Ferðamálastofa kynnti nú fyrir hádegi stórt hvatningarátak sem fer af stað á næstu misserum. Átakið snýst um að hvetja Íslendinga til að ferðast innanlands.
Á kynningunni, sem var sýnd í beinni á Facebook, var farið m.a. yfir markmiðin og hvernig ferðaþjónustan getur nýtt sér hvatningarátakið og auglýsingaefni sem útbúið verður í tengslum við það.
Elías Bj. Gíslason frá Ferðamálastofu fjallaði m.a. um ferðavenjur landsmanna í sínu erindi. Hann kynnti tölur yfir ferðalög landsmanna innanlands á síðasta ári og greindi frá að 85% Íslendinga ferðuðust innanlands í fyrra þar sem fólk gisti yfir nótt.
Sömuleiðis talaði hann um könnun sem var framkvæmd dagana 18. til 20. mars, sú könnun leiddi í ljós að 90% svarenda sögðust ætla að ferðast innanlands í ár. „Við ætlum svo að framkvæma aðra könnun í maí.“
„Það er eftir nógu að slægjast.“
Hann segir kannanir sýna fram á að það sé eftir miklu að slægjast fyrir ferðaþjónustufyrirtæki hvað íslenska neytendur varðar. „Við Íslendingar erum ferðaglöð þjóð. Það er eftir nógu að slægjast,“ sagði Elías.
Hann viðurkennir að við séum fámenn þjóð sem ekki getur fyllt upp í það gat sem ferðamenn skilja eftir sig en hann segir möguleikana þó mikla.
Kynningarefni og auglýsingar þurfa að höfða til Íslendinga
Auglýsingastofan Barndenburg sér um hönnun kynningarefnis og birtingar. Hreiðar Þór Jónsson frá Brandenburg kynnti það efni á fundinum. Hann tók undir með Elíasi og sagði möguleikana vera mikla.
Hann segir mikilvægt að fyrirtæki í ferðaþjónustunni aðlagi sitt kynningarefni þannig að það höfði til Íslendinga til að selja þeim hugmyndina um að ferðast innanlands í ár. Hann sagði átakið verða kynnt vandlega í sumar og að það ætti ekki að fara fram hjá neinum. „Við verðum öll að hjálpast að við að hvetja Íslendinga til að ferðast innanlands og verðum að vinna þetta vel og skynsamlega saman,“ sagði Hreiðar.