Föstudagur 17. janúar, 2025
1.2 C
Reykjavik

Sannleikurinn hefur margar hliðar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Valdimar Örn Flygenring hvarf að mestu úr sviðsljósinu fyrir rúmum áratug eftir að hafa verið einn vinsælasti leikari þjóðarinnar í áraraðir. Nú er hann kominn aftur inn á sviðið sem Ólafur í Ófærð 2 og talað er um magnaða endurkomu. En hvers vegna hætti hann að leika og hvað hefur hann verið að gera í millitíðinni?

„Ég er aðallega að vinna sem leiðsögumaður,“ segir Valdimar þegar hann er spurður hvað hann hafi verið að gera undanfarin ár. „Ég er jeppaleiðsögumaður fyrir minni hópa, bæði með eigið fyrirtæki og vinn fyrir aðra þess á milli. Ég er svona týpískur Íslendingur, vinn við það sem til fellur og þarf að gera hverju sinni.“

Eitt af því sem til féll á nýliðnu ári var hlutverk Ólafs í Ófærð 2. Hvernig samdi Valdimar, sem er kunnur náttúruverndarsinni, við þann karakter? Er hann sammála skoðunum hans á virkjunarmálum til dæmis?

„Ég held að svona kallar sem hafa búið lengi þar sem lítið hefur verið að gerast í atvinnumálum eigi erfitt með að vera andvígir framkvæmdum,“ segir Valdimar. „Þeir þurfa að finna leiðir til að lifa af í sínu umhverfi þó svo að við sem búum við ákveðið öryggi getum haft alls konar skoðanir á því. En þegar maður setur sig í spor fólks sem býr við allt aðrar aðstæður skilur maður afstöðu þess að einhverju leyti þótt maður sé algjörlega andvígur þeim í hjarta sér.“

Valdimar Örn Flygenring dró sig út úr leiklistinni fyrir rúmum áratug en á nú magnaða endurkomu í Ófærð 2. Mynd / Hallur Karlsson

Spurður hversu langt sé síðan hann lék í sjónvarpsþáttaröð eða bíómynd segist Valdimar reyndar hafa verið viðriðinn þann geira alltaf öðru hvoru í gegnum í árin, hann hafi aldrei lagt leiklistina algjörlega á hilluna.

„Ég hef alltaf verið pínulítið að grípa í þetta,“ segir hann og hlær. „Í fyrra var ég til dæmis að leika í þýskri bíómynd eftir að fólkið sem var að gera hana hafði séð mig í myndinni Hvalfjörður sem ég lék í fyrir nokkrum árum.“

Hætti á erfiðu tímabili í einkalífinu

- Auglýsing -

Þannig að þetta tal um endurkomu í leiklistina á ekki alveg við rök að styðjast, þú hefur verið viðloðandi bransann allan tímann?

„Ég útskrifaðist úr Leiklistarskólanum 1986 og var alveg á fullu í tuttugu og þrjú ár eftir það,“ útskýrir Valdimar. „Þá var maður stanslaust að daga, kvöld og helgar í leikhúsinu og svo kom sumarið og þá var maður á kafi í bíómyndum. Eftir að hafa unnið þannig í tuttugu og þrjú ár fór ég aðeins að hugsa minn gang, auk þess sem ég var að ganga í gegnum erfitt tímabil í lífi mínu á þeim tíma, var að fara í gegnum skilnað og var að leika í erfiðu verki, Pabbastrák eftir Hávar Sigurjónsson sem var frábært verk en hlutverkið gekk nærri mér. Ég var líka svolítið kominn á það stig að vera aðeins á milli kynslóða í leikhúsinu, var orðinn elstur af þeim „ungu“ og það vissi eiginlega enginn hvað átti að láta mann gera.

Ég var líka svolítið kominn á það stig að vera aðeins á milli kynslóða í leikhúsinu, var orðinn elstur af þeim „ungu“.

Ég lenti mikið í því að leika leiðinlega kallinn og það má maður ekki gera alltof lengi, sérstaklega ekki þegar maður er sjálfur að ganga í gegnum erfiðleika í einkalífinu. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvort maður eigi kannski bara að fara að gera eitthvað allt annað, opna nýja glugga. Ég sé ekkert eftir því að hafa stigið út úr því fari sem ég var kominn í. Ég hef aldrei getað verið í einhverju ákveðnu fari, gæti til dæmis aldrei unnið frá níu til fimm, ég er bara ekki þannig gerður. Kannski er það ómeðhöndlaður athyglisbrestur en ég þarf alltaf að vera að takast á við eitthvað nýtt.“

- Auglýsing -

Valdimar hætti að drekka árið 1989 og hann segir það líka hafa haft áhrif á ferilinn. Þegar leikarar hætti að drekka hætti þeir að mæta á barina og detti þar af leiðandi svolítið út úr klíkunni.

„Það bara gerist, eðlilega,“ segir hann. „En það er líka mjög gott, allavega var það þannig í mínu tilfelli. Ég hef líka stundum sagt þegar maður er með heimsbókmenntirnar í höfðinu alla daga og er að velta sér upp úr dýpstu hugsunum mannsandans árum saman þá væri það nú skrýtið ef maður þroskaðist ekki pínulítið og færi að velta fyrir sér nýjum leiðum í lífinu.“

„Geri þetta skást af því sem ég geri“

Valdimar hefur sjálfur fengist við það í gegnum tíðina að setja eigin hugsanir á blað, bæði í formi ljóða og annars texta, er hann hættur því?

„Nei, nei, ég hef alltaf haldið því áfram,“ segir hann ákveðinn. „Svo er ég líka í hljómsveit sem kemur fram alltaf öðru hvoru og það er alveg óskaplega skemmtilegt. Hljómsveitin heitir Hráefni, Þungt flauel eða Mellur & brennivín eftir því hvar við erum að spila. En kjarninn í sveitinni er ég, Þorleifur Guðjóns og Þórdís Claessen. Ég sem bæði lög og texta og hef mjög gaman af því. Sem betur fer erum við ekkert að reyna að verða fræg eða rík, gerum þetta bara ánægjunnar vegna og manni líður alltaf eins og maður hafi verið í löngum jógatíma eftir æfingar. Ég gaf út plötu í gamla daga og hljómsveitin gaf út pínulítinn disk fyrir tveimur árum og við erum alltaf á leiðinni að gera eitthvað meira en það verður að viðurkennast að það er ekkert sérstaklega mikil eftirspurn eftir tónlist frá sextugu fólki, þannig að við erum voðalega róleg í sambandi við plötugerð.“

Valdimar segir að fyrst eftir að hann dró sig að mestu út úr leiklistinni hafi hann aðallega fundið fyrir létti og verið spenntur fyrir nýjum verkefnum, en menningin togi þó alltaf í hann.

„Ég var líka svolítið kominn á það stig að vera svolítið á milli kynslóða í leikhúsinu, var orðinn elstur af þeim „ungu“ og það vissi eiginlega enginn hvað átti að láta mann gera.“

„Það sem ég hef komist að í gegnum tónlistariðkunina er í fyrsta lagi hvað menning er mikilvæg fyrir mig sem manneskju. Maður þarf að gera eitthvað fleira en vinna, éta og sofa, það veitir manni tilgang. Ég hef líka komist að því, til dæmis með því að taka þátt í Ófærð 2 með Balta og hans fólki, að ég hef leiklistina enn þá í mér og hún skiptir mig máli. Þegar maður var stanslaust að vinna við þetta fékk maður svo lítinn tíma til þess að melta það sem maður var að gera og láta það opna sér nýja sýn á hlutina.

Auðvitað gerði maður það að einhverju leyti en ég finn það núna að þessi ár sem ég hef verið frá leiklistinni hafa gefið mér tíma til að melta og ég kem að þessu á annan hátt núna. Leiklistin er auðvitað ein af þeim listgreinum sem byggir hvað mest á samvinnu og mér fannst alveg óskaplega gaman að vinna með þessu teymi að þessu verkefni. Mér fannst líka gott að finna að þrátt fyrir allt þá get ég enn þá leikið og það bara þokkalega. Sennilega geri ég þetta skást af því sem ég hef reynt að gera í lífinu.“

„Auðvitað lék ég götustrákinn“

Valdimar byrjaði að leika tólf ára gamall, í skólasýningu á verki sem bekkjarsystir hans hafði skrifað fyrir árshátíð skólans. Það opnaði honum nýja sýn á sjálfan sig að hans sögn.

