Geðlæknirinn glaðlegi og góðkunni, Óttar Guðmundsson, er lipur með pennann að vopni; eða öllu heldur laufléttur og laglegur á lyklaborðinu.
Óttar skrifar grein á DV sem hefst með þessum orðum:
„Ég hef alltaf fylgst með fótbolta af miklum áhuga. Alinn upp í Laugarneshverfinu svo að Fram var mitt félag. Náði reyndar aldrei neinum frama á fótboltavellinum og tilheyrði „ruslinu“ sem síðast var valið í lið. Brennandi áhugi og ástríða fyrir íþróttinni voru þó alltaf fyrir hendi.“
Óttar hefur verið lengi að og komið víða við; hann er ekkert sérstaklega að spá í síðasta eða þarsíðasta mót; hann er meira að velta sér upp úr grárri forneskjunni og byrjar á því að rifja upp mót sem fram fór þrettán árum áður en sá sem hér dansar á lyklaborðinu í þjóðbúningi ásamt útfríkuðum fræðimönnum þambandi malt sá heiminn utan bumbunnar í fyrsta sinn.
Óttar – Those were the days, my friend.
„Ég fylgdist með HM frá árinu 1958 þegar Svíar töpuðu fyrir Brasilíu. Úrslitaleikurinn 1966 er minnisstæður þegar Englendingar unnu Þjóðverja með dyggri aðstoð rússneskra línuvarða sem mundu enn þá orrustuna við Stalíngrað. Þá áttaði ég mig á öllu svindlinu í kringum leikinn.“
Bætir við:
„Tíminn hefur liðið og ég hef langdvölum setið límdur við skjáinn á EM og HM og ótal öðrum kappleikjum. Einu sinni reiknaði ég út hversu miklum tíma ég hefði varið í fótboltann og útkoman var skelfileg. Ég áttaði mig á því að hefði ég notað þennan tíma til t.d. tungumálanáms kynni ég í dag bæði portúgölsku og swahili og hrafl í öðrum málum.“
Þráin eftir því liðna – glötuðum tíma – er Óttari hugleikin.
Skrifar:
„Stundum var gaman en með árunum hefur fótboltinn orðið æ leiðinlegri. Yfirstandandi Evrópumót slær þó öll fyrri met í leiðindum. Varnarsinnuð lið standa áhugalaus í kringum miðjureitinn. Markaskorun er í algjöru lágmarki. VAR-dómgæslan hefur svo endanlega gengið frá leiknum. Dæmd eru víti á minniháttar brot þegar dómarinn er búinn að glápa á endursýningu tíu sinnum.“
Óttar. Er. Hættur. Að. Horfa. Á. Fótbolta. Og. Vill. Láta. Fólk. Vita. Af. Þeirri. Staðreynd.
„Fótboltinn er hægt og bítandi að snúast upp í jazzballet þar sem menn falla við minnstu snertingu á dramatískan hátt. Leiðinlegasta lið keppninnar er komið í úrslitaleikinn með dyggri aðstoð dómaranna eins og 1966.
Nú er ég endanlega hættur að horfa á fótbolta. Ég ætla í framtíðinni að verja þessum tíma í jóga og innhverfa íhugun og reyna að sættast við allan þennan glataða tíma sem fór í dapurlega knattspyrnuleiki.“
Kwa heri!