Nýtt póstnúmer, 102 Reykjavík, tók formlega gildi í gær, 1. október. Vatnsmýri og sá hluti póstnúmers 101 sem var sunnan Hringbrautar breyttist í póstnúmerið 102.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, er himinlifandi með nýja póstnúmerið. „Skemmtilegt mál og rammar inn jákvæða þróun borgarinnar. Strax á öðrum degi er 102 stærsta uppbyggingarsvæði borgarinnar í íbúðahúsnæði,“ skrifar Dagur á Twitter og vísar m.a. til nýs hverfis á Hlíðarenda og nýs hverfis í Skerjafirði sem gert er ráð fyrir.
Í júní sagði Dagur frá því að staðfesting þess efnis að nýtt póstnúmer, 102 Reykjavík, yrði að veruleika hefði verið lögð fyrir borgarráði. Þá varð ljóst að mörgum leist vel á nýja póstnúmerið á meðan aðrir voru minna sáttir.
„Hvers vegna er borgin að ráðskast með póstnúmer,“ var skrifað við færslu Dags. „Algerlega frábært,“ skrifaði annar. „Íbúar Skerjafarðar hafa mótmælt þessu og gert könnun i hverfinu þar sem yfirgnæfandi meirihluti íbúa vill ekki 102,“ hafði annar um málið að segja.
102 Reykjavik – nýjasta póstnúmer borgarinnar – tók gildi í gær, 1. október. Skemmtilegt mál og rammar inn jákvæða þróun borgarinnar. Strax á öðrum degi er 102 stærsta uppbyggingarsvæði borgarinnar í íbúðahúsnæði! pic.twitter.com/D6gFRVLKOY
— [email protected] (@Dagurb) October 2, 2019