„Einhverra hluta vegna hafa borgaryfirvöld undanfarinn áratug kosið að fara með ófriði gegn rekstraraðilum við Laugaveg og neðanverðan Skólavörðustíg.“ Svona hefst pistill tólf kvenna sem stunda atvinnurekstur í og við Miðbæ Reykjavíkur sem birtist í Morgunblaðinu. Þær skrifa um „flóttann“ og óska eftir að borgaryfirvöld hlusti.
Þær segir „herferðina“ gegn atvinnustarfseminni í miðbænum hafa náð nýjum hæðum með fyrirhugaðri allsherjarlokun gatna. Þær segja þessi áform vera þvert á vilja þeirra sem reka fyrirtæki á svæðinu og sömleiðis þvert á vilja meirihluta höfuðborgarbúa.
Þær segja málflutning borgarfulltrúa verða sífellt lágkúrulegri.
„Málflutningur borgarfulltrúa verður að sama skapi sífellt lágkúrulegri og steininn tók úr þegar Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, notaði fúkyrði gegn okkur í Fréttablaðinu 12. maí sl. Við höfum það eitt til „saka unnið“ í hennar huga að berjast fyrir lífi fyrirtækja okkar og verja þar með störf og mannlíf í miðbænum. Þetta kallar Dóra Björt „fortíðarskvaldur“ og segir okkur klappstýrur afturhaldsins með „sveittar krumlur fortíðar“,“ er skrifað í pistilinn.
Þær segja Bóru og Dag B. Eggertsson borgarstjóra hafa kosið að standa í stríði við atvinnurekendur í miðbænum sem hafa barist gegn lokunum gatna.
„Lokunum sem hafa stórskaðað rekstur okkar undanfarin ár og hrakið fjölmörg fyrirtæki úr götunum. Þau fyrirtæki eiga sum hver áratuga og jafnvel aldarlanga sögu. Á þeim tíma
höfum við lifað farsóttir, kreppur, hrun og jafnvel heimsstyrjöld.“
Höfundar pistilsins lýsa yfir áhyggjum sínum vegna fyrirhugaðra frekari lokana og segja að þær neikvæðu afleiðingar tímabundinna lokana benda til að frekari lokanir ýti undir meiri viðskiptaflótta.
Þær segja götulokanir, fækkun bílastæða og breytinga á aksturstefnu hluta Laugavegar gefa vísbendingu um „að tilgangurinn hafi beinlínis verið að ergja fólk og letja það til að versla í miðbænum“.
Gleymst hvar Ísland er á jarðkringlunni
Þær segja borgarfulltrúa virðast gleyma hvar við séum stödd á jarðkringlunni þegar þeir vísi í erlendar rannsóknir um jákvæðar afleyðingar götulokana.
„Draumur okkar er að þessum verslunum með áratugalanga sögu verði skapaðar aðstæður til að geta haldið áfram að veita landsmönnum góða þjónustu, boðið upp á vandaða vöru og hlýlegt viðmót. Án okkar og margra annarra sem berjast við borgaryfirvöld
verður mannlífið í miðbænum fátækara. Við borgaryfirvöld höfum við þetta eitt að segja: Látið Laugaveg og Skólavörðustíg í friði og hlustið á vilja afgerandi meirihluta rekstraraðila.“
Þær sem skrifa pistilinn eru Sólveig Grétarsdóttir, Anne Helen Lindsay, Helga Jónsdóttir, Kristjana J. Ólafsdóttir, Inga S. Jónsdóttir, Anna Bára Ólafsdóttir, Hrafnhildur Egilsdóttir, Kristín Ellý Egilsdóttir, Hildur Bolladóttir, Anna María Sveinbjörnsdóttir, María Jóh. Sigurðardóttir og Guðrún Hallgrímsdóttir.