Helgu Völu Helgadóttur, þingkonu Samfylkingar og formanni Velferðarnefndar þingsins, finnst mikilvægt að fólk muni að Samherji var ekki sýknaður í Hæstarétti fyrir brot á gjaldeyrislögum sem Seðlabankinn sektaði fyrirtækið um. Niðurstaðan hafi aðeins snúist um lagatæknileg atriði.
Helga Vala er ekki hrifin af nýlegri aðför Samherja að persónu Helga Seljan blaðamanns og RÚV og er ánægð með stjórnendur fjölmiðilsins að standa þétt við bak starfsmannsins. Hún segir þetta vel þekkta aðferð stórfyrirtækja víða um heim og hefur aðstoðað flóttafólk vegna þessa.
„Þegar ég sinnti réttargæslu fyrir flóttafólk var ég meðal annars með skjólstæðinga úr hópi fjölmiðlafólks sem leggja þurfti á flótta vegna skrifa sinna um stórfyrirtæki sem nutu sérstakrar verndar stjórnvalda. Ég er ánægð með þá skýru afstöðu sem stjórnendur Ríkisútvarpsins taka með starfsmanni sínum í þessu máli,“ segir Helga Vala í nýlegri færslu á Facebook.
Helga Vala minnir fólk á að Hæstiréttur sýknaði ekki Samherja af ásökunum Seðlabankans um brot á gjaldeyrislögum heldur snérist niðurstaðan um lagatæknileg atriði. „Galla við lagasetningu og það að Seðlabankinn hafði, eftir að hafa sent málið til sérstaks saksóknara, lýst því yfir við Samherja að bankinn hefði ekki mál Samherja til meðferðar hjá sér lengur. Þegar saksóknari benti á að lagastoð skorti til álagningu sektar vegna brotanna, vegna mistaka við lagasetningu, og sagði þeim að bankinn þyrfti að beita stjórnvaldsákvörðun í staðinn, þá var það óheimilt þar sem bankinn hafði lýst því yfir að málið væri ekki hjá þeim heldur saksóknara. Þetta „gleymist“ alfarið í umfjöllun fréttablaðsins og morgunblaðsins um málið.“