„Samtökin ’78, Hinsegin dagar og Trans Ísland hafa óskað eftir fundi með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna handtöku í aðdraganda gleðigöngunnar s.l. laugardag.“ Þetta segir í færslu á Facebook Samtakanna.
„Félög hinsegin fólks líða hvorki ofbeldi né annað misrétti og leggja því áherslu á að mál þetta verðið skoðað ofan í kjölinn,“ segir í færslunni. „Það er allra hagur að hinsegin fólki finnist það geta leit að til lögregluyfirvalda og upplifi að tekið sé á þeirra málum af virðingu og nærgætni, en það hefur því miður ekki alltaf verið raunin. Þess vegna vilja félögin einnig ræða möguleg skref í von um að lögreglan verði hinseginvænni.”
Elínborgar Hörpu Önundardóttur, meðlimur samtakanna No Borders Iceland, var handtekinn á Gleðigöngunni í Reykjavík síðast liðinn laugardag. Ástæðan sem lögreglan gaf upp fyrir handtökunni er að Elínborg hafi óhlýðnast fyrirmælum. Þá hafi lögreglan grunað hana um að skipuleggja mótmæli í göngunni. Elínborg sagði í samtali við Vísiað engin mótmæli hafi verið fyrirhuguð, hvorki af hennar hálfu né No Borders-samtökunum. Þá hafi ekkert legið að baki því að hún hafi verið handtekin, annað en það að lögreglan kannaðist við hana.
Oddviti Pírata fundaði með lögreglustjóra í dag
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, kallaði Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra Reykjavíkur, á fund ráðsins í dag. Fundurinn var haldinn í kjölfar kvartana yfir framgöngu lögreglu á Secret Solstice og Hinsegin dögum samkvæmt fréttatilkynningu frá Pírötum.
„Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar fer með eftirlit með því að mannréttindi og borgaraleg og lýðræðisleg réttindi borgarbúa séu virt þvert á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og á viðburðum með aðkomu Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningunni. „Því var ákveðið að fylgja þessum málum eftir með því að fá kynningu lögreglu og koma ábendingum á framfæri.“
Dóra Björt segir að „Virðing fyrir borgararéttindum er hornsteinn lýðræðisins. Lögreglan hefur einkarétt á beitingu valds gagnvart þegnum okkar lýðræðissamfélags og gríðarlega mikilvægt er að vel sé farið með það vald til að halda trausti borgarbúa á löggæslukerfinu og réttarríkinu sem slíku.“