Einar Hermannsson, stjórnarmaður í SÁÁ, sækist eftir formennsku SÁÁ. Þórarinn Tyrfingsson sækist einnig eftir sæti formanns. Einar ræddi málið í morgunútvarpi Rásar 2 og sagðist vilja skapa frið innan samtakanna. Hann segir samskipti sín og Þórarins alltaf hafa verið góð og að hann gæti hugsað sér að nýta Þórarinn í verkefni innan SÁÁ verði hann sjálfur kjörinn formaður.
Einar sagði tíma ósættis og átaka innan SÁÁ vera liðinn. Hann sagði sitt framboð snúast um að vilja skapa gott samstarf innan SÁÁ, að það væri nauðsynlegt til að starfið „gangi smurt.“
Þegar hann var spurður út í muninn á honum og Þórarni sagði Einar að hans framboð snerist um að skapa frið og traust og horfa til framtíðar.
Hann bætti við að nú þyrfti að einblína á að skapa góða vinnustaðarmenningu sem byggir á góðum samskiptum innan SÁÁ í stað þess að vera í átökum í fjölmiðlum.
Hann tók fram að SÁÁ gæti vel nýtt krafta Þórarins í einhverjum verkefnum þar sem hann hafi mikla reynslu og að þeirra samskipti hafi alltaf veri góð. „Hann hefur náttúrulega gert gríðarlega gott starf fyrir SÁÁ í gegnum tíðina,” sagði Einar um Þórarinn.
Átökin hafa áhrif út á við
Aðspurður hvort að ósættið sem hefur ríkt innan veggja SÁÁ um nokkurt skeið hafi breytt skoðun fólks á SÁÁ sagði Einar að það gæti vel verið en kvaðst vona að átökin muni ekki hafa langtímaáhrif á sýn fólks á samtökin. Hann tók þá fram að samtökin finna fyrir mikilli velvild í samfélaginu. „Það sést til dæmis á álfasölunni,“ sagði hann.
Næsta þriðjudag verður aðalfundur SÁÁ haldinn þar sem nýr formaður samtakanna verður kosinn.
Þess má geta að Mannlíf fjallaði um átökin innan SÁÁ fyrr á árinu. Þá sagði Þórarinn í samtali við Mannlíf að hann ætti enga sök á ástandinu sem upp er komið. „Ég er hryggur yfir því hvernig staðan er. Ég á enga sök á því og hef hvergi komið þarna nærri á nokkurn hátt enda ekki með neitt umboð til þess. Fólk verður bara að axla sína ábyrgð í þessu,“ sagði Þórarinn.