var ég mjög hikandi við að láta slag standa. Allt sem ég gerði var ég að gera í fyrsta skipti. Ég hef alltaf verið með sjálfa mig í viðstöðulausu prófi og þar sem ég er minn harðasti dómari er ég alltaf tilbúin að gefa sjálfri mér falleinkunn en ég held að þetta hafi gengið ágætlega. Á engum tímapunkti ímyndaði ég mér að þetta yrði auðvelt eða þægileg innivinna. Það er kannski vegna þess að ég dembi mér út í þetta af hugsjón frekar en hefðbundnari framadraumum og við slíkar kringumstæður er meira í húfi.“

„Ég hef alltaf verið með sjálfa mig í viðstöðulausu prófi og þar sem ég er minn harðasti dómari er ég alltaf tilbúin að gefa sjálfri mér falleinkunn en ég held að þetta hafi gengið ágætlega.“

Formennskan er þó ekki óumdeild og nýverið greindi Morgunblaðið frá miklum átökum innan félagsins. Sólveig Anna og framkvæmdastjórinn Viðar Þorsteinsson voru sökuð um að „stjórna með ofríki og hótunum“ og tveir starfsmenn sagðir hafa farið í veikindaleyfi vegna samskiptaörðugleika. Var jafnframt talað um óvinveitta yfirtöku á Eflingu. „Hann var mjög brjálæðislegur sá fréttaflutningur,“ svarar Sólveig Anna aðspurð og bætir við að í málum sem þessum sé erfitt að grípa til varna enda sé hún sem formaður bundin trúnaði við starfsfólk. Hún geti þó sagt að umfjöllunin gefi ekki rétta mynd af veruleikanum. „Það var pínku sjokkerandi. Þetta símtal sem ég átti við Agnesi Bragadóttur [blaðamann Morgunblaðsins], ég vissi alveg þegar því lauk að þetta yrði einhver hasar og partur af mér fór að hlæja því þetta var svo fáránlegt.“

Hún fellst þó á að það hafa komið upp ákveðnir samstarfsörðugleikar. „Þetta hefur ekki bara verið dans á rósum. Það hafa komið upp samstarfsörðugleikar ef ég á að orða það þannig.“

- Auglýsing -

Mættirðu andstöðu starfsfólks þegar þú tókst við?

„Ég vissi að það yrði ekki bara erfitt fyrir mig að koma þarna inn heldur líka fyrir fólkið sem ég starfa með. Ég hafði verið mjög gagnrýnin þó auðvitað hafi ég verið að gagnrýna forystu félagsins og þá stefnu sem var í gildi, ekki bara þar heldur yfir hreyfinguna í heild sinni sem mér þótti mjög röng og þykir enn. En þá var ég ekki að ráðast að starfsfólkinu en ég skildi þá og skil enn að fólk hafi tekið mér með vissri varúð. En engu að síður, yfir heildina var tekið vel á móti mér. Ég mætti samstarfsvilja og kurteisi og í mörgum tilfellum vináttu sem ég er ótrúlega þakklát fyrir.“

En stjórnið þið með ofríki og hótunum?

- Auglýsing -

„Ég kannast svo sannarlega ekki við það. Það get ég sagt af algjörum heiðarleika að það er brjáluð lýsing sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Það eru þarna leikendur sem hafa ólíkar fyrirætlanir þannig að annars vegar er þetta sett fram í þeim tilgangi að grafa undan og eyðileggja þá baráttu sem auðvitað er þegar hafin, og mun verða meiri og rosalegri í vetur, og svo hins vegar er þetta sett fram af fólki sem getur ekki sætt sig við niðurstöður þessara kosninga og hver úrslitin þar urðu.“

Fólk leyfir sér sturlaðan málflutning

Kjarasamningar renna út nú um áramótin og kynntu stéttarfélögin kröfugerðir sínar fyrir stjórnvöldum og atvinnurekendum. Um þær kröfur verður tekist á í komandi kjaraviðræðum, en þar er meðal annars farið fram á að lágmarkslaun verði 425 þúsund krónur að loknum samningstíma, að lágmarkslaun verði skattlaus, að skatta- og bótakerfið verði endurskoðað og að ráðist verði í þjóðarátak í húsnæðismálum.

Tillögurnar þykja vissulega róttækar en eru þær raunhæfar? „Ef ég bara horfi á þetta út frá sjálfri mér sem starfaði sem láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði í 10 ár og þurfti lengi að vera í tveimur vinnum til að geta átt einhvers konar líf sem snerist ekki bara um blankheit og stress, þá finnst mér þetta eins eðlilegt og sanngjarnt og hægt er að hugsa sér. Sum viðbrögðin við þessum kröfum hafa verið ofsafengin, að vissu leyti vegna þess að þetta er fólk sem aðhyllist þá hugmyndafræði að það eigi alltaf að verðleggja vinnu fólks á sem minnsta mögulega máta. Svo er ekki heldur hægt að horfa fram hjá því að fólk sem fer fram með svona harkalegum viðbrögðum hefur aldrei kynnst því hvað það er að lifa og starfa sem ófaglærð verkamanneskja á íslenskum vinnumarkaði og hversu streitufullt líf það er. Á sama tíma og mér svíður þetta og vissulega móðgast við þessi hörðu viðbrögð þá hugsa ég líka að þessu fólki sé svolítil vorkunn af því að það bara greinilega getur ekki sett sig í spor þeirra stétta sem það sjálft tiheyrir ekki. Það virðist ekki fært um að líta á aðstæður verka- og láglaunafólks, sýna því einhverja samhygð eða samkennd sem er afleiðing þeirrar brútal nýfrjálshyggju sem við höfum verið látin lifa undir.“

„Sum viðbrögðin við þessum kröfum hafa verið ofsafengin, að vissu leyti vegna þess að þetta er fólk sem aðhyllist þá hugmyndafræði að það eigi alltaf að verðleggja vinnu fólks á sem minnsta mögulega máta.“

Ein þessara „ofsafengnu“ viðbragða mátti finna í leiðara Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu, en þar var kröfum stéttarfélaganna lýst sem „sturluðum og í engum takti við efnahagslegan veruleika“ og forystumenn þeirra sagðir mesta ógnin gagnvart lífskjörum meginþorra fólks. Sólveig Anna segir að gagnrýni Harðar hafi farið yfir öll velsæmismörk. „Þessi grein er bókstaflega mjög harðsvíruð árás á algjörlega eðlilegar og sanngjarnar óskir fólks um að þegar sest verður að samningaborðinu, bæði gagnvart Samtökum atvinnulífsins og stjórnvöldum, að þá verði fólki mætt með sanngirni og það viðurkennt að skipting gæðanna sé með engu móti réttlát. Þetta er bara ótrúlegt, í alvöru talað. Auðvitað verð ég að leggja við eyrun og átta mig á því að í herbúðum þessa fólks sem með málflutningi sínum sýnir og sannar að það er hinir raunverulegu óvinir vinnandi fólks á Íslandi. Ég upplifi þetta sem ógnandi hegðun og mér finnst mjög merkilegt til þess að hugsa að þetta er sama fólk sem heyrir minnst á orðið verkfall og brjálast, talar þar um ógnanir og þess háttar en leyfir sér sjálft að fara fram með málflutningi sem er bókstaflega sturlaður og ekki í takti við neinn raunveruleika eða hófstillingu.“

Ætla ekki að samþykkja þessar leikreglur

Undanfarnar vikur hafa þó borist fréttir af versnandi afkomu fyrirtækja, meðal annars í ferðaþjónustu þar sem launakostnaður er stærsti útgjaldaliðurinn, og hafa atvinnurekendur gefið í skyn að ekki verði hægt að mæta auknum launakostnaði öðruvísi en með uppsögnum. Sólveig Anna segir að sé það raunin, sé eitthvað mikið að kerfinu. „Ef það er eini valkosturinn, að annaðhvort haldi fólk áfram að sætta sig við laun sem duga bókstaflega ekki til að komast af eða að uppsagnir og hörmungar blasi við, þá segir það okkur bókstaflega allt um það ofbeldis- og kúgunarsamband sem vinnuaflið er látið búa við. Ég vil fordæma efnahagskerfi sem virkar svona,“ segir Sólveig Anna og bætir við: „En þetta er áróður, þetta er sú áróðursmaskína sem fer alltaf af stað þegar vinnuaflið og fulltrúar þess setja fram kröfur. Þetta er sami kórinn og söng þegar sett var fram krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun í síðustu samningum. En þá, sem betur fer, bar íslenskt samfélag gæfu til að hafna þeim áróðri og sameinast að miklu leyti um að það væri fáránlegt að biðja um minna.“

Sólveig Anna gefur sömuleiðis lítið fyrir þau rök að efnahagshorfur nú séu svartari en þegar samið var fyrir þremur árum. „Ég hef alltaf sagt að við búum í efnahagskerfi sem er sérhannað til þess að láta það alltaf gerast, hvort sem það er uppsveifla, niðurdýfa eða vægur samdráttur, þá eru taparanir alltaf vinnuaflið sem þó knýr áfram hagvöxtinn og hjól atvinnulífsins. Ég ætla bara ekkert að samþykkja þessar leikreglur, að þetta séu einu leikreglurnar sem við megum spila eftir.“

En er hægt að horfa fram hjá þessum hagtölum, til dæmis þeim sem sýna að kaupmáttur hafi aldrei í sögunni aukist jafnmikið og undanfarin ár?

„Ég bara veit hvernig kaupmáttur þeirra sem hafa minnst á milli handanna er. Með húsnæðismarkaðinn eins og hann er og hvað það er dýrt að lifa í þessu landi, þá er það eins og einhver sadískur brandari að vera alltaf að sveifla þessu framan í fólk. Vissulega hefur orðið kaupmáttaraukning hjá sumum hópum. Hér búa stórir hópar við æðisgengna velsæld og við besta mögulega lífsstíl sem völ er á. Það breytir því ekki að þetta er ekki raunveruleiki allra. Af hverju í ósköpunum ætti ég að fókusera á þá hópa sem hafa það best í stað þess að horfa á þá hópa sem hafa það verst í íslensku samfélagi?“

Gat ekki hætt að horfa á heimabankann

Fréttir af umtalsverðum launahækkunum til handa þingmönnum og forstjórum ríkisstofnana, fyrir tilstilli kjararáðs og síðar stjórna opinberra fyrirtækja, hleyptu illu blóði í verkalýðshreyfinguna og segir Sólveig Anna að þessar ákvarðanir, ásamt ríflegum launahækkunum forstjóra stærstu fyrirtækja landsins, hafi spilað hlutverk í kröfugerðinni. Þessar launahækkanir hafi verið ögrun gagnvart vinnandi fólki. Sjálf tók hún þá ákvörðun að lækka laun sín um 300 þúsund krónur á mánuði. „Mér fannst ég einhvern veginn verða að gera það, það var einhver knýjandi þörf inni í mér. Ég, sem láglaunakona, þurfti að horfast í augu við það – og það eru mjög grimm örlög og sárt fyrir fullorðna manneskju að gera það – að geta ekki staðið á eigin fótum efnahagslega. Fyrir mig, sem sósíalískan femínista, var það mjög sorglegt að til þess að geta boðið börnunum mínum upp á eitthvað sem er hægt að flokka sem eðlilegt líf myndi ég ávallt þurfa að eiga sambýlismann til að hjálpa. Hvað erum við að tala um þegar við segjum að Ísland sé rosalega mikil jafnréttisparadís, hversu fölsk er sú mynd sem er dregin þar upp? Að mínu mati er hún mjög fölsk.“

„Mér fannst ég einhvern veginn verða að gera það, það var einhver knýjandi þörf inni í mér,“ segir Sólveig um þá staðreynd að hún lækkaði laun sín um 300 þúsund krónur.

Sólveig Anna rifjar upp fyrstu launagreiðsluna sem hún fékk frá Eflingu. „Ég lá uppi í rúmi og kíkti inn í heimabankann minn og ég gat ekki hætt að horfa. En þetta fyllti mig engri æðislegri gleði eða þetta var ekki svona: „Jess, loksins á ég pening“ heldur hugsaði ég meira hvaða brjálsemi þetta væri. Hvernig gat ég verið að vinna og vinna eins og brjálæðingur öll þessi ár og aldrei nokkurn tíma séð upphæð inni á heimabankanum mínum sem komst einu sinni nálægt þessu.“

„Ég lá uppi í rúmi og kíkti inn í heimabankann minn og ég gat ekki hætt að horfa.“

Var þetta ekki bara kapítalismi að verki, að þeir sem leggja mikið á sig munu uppskera eins og þeir sá?

