Í nýrri grein í tímariti norska blaðsins Aftenposten sem kom út fyrir síðustu helgi segir að „á meðan önnur Norðurlönd geta stært sig af því að vera efst á lista yfir minnst spilltu lönd í heimi, hefur Ísland sokkið niður listann eftir mörg ár af ótrúlegum hneykslismálum. Einkum er það sjávarútvegurinn á Íslandi sem er rótin að þessari spillingu,“ segir í umfjöllun Heimildarinnar um áðurnefnda grein; þar er fjallað um íslenska kvótakerfið og Samherjamálið í Namibíu sem hefur verið til rannsóknar á Íslandi og í Namibíu frá því síðla árs 2019.
Kemur fram að með vísunum í lista yfir spillingu á Norðurlöndunum er vísað til þess að Ísland hefur fallið neðar á lista Transparency International síðustu árin.
Í greininni er að finna viðtal við uppljóstrarann í Namibíumálinu, Jóhannes Stefánsson, og þar eru einnig viðtöl við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann Blaðamannafélags Íslands, Atla Þór Fanndal, sem fer fyrir Íslandsdeild Transparency International sem og Þórð Snæ Júlíusson, sem er annar ritstjóra Heimildarinnar.
Í greininni fjallar blaðamaðurinn danski, Lasse Skytt, um spillinguna á Íslandi og í íslenskum sjávarútvegi; hvernig spillingin hafi að vissu leyti verið flutt út til Namibíu í máli Samherja.
Fjallar Skytt um það hvernig nepótismi þrífist vel á Íslandi og sé mikið vandamál í svo litlu samfélagi og því íslenska:
„Ein augljós ástæða fyrir spillingunni er nepótisminn sem gengur kynslóð eftir kynslóð (að ganga erinda fjölskyldu og vina) sem blómstrar í litlum samfélögum eins og því íslenska. Allir þekkja alla – eða í flestum tilfellum þekkir maður einhvern sem þekkir viðkomandi. Boðleiðirnar eru þar af leiðandi miklu styttri en í stærri og flóknari samfélögum.“
Í greininni er sú kenning reifuð að eitt stærsta vandamálið á Íslandi sé sú spilling sem einkenni sjávarútveginn, kvótakerfið, hér á landi.
Eitt af því sem Lasse Skylt gerir í greininni er að tengja umfjöllun um Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins og sjávarútvegsráðherra, við Namibíumálið og greinir sá danski frá tengslum hans við Samherja og Þorstein Má Baldvinsson:
„Þáverandi sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sat í stjórn Samherja og er æskuvinur forstjóra Samherja, Þorsteins Más Baldvinssonar,“ segir í kafla þar sem fjallað er um hversu erfitt Namibíumálið hafi verið fyrir Kristján Þór.
Einnig er fjallað um það að Samherjamálið í Namibíu sé flokkspólitískt á Íslandi; nefnir Skytt Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega í því samhengi:
„Einkum er það einn stjórnmálaflokkur sem er með fiskilykt á fingrunum.“
Í greininni er að finna viðtal við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann Blaðamannafélags íslands, þar sem hún ræðir um rannsókn lögreglunnar á nokkrum blaðamönnum; lögreglurannsóknin er sett í samhengi við þá spillingu er talin er að þrífist á Íslandi – og er rauði þráðurinn í greininni.
Komið er inn á það sérstaklega að það er lögreglan á Norðurlandi eystra, með höfuðstöðvar í heimabæ Samherja, Akureyri, sem sér um rannsóknina.
Sigríður Dögg segir í viðtalinu að íslenska lögreglan sé að reyna að þagga niður í blaðamönnum; hafa áhrif á möguleika þeirra til að reyna að sinna sínu starfi af heilindum:
„Þetta má túlka sem óeðlileg afskipti lögreglunnar af starfi blaðamannanna, eitthvað sem þar að auki getur dregið úr blaðamönnunum að gera aðrar opinberanir í millitíðinni og virkar þar af leiðandi hamlandi á vinnu þeirra.“
Samhliða rannsóknum íslensku lögreglunnar á blaðamönnum hér á landi sé raunin sú að færri og færri vilja starfa sem blaðamenn á Íslandi; vísað er í tölur þess efnis, og þær eru sláandi; árið 2012 voru 2.250 blaðamenn starfandi á Íslandi; í fyrra voru þeir aðeins 800.