Föstudagur 25. október, 2024
1.5 C
Reykjavik

Segir íslenska rjúpnaveiðimenn hjartalausa: „Limlesta eða drepa saklausa fugla sér til gleði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ole Anton Bieltvedt, stofnandi og formaður Jarðarvina, segir að gráðugir og hjartalausir skotveiðimenn séu búnir að koma rjúpustofninum í útrýmingarhættu. Þeir vaði upp um fjöll og firnindi í þúsunda tali til að limlesta eða drepa saklausa og varnarlausa fugla, og önnur dýr, sér til ánægju og gleði. Þennan hóp kallar Ole dauðasveitina.

Skoðun sína setur Ole fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu. „Árið 2002 var svo komið fyrir íslenzku rjúpunni að hún var, vegna óbilgirni veiðimanna og undanlátssemi stjórnvalda, komin á útrýmingarstig. Guði sé lof, tók þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, af skarið og bjargaði rjúpnastofninum með friðun. En gráðugir veiðimenn óðu uppi og þrýstu á um veiðar, sem hófust aftur með nokkru skipulegri og skaplegri hætti,“ segir Ole.

„Sársauki og þjáning fuglsins, sumir liggja lengi særðir og limlestir – bíða jafnvel eftir, að blóðeitrun og drep ljúki kvölinni og líkni í lokin – er auðvitað hvergi tekin með í reikninginn“

Ole bendir á að rjúpan sé einfaldlega á válista yfir þá fugla sem teljast í yfirvofandi hættu. Stofninn hafi hreinlega dregist saman um allt að 70 prósent. „En hvern varðar um það? Greinilega ekki Náttúrufræðistofnun Íslands, hvað þá umhverfisráðherra, svo að ekki sé talað um hjartalausa veiðimenn, sem vaða um fjöll og firnindi til að limlesta eða drepa saklausa og varnarlausa fugla og dýr, sér til gleði og ánægju. Umhverfisráðherra heimilaði veiðar á 72.000 fuglum í fyrra, án þess að með þessum veiðum sé nokkurt eftirlit; treyst er á heiðarleika veiðimanna og „virðingu fyrir náttúrunni og fuglinum“. Allt gott og fínt – sársauki og þjáning ekkert mál,“ segir Ole harðorður og bætir við:

„Sársauki og þjáning fuglsins, sumir liggja lengi særðir og limlestir – bíða jafnvel eftir, að blóðeitrun og drep ljúki kvölinni og líkni í lokin – er auðvitað hvergi tekin með í reikninginn. Hvað varðar NÍ, galvaska veiðimenn og ráðherra um slíkt!?“

Þá vindur Ole talinu að þessum skotvetri þar sem hann segir gildandi samþykkt vera algjöran brandara í ljósi þess hversu veikur rjúpnastofninn er. „Hvað gerðu stjórnvöld? Nú kom NÍ með plan um, að hver veiðimaður skyldi veiða 4-5 fugla, og, að þetta yrði allt bara gott og fínt aftur. Þetta fannst umhverfisráðherra skynsamlegt, raunsætt og fínt plan, og lagði blessun sína yfir það í hvelli. Til fjalla fyrir fjóra fugla? Tillagan, sem forstjóri NÍ lagði fyrir ráðherra og hann samþykkti án þess að blikka augum, að því er virðist, er auðvitað bara eins og hver annar „skítabrandari“. Hver heilvita maður sér, að „5.000-6.000 manna dauðasveitin“ mun ekki hafa unnt sér friðar eða hvíldar fyrr en 70.000 til 90.000 fuglar lágu í valnum. Er ég þá að tala um þá fugla, sem náðust og taldir verða. Til viðbótar koma svokölluð „afföll“, þeir fuglar, sem særast og limlestast, en komast undan veiðimanni, sem gætu verið 20-30.000 fuglar,“ segir Ole.

Ofan á allt saman furðar Ole sig á viðhorfum skotveiðimanna sem hafi einnig farið fram á stórlengt veiðitímabil á rjúpunni. Hann vonast þó til að Covid-faraldrurinn hafi mögulega bjargað rjúpunni. „Hver skilur þessa menn og þeirra afstöðu til lífríkisins og náttúrunnar? Bjargaði Covid rjúpunni í bili? Veiðitími 2020 er nú afstaðinn, og það veit enginn, hvernig þetta fór, en kannski bjargaði Covid rjúpunni, þar sem botninn datt nokkuð úr veiðimönnum með flandur og ferðalög vegna faraldursins, auk þess sem það fréttist fljótt, að það fyndist varla fugl, sem sló nokkuð á veiðigleði. Vonandi tekur sannur dýraverndunarsinni við umhverfisráðherraembættinu því eina von rjúpunnar og íslenzka dýra- og lífríkisins virðist nú vera að ný umhverfisvæn ríkisstjórn og raunverulegur dýraverndunarsinni, með bein í nefinu, taki við embættinu 2021,“ segir Ole.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -