Nokkuð hefur borið á orðrómi þess efnis að fjölmiðlamaðurinn Snorri Másson muni brátt gera sig gildandi sem einn af toppunum í Miðflokknum.
Annar fjölmiðlamaður og öllu reyndari en Snorri, Eiríkur Jónsson, segir svo frá á síðu sinni – í dálknum Úr aldingarði Alþingis – að Snorri verði í fyrsta sætinu, hvar sem það sæti er á landinu:
„Snorri Másson fjölmiðlamaður með skoðanir verður í fyrsta sæti á einum af framboðslistum Miðflokksins fyrir næstu Alþingiskosningar ef áform þess efnis ganga upp.“
Áfram gakk Eiríkur:
„Miðflokksmenn hafa verið að bera víurnar í Snorra og sást til hans nýlega í slagtogi við þingmenn flokksins, þá Bergþór Ólason og Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Þá ruddist Snorri nýlega fram á ritvöllinn á Vísi með gagnrýni á sveitarstjórnina í Mýrdalnum fyrir að koma á laggirnar enskumælandi pólitísku ráði um ýmis málefni sveitarfélagsins.
Þetta er gagnrýni sem hljómar réttmæt í eyrum þjóðhollra Íslendinga og sérstaklega Miðflokksmanna.
Snorri er glöggur þjóðfélagsrýnir og með mælskari mönnum. Hann yfirgaf Stöð 2 til að leyfa mælskunni að njóta sín, en tvennum sögum fer af vinsældum eða tekjumódeli hlaðvarpsins Ritstjóri sem hann stofnaði í þessu skyni.
Enginn frýr Snorra vits og þeir Miðflokksmenn mega teljast heppnir ef þeim tekst að klófesta hann áður en aðrir stjórnmálaflokkar fara á biðilsbuxurnar.“