Harry Bretaprins hefur sterkar skoðanir á tölvuleiknum Fortnite.
Harry Bretaprins er þeirrar skoðunar að börn ættu aldrei að spila tölvuleikinn Fortnite. Harry flutti erindi um málið á ráðstefnu um geðheilbrigði í gær. Hann sagði að það væri óábyrgt að leyfa börnum að spila leikinn og að það ætti að banna það. Þetta kemur fram á vef Business Insider.
„Hver er ávinningur þess að leyfa þennan leik á heimilinu? Þetta er eins og að bíða eftir að skaðinn er skeður,“ sagði hann meðal annars.
Leikurinn Fortnite hefur náð miklum vinsældum síðan hann kom á markað árið 2017 og skráðir notendur eru um 250 milljónir, þar á meðal eru fjölmörg börn.
Harry hélt áfram og talaði um að tölvuleikir á borð við Fortnite ýttu undir tölvufíkn. „Fíkn sem heldur þér fyrir framan tölvuskjáinn. Þetta er óábyrgt.“
Þess má geta að samkvæmt Video Game Revolution VGR og fréttastofu ABC getur Fortnite verið jafn ávanabindandi og heróín og hafa margir sérfræðingar tjáð sig um málið og varað við leiknum.
Þar á meðal er bandaríski taugaskurðlæknirinn Dr. Jack Kruse. Hér fyrir neðan má sjá Facebook-færslu sem hann birti fyrir nokkrum mánuðum.