Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.9 C
Reykjavik

Segja ásakanir Ragnars Þórs ósannar og íhuga réttarstöðu sína

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins og for­stöðumaður hjá sam­tök­un­um segja ásak­an­ir for­manns VR á hend­ur sér ósann­ar. Fara þeir fram á að hann dragi þær tilbaka og biðji alla hlutaðeigandi afsökunar á þeim. Annars sé óhjákvæmilegt að þau sem hafa orðið fyrir „órökstuddum dylgjum“ hans íhugi réttarstöðu sína.

„Það er sorgleg staðreynd og um leið umhugsunarefni fyrir alla sem styðja opna og lýðræðislega umræðu í samfélaginu að Ragnar Þór gerði enga tilraun til að afla sér upplýsinga um málið hjá okkur, eða nokkrum sem því tengist, áður en hann fór fram með þessar alvarlegu ásakanir á opinberum vettvangi. Ásakanir sem nú hefur verið upplýst að eru fullkomlega og algjörlega ósannar,“ segja Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, og Davíð Þor­láks­son, for­stöðumaður hjá sam­tök­un­um, í sameiginlegri yfirlýsingu, sem birt hefur verið á heimasíðu samtakanna.

Í yfirlýsingunni hrekja Halldór og Davíð þær fullyrðingar Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, að þeir hafi beitt sér fyrir því að lífeyrissjóðirnir fjármögnuðu kaup Icelandair á fimmtíu prósent hlut í Lindarvatni, eiganda Landssímareitsins. En Ragnar hefur vakið athygli á að Halldór og Davíð störfuðu báðir hjá Icelanda­ir Group 2015 þegar kaup­in voru gerð og var Björgólf­ur Jó­hanns­son þá for­stjóri Icelanda­ir og formaður Samtaka atvinnulífsins.

Í fyrrnefndri yfirlýsingunni rekja þeir Halldór og Davíð í nokkrum liðum af hverju ekkert af því sem Ragnar heldur fram fær staðist. „Engum hjá SA, né Icelandair eins og við þekkjum það fyrirtæki, detta í hug að beita lífeyrissjóði þrýstingi þegar kemur að fjárfestingaákvörðunum þeirra. Það væri enda bæði ólöglegt og ósiðlegt. Þessi mörk eru skýr og óbrjótanleg í huga flestra og í landslögum,“ skrifa þeir meðal annars.

„Þó verður að segjast að í ljósi þess að Ragnar hefur sjálfur ítrekað beitt stjórnarmenn tilnefnda af VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna þrýstingi varðandi einstakar fjárfestingarákvarðanir, á sama tíma og hann hefur nú slíkar ásakanir uppi um aðra, þá kemur óneitanlega upp í hugann máltækið: „Margur hyggur mig sig“.“

Þá hafi lífeyrissjóðirnir ekki fjármagnað kaup Icelandair á Lindarvatni árið 2015, eins og Ragnar fullyrðir, heldur hafi kaupin verið fjármögnuð að fullu af Icelandair Group sjálfu og án aðkomu lífeyrissjóða.

- Auglýsing -

Segjast Halldór og Davíð ekki hafa verið komnir til starfa hjá SA þegar umrædd endurfjármögnun Lindarvatns átti sér stað í mars 2016. Halldór hafi komið til starfa hjá SA í árslok 2016 og Davíð í árslok 2017. „Þá komum við undirritaðir ekki að nokkru leyti að kaupum á Lindarvatni þegar við störfuðum hjá Icelandair Group, benda þeir ennfremur á. Það voru aðrir starfsmenn félagsins, auk ytri ráðgjafa, sem sáu algjörlega um þetta verkefni.“

Beina þeir því til Ragnars Þórs að hann dragi fyrrnefndar fullyrðingar sínar til baka og biðji um leið alla hlutaðeigandi afsökunar á þeim. „Ella er óhjákvæmilegt að þau sem hafa orðið fyrir órökstuddum dylgjum hans íhugi réttarstöðu sína.“ Það geti einfaldlega ekki annað verið að hann geri það því það sé skýrt brot á landslögum að ásaka saklaust fólk um svo alvarlega háttsemi sem hann hafi nú gert.

Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -