„Ég er algjört jólabarn, enda fædd 24. desember og þess vegna kom eiginlega aldrei neitt annað til greina en jólabrúðkaup,“ segir Aðalbjörg Aðalbjörnsdóttir. Hún játaðist Guðmundi Frey Hallgrímssyni þann 30. desember árið 2017. Athöfnin var haldin í Akraneskirkju og veislan í Hafnarfirði, en á leiðinni í veisluna gerðist svolítið óvænt.
„Á leiðinni í veisluna stoppuðum við fyrir myndatöku og planið var svo að koma við heima hjá mömmu í Reykjavík til að skipta um kjól sem ég hafði keypt fyrir veisluna. Það gekk ekki betur en svo að rennilásinn festist og í átökunum eyðilagðist hann alveg. Ég varð frekar stressuð þar sem þarna hefðum við átt að vera mætt í eigin veislu en sem betur fer tók frænka mín til sinna ráða og sagði að hún myndi bara sauma mig í kjólinn,“ segir Aðalbjörg og bætir við sposk á svip:
„Um kvöldið fékk svo eiginmaðurinn að rífa kjólinn af mér.“
Ekki gleyma ykkur í smáatriðum
Aðalbjörg hugsar hlýtt til þessa atviks í dag, þó að henni hafi alls ekki verið sama á þessu augnabliki.
„Í dag finnst mér þetta voðalega fyndið og eitthvað sem gerir daginn bara enn þá eftirminnilegri,“ segir hún og bætir við að besta ráðið á brúðkaupsdaginn sé einmitt að stressa sig ekki um of á einhverju sem skiptir litlu máli.
„Besta ráðið sem ég get gefið er að gleyma sér ekki í smáatriðum og passa sig á að njóta dagsins til fulls, því hann líður allt of hratt.“
Þetta viðtal er hluti af stærra efni í nýjasta tölublaði Mannlífs um óvæntar uppákomur á brúðkaupsdaginn. Smelltu hér til að lesa Mannlíf á netinu.
Myndir / Halldór Ingi Eyþórsson