„Auðvitað var ég látinn leika götustrákinn,“ segir hann glottandi. „Leikritið átti að gerast í skólastofu og ég var uppreisnarseggurinn í bekknum. Ég hafði aldrei fengið sérstakt hrós frá einum eða neinum í skólanum en eftir þessa sýningu kom yfirkennarinn til mín og hrósaði mér sérstaklega fyrir þetta. Ég man alltaf eftir því og ég á það kannski honum að þakka að ég lagði leiklistina fyrir mig.“

Eftir þessa sýningu kom yfirkennarinn til mín og hrósaði mér sérstaklega fyrir þetta.

Hlutverk uppreisnarseggsins fylgdi Valdimar fyrstu árin í leiklistinni en hann segist þó ekki almennilega vita af hverju hann var svona oft látinn leika þannig hlutverk.

„Kannski af því ég var töluvert uppreisnargjarn og vonandi með einhverja réttlætiskennd,“ segir hann hugsi. „Kannski átti fyrsta sýning mín í Nemendaleikhúsinu líka þátt í þessu. Þá lékum við Rauðhærða riddarann og ég lék þar einhvern svona brjálæðing. Það þótti eftirminnilegt, allavega nóg til þess að tuttugu og fimm árum seinna þegar ég stóð úti í Laxá í Aðaldal að veiða silung kallaði til mín maður á næsta veiðisvæði og spurði hvort ég væri ekki Valdimar Örn Flygenring. Þegar ég játaði því þakkaði hann mér fyrir Rauðhærða riddarann. Það þótti mér skemmtilegt.“

Leiðinlegt að vera settur í steríótýpur

Í upphafi ferilsins var Valdimar líka oftar en ekki í hlutverki kyntröllsins, bæði innan og utan sviðs. „Maður ræður auðvitað ekki við það hvernig fólk sér mann,“ segir hann hálfvandræðalegur þegar þetta berst í tal.

„Ég veit ekkert úr hverju það kom og get ekki um það dæmt. Það hafði samt auðvitað áhrif. Ég held það sé alltaf leiðinleg staða að vera settur í einhverjar steríótýpur. Það getur verið dálítið takmarkandi og sorglegt ef ferill bæði byrjar og endar þar. Og án þess að ég sé á nokkurn hátt bitur þá var þetta kannski líka á vissan hátt hluti af einhverri ófullnægju sem gerði það að verkum að maður fór á endanum að horfa í aðrar áttir. Auðvitað á maður að fá að þroskast í starfinu ef maður hefur hæfileika, ekki vera settur í eitthvert hjólfar. Í svona mikilli samvinnu eins og leikhús er þá er ákvörðunin um hvert þinn ferill þróast ekki bara þín heldur einhverrar yfirstjórnar og maður hefur ekki alltaf mikið um það segja.“

Ég held það sé alltaf leiðinleg staða að vera settur í einhverjar steríótýpur.

Valdimar segir það líka hafa haft áhrif á hann og hans kynslóð leikara að á þeim árum sem þau komu til starfa hafi leikhús á Íslandi verið í mikilli endurnýjun.

Hlutverk uppreisnarseggsins fylgdi Valdimar fyrstu árin í leiklistinni en hann segist þó ekki almennilega vita af hverju hann var svona oft látinn leika þannig hlutverk.