„Kapítalisminn segir náttúrlega alltaf eitthvað kreisí. Hann er alltaf með einhverjar ódýrar útskýringar á sínum snærum en lögmál hans geta náttúrlega ekki ráðið för inni í verkalýðshreyfingunni. Henni ber skylda að taka til hjá sér líka þegar kemur að þessum málum, að setja reglur um hvað sé eðlilegur launamunur þar.“

Hjólaði í vinnu til að losna við Bónusferðir

En það eru ekki bara launin sem verða á samingaborðinu heldur einnig lífskjörin í landinu. Þar vega húsnæðismálin þungt enda ófremdarástand á húsnæðismarkaði. Þær kröfur snúa að stjórnvöldum enda liggur sökin þar. „Ég er ekki mjög gömul kona, ég er 43 ára, en þegar ég var að hefja minn búskap þótti það enn normal að ungt fólk gæti eignast sína eigin íbúð og staðið undir afborgunum með hóflegum tekjum. Það er ekki raunin lengur og þetta er afleiðing af ömurlegum efnahagsákvörðunum þeirra sem hér fara með völd. Það varð alkul í uppbyggingu húsnæðis og til að keyra efnahagslífið af stað var blásið til ferðamannagóðæris og það var tekin markviss ákvörðun um það á æðstu stöðum í íslensku samfélagi og settir gríðarlegir fjármunir í það. Til að keyra þá uppsveiflu var fluttur inn gríðarlega stór hópur af erlendu verkafólki. Allt þetta var gert án þess að því grundvallaratriði væri svarað um hvar þetta fólk ætti að búa.“

Húsnæðisliðurinn er ekki eitthvað sem verkalýðshreyfingin mun slaka á til að ná fram öðrum kröfum því ekki sé hægt að reka samfélag þar sem vinnuaflinu er ekki tryggt þak yfir höfuðið. „Slík samfélög eru viðbjóðsleg og dæmd til að enda í katastrófu. Þú þarft að tryggja vinnuaflinu mat, hvíld og húsnæði. Ef þú getur ekki mætt þessum lágmarksþörfum áttu að skammast þín svo ótrúlega mikið að þú átt að draga þig í hlé með skottið á milli lappanna.“

Varðandi hátt matvælaverð segir Sólveig Anna það viðsemjenda þeirra að koma með svör og lausnir að borðinu. „Það er líka á þeirra ábyrgð að mæta okkur með hugvitsamlegum lausnum sem sýna að þeim sé alvara í því að bæta kjör fólks og tryggja að launin séu ekki bara strax étin upp með fyrstu Bónusferðunum. Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að hjóla í og úr vinnu var sú að ég hataði að vera á bílnum því þá þurfti ég að fara í Bónus. Þegar þú ert með ótrúlega léleg laun og þarft að borga rosalega mikinn pening við kassann í Bónus fyrir eitthvað smotterí, þá olli það mér svo miklu hugarangri. Það dró svo úr lífsgæðum mínum að ég vildi frekar hjóla í og úr vinnunni og dömpa þeirri ábyrgð á manninn minn alfarið. Sem var kannski svolítið leiðinlegt fyrir hann.“

„Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að hjóla í og úr vinnu var sú að ég hataði að vera á bílnum því þá þurfti ég að fara í Bónus.“

Að verða ung móðir það besta sem gat gerst

Talið berst að sósíalismanum, róttækninni og því hvað reki Sólveigu Önnu áfram í baráttunni gegn fjármálaöflunum. Segja má að hún hafi fengið þessa eiginleika í vöggugjöf. „Ég var alin upp á mjög róttæku heimili þannig að strax frá því ég var lítil stelpa var alltaf verið að tala um alþjóðamál og mál í stóru samhengi,“ segir Sólveig Anna, en hún er dóttir útvarpsþulanna Jóns Múla Árnasonar og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur. Jón Múli var mjög virkur í Sósíalistaflokknum og síðar Alþýðubandalaginu og hlaut fangelsisdóm fyrir þátttöku sína í óeirðunum á Austurvelli 1949 en var síðar náðaður. Sólveig Anna átti eftir að feta í fótspor hans, eins og nánar verður komið að síðar.

„Báðir foreldrar mínir höfðu mjög mikil áhrif á mig. Ég fékk afar frjálst uppeldi og kannski fullfrjálst, ég er langyngst af mínum systkinum og ég held að þau hafi bæði verið komin á einhvern stað að þau leyfðu mér að gera nokkurn veginn það sem ég vildi. Ég var alls ekki erfið en ég var svolítið sérlunduð. Þegar ég var búin að læra að lesa notaði ég það mjög markvisst að vera alltaf með bók og ég lærði það mjög snemma að barn með bók er alltaf látið í friði af fólki sem sér lestur sem lykilinn að öllu. Ég var þess vegna mjög útsmogin að koma mér undan allri ábyrgð með því að lesa mjög mikið.“ Skólagangan var nokkuð mörkuð af þessu, segir Sólveig Anna sem lýsir sér sem „mismenntaðri“. Hún hafði hæfileika sem sneru að hinu ritaða máli en raungreinarnar voru ekki hennar sterkasta hlið. Skólakerfið var þannig að það refsaði henni fyrir það sem hún kunni ekki í stað þess að umbuna fyrir það sem hún kunni og þegar grunnskólagöngunni var lokið var hún orðin uppgefin á því. „Ég gerði nokkur áhlaup á það að vera í menntaskóla en mér leið bara ekkert vel inni í skóla, ég upplifði skólastofnanir sem óvinveitt umhverfi. Þannig að ég er mjög mikill talsmaður þess að börnum og unglingum sé mætt þar sem þau eru og að við horfum ávallt á það sem fólk getur og reynum að gera minna úr því sem við getum ekki.“

