Framkvæmdastjóri fjargeðheilbrigðisþjónustunnar Minnar líðanar segist finna fyrir verulega aukinni eftirspurn eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á hérlendis í mars á þessu ári. Í samtali við mbl.is segist framkvæmdastjórinn, Tanja Dögg Björnsdóttir, reikna með auknu álagi þegar líða tekur á haustið.
Segir Tanja Dögg að andleg vanlíðan geri oft vart við sig nokkrum mánuðum eftir áföll og nefnir sem dæmi fjármálahrunið 2008. Fleiri hafi fundið fyrir vanlíðan eftir hrunið en á meðan því stóð.
Að sama skapi hafi fleiri farið að nýta sér geðheilbriðisþjónustu Minnar líðanar, sem felst meðal annars í fjarviðtölum, eftir að kórónuveiran fór að breiðast út hérlendis.