„Í kringum 1990, þegar Stefán Baldursson tekur við Þjóðleikhúsinu er enn þá verið að reka Borgarleikhúsið eftir lögum um áhugaleikhús. Þótt leikhúsið sjálft væri svona stórt og fínt og flott var enn þá lítill hópur af fólki sem tilheyrði Leikfélagi Reykjavíkur. Stefán byrjaði strax svolítið að taka til í Þjóðleikhúsinu, með fullri virðingu fyrir því sem áður hafði verið gert. Hann hristi svolítið rykið af stöðluðum hugmyndum um leikhús og réði inn hóp ungs fólks sem hefur síðan orðið kjarninn í íslensku leikhúsi. Svo getur fólk auðvitað haft sínar skoðanir á því hvort það sé rétt að það séu alltaf sömu aðilarnir meira og minna í sömu hlutverkunum. Það eru margar hliðar á sannleikanum.

Ég hef stundum sagt að sannleikurinn sé eins og fjall.

Ég hef stundum sagt að sannleikurinn sé eins og fjall. Maður hefur kannski verið að horfa á það úr fjarlægð alla sína ævi og gert sér einhverjar hugmyndir um það hvernig það er. Svo þegar maður fer að ganga á fjallið lítur það allt öðruvísi út og er allt annað en maður hélt. Eftir langa baráttu kemst maður svo kannski á toppinn og þá breytist fjallið enn og aftur. Á niðurleiðinni fær maður svo fjórðu upplifunina af fjallinu, þannig að þetta getur verið heillangt og erfitt ferðalag upp og niður en þegar maður er kominn til baka horfir maður aldrei á fjallið með sömu augum og áður en maður lagði af stað. Það er líka þannig með sannleikann, hann er ekki einn og samur heldur hefur margar hliðar.“

Eins og sést greinilega í þessu spjalli okkar hefur Valdimar mikinn áhuga á því að velta fyrir sér stóru spurningum tilverunnar í leit að dýpri merkingu og sá áhugi varð til þess að hann hóf nám í guðfræði við Háskólann fyrir nokkrum árum.

„Já, ég fór í guðfræði í eitt ár, var jafnvel að velta því fyrir mér hvort ég gæti orðið prestur,“ útskýrir hann. „Mér fannst það spennandi og eftir að hafa farið í gegnum meðferðarbatteríið og pælt mikið í mannfólkinu fór ég að skilja hvað trú getur verið mikilvæg í lífi manneskjunnar. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvaðan sú þörf kemur. Eins þessi leit manneskjunnar að guði, hvað veldur henni? Þannig að ég skráði mig í guðfræðina til að leita svara við þessum spurningum.

Ég fór í guðfræði í eitt ár, var jafnvel að velta því fyrir mér hvort ég gæti orðið prestur.

Ég var reyndar ekkert viss um það að ég gæti nokkurn tímann verið í námi út af athyglisbrestinum en ég stóð mig bara mjög vel, þótt ég segi sjálfur frá. Þannig að ég komst að því að ég gæti allavega lært en svo þegar átti að fara að kenna manni að ganga um í kufli og syngja sálma þá hætti ég, enda kominn á kaf í túrismann á þeim tíma og hafði varla tíma til að líta upp frá vinnu. Sprengingin í túrismanum kom svolítið aftan að manni enda hefur ferðamannafjöldinn margfaldast á þessum tíu árum sem ég hef verið í þessu og það er lítill tími til að sinna öðru.“

Valdimar hefur mikinn áhuga á því að velta fyrir sér stóru spurningum tilverunnar í leit að dýpri merkingu og sá áhugi varð til þess að hann hóf nám í guðfræði við Háskólann fyrir nokkrum árum.

Skíðaleiðsögumaður á Ítalíu

Valdimar lætur sér þó ekki nægja að sinna túristum á Íslandi því þegar þetta viðtal birtist verður hann kominn til Ítalíu til að vera fararstjóri fyrir íslenska skíðaiðkendur.

„Ég er mikill skíðakall,“ útskýrir hann. „Hef verið á skíðum síðan ég var pínulítill og hef óskaplega gaman af því. Einu sinni var ég spurður að því af ungum strákum í lyftunni í Bláfjöllum hvað ég væri búinn að vera lengi á skíðum og þegar ég sagði að það væru um fimmtíu ár urðu þeir alveg steinhissa, horfðu á mig stórum augum og spurðu hvort ég væri fyrsti kallinn? Ég hef meðal annars verið töluvert að fara á skíði erlendis og þegar í ljós kom að það vantaði einhvern til að taka á móti Íslendingum í ítölsku Ölpunum og leiðsegja þeim um svæðið stökk ég strax á það, alveg himinlifandi. Ég hlakka mikið til að takast á við það.“

Það er greinilegt að Valdimar hefur meira en nóg að gera utan leiklistarbransans en saknar hann aldrei leikhússins og heimsins í kringum það?