„Ég var alls ekki erfið en ég var svolítið sérlunduð. Þegar ég var búin að læra að lesa notaði ég það mjög markvisst að vera alltaf með bók og ég lærði það mjög snemma að barn með bók er alltaf látið í friði af fólki sem sér lestur sem lykilinn að öllu.“

Sólveig Anna fór þess vegna ung út á vinnumarkaðinn. „Ég varð ung móðir sem var líklega það besta sem gat komið fyrir mig. Mig vantaði mikið einhvern stöðugleika, eitthvað akkeri, og var einmitt svo heppin að foreldrar mínir studdu mig mjög vel þar og voru mér mikið innan handar.“

Sólveig Anna á tvö börn með eiginmanni sínum, Magnúsi Sveini Helgasyni, en þau eru nú 18 og 21 árs. „Við vorum svona unglingakærustupar, hættum saman og byrjuðum saman.“

Árið 2000 fluttu þau saman út til Minnesota í Bandaríkjunum þar sem Magnús Sveinn lærði hagsögu og bandarísk stjórnmál. Þar bjuggu þau í átta ár og segir Sólveig Anna að veran í Bandaríkjunum hafi sannfært hana endanlega um skelfilegar afleiðingar kapítalismans.

„Ég flutti út þegar George W. Bush var kosinn forseti og það var innrásin í Afganistan, Írak og allur viðbjóðurinn sem fylgdi því, Guantanamo, Abu Grahib, fellibylurinn Katrina. Þetta var rosaleg röð af bylmingshöggum þar sem algjörlega tryllt auðstétt, undirseld blóðugri heimsvaldahugmyndafræði lét bara hvert höggið dynja á saklausu fólki. Það var ótrúlegt að verða vitni að því.“

Í Bandaríkjunum lifði Sólveig Anna í tveimur heimum. Annars vegar sem láglaunakona þar sem hún starfaði í kjörbúð og hins vegar sem millistéttarkona sem sinnti sjálfboðaliðastörfum í skóla barnanna. Í kjörbúðinni starfaði hún með fólki sem tilheyrði stétt hinna vinnandi fátæku, fólki sem vann sleitulaust alla sína ævi en átti ekki möguleika á að brjótast út úr fátækt. „Svo fékk ég líka að prófa þetta millistéttarlíf hvítra kvenna sem snýst um þetta barnalíf, í þessum heimi kvenna sem eiga menn sem þéna það vel að þær fara bara af vinnumarkaði. Þar upplifði ég að mér voru afhent einhver furðuleg forréttindi bara út á það að vera hvít og norræn, að kunna einhverjar reglur sem samfélagið hefur ákveðið að séu mikils virði, einhvern evrópskan hegðunarmáta sem ég uppskar blessun samfélagsins út á. Það var mjög sjokkerandi að upplifa það því ég hafði í prinsippinu alltaf verið and-rasísk en að sjá það með eigin augum hvað rasisminn og kynþáttahyggjan er viðurstyggilega sjúkt fyrirbæri opnaði mjög augu mín.“

Beint heim í byltinguna

Fjölskyldan flutti heim sumarið 2008, nánast beint ofan í íslenska efnahagshrunið. Sólveig Anna segir að þessi tími hafi verið fjölskyldunni erfiður, þau glímdu við atvinnuleysi og fjárhagurinn var þröngur. En Sólveig Anna kom heim frá Bandaríkjunum full baráttuanda og hún var tilbúin til að láta að sér kveða í búsáhaldabyltingunni. Það gerði hún eftirminnilega því hún var í hópi níumenninganna sem voru ákærðir fyrir árás á Alþingi í desember 2008. Um þá reynslu segir Sólveig Anna: „Hún var mjög áhugaverð en mjög erfið. Það var skrítin tilviljun að ég var í þeim hópi. Afleiðingarnar af því að fara inn í alþingishúsið til að mótmæla, hversu erfiðar þær voru og hversu mikla andlega orku og tíma þær tóku frá mér. Ekki bara mér heldur líka manninum mínum. Það var mjög erfitt. Og ég viðurkenni alveg að undir það síðasta í því máli þegar dómsmálið var komið af stað og við vorum ákærð … það var ekkert smáræði að hafa þessa ofbeldishótun hangandi yfir höfðinu á sér. Ég var alveg orðin stressuð og komin á nett kvíðaröskunarróf þar.“

„Það var ekkert smáræði að hafa þessa ofbeldishótun hangandi yfir höfðinu á sér. Ég var alveg orðin stressuð og komin á nett kvíðaröskunarróf þar.“

Sólveig Anna segir að þessi reynsla hafi setið lengi í henni þótt hún geri það ekki lengur. „Ég hugsaði oft mikið um þetta og ég upplifði mig mjög valdalausa meðan á þessu stóð og fannst það mjög óþægilegt. Þetta var á sama tíma og ég var virkilega að kynnast því hvernig væri að vera láglaunakona á Íslandi og ég er virkilega að horfast í augu við þau örlög sem var líka erfitt. Afleiðingar hrunsins lögðust mjög þungt á okkur, mig og manninn minn, með atvinnuleysi og fjárhagskröggum þannig að þetta var mjög „intense“ og erfiður tími. Svo lærði ég hversu tjúlluð borgarastéttin getur leyft sér að verða þegar hún upplifir að sér sé ógnað. Það var mjög hressilegur lærdómur.“

Sérðu eftir þessu?

„Nei, ég sé ekkert eftir þessu. Á endanum áskotnaðist mér margt, eins og að kynnast snjöllu og sniðugu fólki sem var ekki búið að láta samfélagið móta sig alveg og lifði á eigin forsendum. Það var mjög hressandi.“

Sólveig Anna var einnig lykilþátttakandi í öðru máli sem skók þjóðina á árunum eftir hrun, lekamálinu svokallaða. Hún var í hópi aðgerðasinna sem boðað höfðu mótmæli í dómsmálaráðuneytinu þegar vísa átti hælisleitandanum Tony Omos úr landi. Sama morgun og mótmælin fóru fram birtist frétt á forsíðu Fréttablaðsins sem unnin var upp úr minnisblaði sem hafði verið lekið úr ráðuneytinu. Málið endaði með afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og dómi yfir aðstoðarmanni hennar. „Það var ótrúlegt og það var enn eitt dæmið um hversu tjúlluð borgarastéttin verður þegar hún upplifir einhverja ógn. Viðbrögð þeirra sem fara svona með völd eru svoleiðis að á endanum eru þau sínir eigin verstu óvinir. Það var eitt æðisgengnasta dæmi sögunnar um þetta dramb sem getur sýkt fólk sem kemst í of mikil völd.“

Lífsstíll efri stéttanna ekki mögulegur án vinnuaflsins

Það er mikið talað um að fram undan sé átakavetur með hörðum deilum á vinnumarkaði. Sólveig Anna telur ekki að svo þurfi að vera. „Það eina sem þarf er að viðsemjendur okkar mæti okkur af sanngirni, að þeir viðurkenni réttmæti krafnanna og komi að samningaborðinu með það hugarfar að við ætlum saman í það verkefni að sannarlega bæta lífskjör verka- og láglaunafólks á Íslandi. Ég ætla enn þá að leyfa mér að halda í þá von að svo verði. Ég held að pólitíska andrúmsloftið í samfélaginu sé með þeim hætti að þau geti raunverulega ekki komið sér hjá því að takast á við þetta.“

Megum við eiga von á því að hér logi allt í verkföllum?

„Ég, sem áhugamanneskja um verkalýðsbaráttu, tala ekki af léttúð um verkföll og hef aldrei gert. En ég veit að verkföll eru eitt það mikilvægasta og merkilegasta sem vinnuaflið hefur, því það sýnir hversu stórkostlegt vægi það hefur. Án vinnuaflsins er allt tal um hagvöxt innantómt og lífsstíl efri stéttanna ekki mögulegur. Ef það er á endanum eina leiðin sem er fær, er það bara svoleiðis. En þá verður sannarlega ekki við okkur að sakast.“

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir alþjóðlegar förðurnarfræðingur YSL á Íslandi

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -