Seðlabanki Íslands var sýknaður af kröfu Samherja, sem krafist hafði rúmlega 306 milljóna króna í skaðabætur og 10 milljóna í miskabætur frá bankanum. Meðal þess sem Samherji vildi að Seðlabankinn greiddi var kostnaður vegna Jóns Óttars Ólafssonar rannsakanda sem starfað hefur að öflun gagna til að hrekja ávirðingar Seðlabankans. Jón Óttar, sem nefndur hefur verið spæjari Samherja, sat meðal annars um Helga Seljan fréttamann og sendi honum ógnandi skilaboð úr óskráðum símamúmeri. Alls kostaði þjónusta Jóns Óttars 135 milljónir króna sem Samherji vildi að Seðlabankinn greiddi. Því var hafnað en Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, fékk 200 þúsund krónur í miskabætur.
Kröfur Samherja á Seðlabankann voru reistar á því að félagið hefði þurft að greiða alls 306 milljónir króna í laun til starfsmanna sem komu að málsvörn fyrirtækisins. Meðal þeirra sem voru að störfum fyrir Samherja er Þorbjörn Þórðarson, fyrrverandi fréttamaður
Í dómsniðurstöðu héraðsdóms segir að sumir þeirra reikninga, sem Samherji vísaði til í málinu, séu vegna kostnaðar sem vart verði talinn í málefnalegum tengslum við rannsókn Seðlabankans.
Samherji hefur gefið út að málinu verði áfrýjað til æðra dómsstigs. Fyrirtækið mun þannig freista þess að fá endurgreiddan kostnað við Jón Óttar.