„Jú, jú, ég geri það í sjálfu sér stundum,“ viðurkennir hann dræmt. „Þegar maður fer að vinna svona vinnu eins og ég vinn í dag þá finnur maður hvað menningin skiptir mann miklu máli. Maður skynjaði það ekki eins vel þegar maður var alltaf á kafi í þessu, en ég finn vel að lífið snýst um fleira en að vinna, éta og sofa og það er menningin og leikhúsið og auðvitað saknar maður þess. Það var oft alveg frábært að vera í leikhúsinu þegar gaman var en það var náttúrlega ekki alltaf þannig.

Þegar maður fer að vinna svona vinnu eins og ég vinn í dag þá finnur maður hvað menningin skiptir mann miklu máli.

En það var líka gott að fara frá því og eiginlega alveg nauðsynlegt fyrir mig á þeim tíma. Svo finnst mér líka, þótt það hljómi eins og klisja, að það gefi manni langmest að vera bara þakklátur og auðmjúkur fyrir það sem maður hefur. Auðvitað langar mann alltaf í meira og meira en það sem skiptir máli er að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur fengið að gera og hefur getað gert. Það þýðir ekkert annað.“

En kveikti hlutverkið í Ófærð 2 ekkert í þér, aftur eru einhver verkefni í leikhúsi eða kvikmyndum á dagskránni á næstunni?

„Nei, það er ekkert ákveðið komið á dagskrá. Það er alltaf hringt í mig öðru hverju frá Kvikmyndaskólanum og ég beðinn um að leika í myndum sem nemendurnir eru að gera þar og það finnst mér alltaf sjálfsagt að gera ef ég get. Ég er líka opinn fyrir fleiri verkefnum ef mér finnst þau vera eitthvað sem henta mér og passa við mig. Það er alveg ljóst að maður er ekki í leiklistinni peninganna vegna og mér finnst að mörgu leyti gott að vera kominn á það stig að vera í þessu á réttum forsendum. En ég veit ekki hvort einhver sér eitthvað nothæft í manni sem leikara. Það kemur bara í ljós. Það eru svo margar leiðir að því að stunda menninguna.

Það hefur enginn áhuga á list sem rekin er út frá excel-skjali, hún deyr.

Það er hins vegar sorgleg staðreynd að í svona örsamfélagi eins og Ísland er, þá geta í raun bara örfáir einstaklingar í hverri listgrein lifað og þroskast af list sinni, sem er náttúrlega ávísun á einhæfni og stöðnun. Hafi menningin einhvern raunverulegan tilgang í framþróun samfélags sjá allir hvert slík þróun getur leitt okkur. Við eigum að fagna fjölbreytni hún gerir okkur sterkari. Það hefur enginn áhuga á list sem rekin er út frá excel-skjali, hún deyr. Ég hef alltaf hugsað þetta þannig að menningin eigi að bera í sér boðskap um betra mannlíf og það sem brýnast er að taka á núna eru umhverfismálin. Menningin nefnilega skiptir engu máli ef jörðin er að farast. Fjöllin hafa alltaf átt hjarta mitt og núna ætla ég að fara að horfa í sólina á Ítalíu og skíða um fjöllin sem eru einn fallegasti staður á jarðríki. Svo heldur maður bara áfram þaðan.

Ég eignaðist hús norður í Hrísey í fyrra og kannski get ég eitthvað sinnt því í sumar. Svo fer maður kannski líka að einbeita sér að einhverjum skrifum. Það eru endalausir möguleikar sem lífið býður manni upp á. Maður þarf bara að vera opinn fyrir þeim og óhræddur við að prófa eitthvað nýtt.“

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -