Þriðjudagur 14. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Segir margt fólk vera „komið á brúnina andlega“ vegna verkfalla

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Verkföll félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hafa mikil áhrif á barnafjölskyldur í Reykjavík. Ásdís Gunnarsdóttir, tveggja barna móðir, segist vera reið vegna ástandsins. Ásdís skrifaði færslu um málið á Facebook í fyrradag og lýsti ástandinu á heimilinu. Hún segir það vera „óbærilegt“ fyrir dóttur sína sem er með einhverfu og skertan þroska.

Ásdís Gunnarsdóttir.

Í samtali við Mannlíf kveðst Ásdís Gunnarsdóttir hafa fengið mikil viðbrögð frá foreldrum í sömu stöðu við Facebook-færslu þar sem hún talar um ástandið sem hefur skapast á heimili hennar vegna verkfalla félagsmanna Eflingar sem starfa á leikskólum Reykjavíkurborgar. „Fólk er að tengja við það sem ég skrifaði og mjög margir eru í sömu sporum. Fólk er mjög reitt og margir eru algjörlega komnir á brúnina andlega.“

Í umrædda færslu skrifaði Ásdís meðal annars: „Nú verð ég bara að segja eitthvað. Ég er svo reið yfir ástandinu þessa dagana, ég er reið út í Reykjavíkurborg og ég er reið út í Eflingu. Ég á tvö börn, Fjólu sem er 5 ára og er með fötlun og Frosta sem er 1,5 árs. Þau eru búin að vera ca 80% úr leikskóla undanfarnar vikur. Frosti á erfitt með þetta rót eins og flest börn en fyrir Fjólu Röfn er þetta óbærilegt ástand. Hún er með einhverfu og skertan þroska og rútínan, þjálfunin og leikskólaumhverfið er henni nauðsynlegt.“

Hún bætir við að amma barna sinna hafi hjálpað mikið en að það sé ómögulegt fyrir hana að ná að sinna börnunum „eins og þau eiga skilið alla daga“.

Í færslu sinni spyr Ásdís af hverju sé ekki verið að gera neitt. Að hennar mati fer of mikil orka hjá samningsaðilum í ómálefnalegar ásakanir á samfélagsmiðlum. „Og svo virðist vera fundað eftir hentisemi af og til þegar eðlilegt væri að gera það allan sólarhringinn þangað til komist er að niðurstöðu,“ skrifar Ásdís. Hún bætir við að allir á hennar heimili séu að missa geðheilsuna vegna álags.

Að fylgjast með samskiptum Dags og Sólveigar veldur vanlíðan

- Auglýsing -

Ásdís merkir Eflingu, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, Reykjavíkurborg og Dag B. Eggertsson borgarstjóra í færslunni sinni og hvetur þau til að leysa málið. Aðspurð hvort að hún hafi fengið einhver viðbrögð frá þeim segir Ásdís: „Nei, ég hef ekkert svar fengið frá þeim.“

„Mér finnst þetta snúast um stolt, hótanir og yfirgang.“

Dagur og Sólveig hafa verið gagnrýnd fyrir seinagang í samningaviðræðum. Ásdísi líður illa þegar hún fylgist með samskiptum Dags og Sólveigar Önnu á samfélagsmiðlum. Eins og málið blasir við henni leggja þau of mikla orku í deilur á Netinu og í fjölmiðlum. „Mér finnst eins og enginn vilji sé til að setjast niður og ræða málin og gera málamiðlanir. Mér finnst þetta snúast um stolt, hótanir og yfirgang. Ég hef bara verið mjög pirruð og leið að fylgjast með þessu,“ segir Ásdís.

Sendingar fram og til baka

- Auglýsing -

Verkfallsaðgerðir Eflingar hafa skert þjónustu í leikskólum borgarinnar mikið síðan þær hófust um miðjan febrúar. Síðan þá hafa Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tekist á í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Margt fólk hefur gagnrýnt samskipti Dags og Sólveigar Önnu sem hafa gjarnan farið fram í gegnum Facebook.

Það hefur þótt áhugavert að fylgjast með samskitpum S’olveigar og Dags á samfélagsmiðlum.

Líf Magneu­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Vinstri grænna, er ein þeirra sem hefur bent á að það sé ekki rétta leiðin til að leysa málið. „Samningar nást hins vegar ekki með Facebookstatusum og fyrir milligöngu fjölmiðlamanna. Samningar nást við samningsborðið. Þeir nást með samtalinu,“ skrifaði Líf meðal annars í færslu á Facebook í vikunni.

Hver Facebook-færslan á fætur annarri

Sjálfur hefur Dagur sagt í færslu á Facebook að honum þyki of mikil orka talsmanna Eflingar fara í að efna til átaka. „Ég vildi óska að sami kraftur væri settur í samningagerðina og ítrekað virðist fara í skeytasendingar í minn garð og samninganefndar borgarinnar,“ skrifaði hann á Facebook.

Á meðan Sólveig hefur sagt Dag lofa öllu fögru í viðtölum við fjölmiðla en ekki gefa sömu loforð í samningaherberginu segist Dagur standa við allt það sem hann segir í fjölmiðlum. Þegar hann boðaði Eflingu á fund í vikunni birti Sólveig færslu á Facebook-vegg hans. Hún sagðist vera tilbúin að hitta hann en með tveimur skilyrðum.

„Í fyrsta lagi að þú birtir opinberlega það tilboð (glærurnar) sem samninganefnd minni var kynnt á samningafundi 19. febrúar, daginn sem þú mættir í Kastljóssviðtalið, þannig að allir geti borið tilboðið saman við ummæli þín í Kastljósinu. Í öðru lagi að þú fallist á að mæta mér eða öðrum fulltrúa Eflingar í setti í útvarps- eða sjónvarpsviðtali áður en vikan er úti,“ skrifaði hún.

Þegar fréttin var skrifuð hafði ríkissáttasemjari boðað viðsemjendur í kjaradeilu borgarinnar og Eflingar á samningafund klukkan 16:00 í gær, fimmtudaginn 5. mars.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -