Tveir fyrrum starfsmenn kaffihúsins og ísbúðarinnar Joylato við Njálsgötu 1, báðir erlendir ríkisborgarar, segja farir sínar ekki sléttar í samtali við blaðamann Mannlífs. Þeir segjast ekki hafa fengið laun samkvæmt kjarasamningum og annar þeirra fékk aðeins stöku vasapeninga úr sjóðsvél verslunarinnar. Þá hafi rekstraraðilar þrýst á starfsmennina um að stunda hugleiðslu og skírlífi.
Starfsmennirnir segja jafnframt að flest starfsfólk fyrirtækisins komi víðs vegar að úr heiminum og tilheyri alþjóðahreyfingu Sri Chinmoy og fái aðeins greidda vasapeninga. „Þetta er eins og eitthvað stórundarlegt költ, og fólkið kallar sig lærisveina Sri Chinmoy,“ segir annar tveggja viðmælenda Mannlífs, kona á þrítugsaldri.
Konan sem starfaði hjá fyrirtækinu árið 2016 segist hafa fengið vinnuna fyrir tilviljun. Hún var ekki með íslenska kennitölu og þar af leiðandi ekki bankareikning heldur. Hún segir yfirmann sinn hafa lofað að aðstoða hana við að leysa úr því „Ég fékk starfsþjálfun hjá einum lærisveininum en eftir aðeins tvær vikur í starfi þurfti eigandinn að fara til útlanda og fól mér að bera ábyrgð á rekstrinum á meðan. Ég sá um að panta vörur, sjá um uppgjör og mannaráðningar. Eigandinn var nánast aldrei við,“ segir hún.
Konan segist hafa samið um 1500 kr. í tímakaup en það hafi síðan hækkað upp í 1750 kr. þegar ábyrgð hennar jókst. Hún hafi hins vegar lítið fengið af þessum launum, og aldrei launaseðla. „Það stóðst ekkert, ég fékk aldrei kennitölu og það var aldrei gert upp við mig. Ég fékk stöku sinnum vasapeninga úr kassanum, kannski 10 þúsund krónur á viku.“
Segja skírlífi skilyrði
Þegar þarna var komið sögu var konan á hrakhólum með húsnæði og hafði ekki efni á húsaleigu. Hún var þá nýbúin að ráða landa sinn og kunningja, karlmann á þrítugsaldri. Hann leigði litla íbúð og skaut skjólshúsi yfir konuna. Maðurinn hefur svipaða sögu að segja. „Lærisveinarnir þurftu að vakna fyrir klukkan sex, hlaupa daglega, hugleiða í hugleiðslustöðinni og einu sinni á dag þurfti fólkið að biðja eða hugleiða við mynd af Sri Chinmoy. Kynlíf og náin sambönd voru bönnuð og ég mátti t.d. ekki vera einn í eldhúsinu með konu,“ segir hann og bætir við að þau hafi heldur ekki mátt hlusta á aðra tónlist en frá Sri Chinmoy.
„Það stóðst ekkert, ég fékk aldrei kennitölu og það var aldrei gert upp við mig. Ég fékk stöku sinnum vasapeninga úr kassanum, kannski 10 þúsund krónur á viku.“
„Skattinum hafði aldrei verið skilað“
Starfsmennirnir fyrrverandi segjast hafa fundið fyrir miklum þrýstingi að ganga til liðs við hreyfinguna. „Kona úr költinu talaði yfir hausamótunum á okkur í tvo tíma á dag um hversu frábært lífið væri innan hreyfingarinnar og eilíf hamingja. Hún hélt því meira að segja fram að alnæmi væri ekki til,“ útskýrir maðurinn, sem er samkynhneigður og segist hafa orðið fyrir stöðugu aðkasti vegna þess. Hann segist einnig eiga inni laun hjá fyrirtækinu. „Ég fékk seint og illa borgað, engin yfirvinna var greidd þrátt fyrir að hafa unnið allt að 12-14 tíma á dag. Það mesta sem ég fékk greitt fyrir einn mánuð voru 176 þúsund. Ég gerði ráð fyrir því að afgangurinn færi í skatt en þegar ég fyllti út skattaskýrsluna mína tók ég eftir því að skattinum hafði aldrei verið skilað.“
Fólkið leitaði á skrifstofu Eflingar stéttarfélags ásamt þriðja aðila á sínum tíma en þá var ekkert hægt að gera fyrir þau þar sem þau voru hvorki með launaseðla né ráðningasamninga.
Mannlíf skoðaði ársreikninga þriggja félaga sem tengjast rekstri eiganda ísbúðarinnar, Rúnari Páli Gígja, en fjórða félagið var stofnað í ágúst á þessu ári og því liggja fjárhagsupplýsingar þess ekki fyrir. Félagið Segðu minna gerðu meira ehf., sem annar viðmælandi segist hafa fengið greidd laun frá, skilaði tekjum upp á 20 milljónir króna árið 2016 og var hagnaður þess ein og hálf milljón. Launagjöld þess námu 4,5 milljónum króna sem samsvara árslaunum eins starfsmanns. Það félag sem ber sama nafn og ísbúðin, Joylato ehf., tapaði 12 milljónum króna árið 2016 og var eigið fé þess neikvætt um 15 milljónir. Þar kemur fram að útgjöld vegna launa námu 3 milljónum. Þriðja félagið heitir svo Fasteignafélag MVB, áður Mamma veit best, en samkvæmt ársreikningi fer engin starfsemi þar fram.
Ekki náðist í Rúnar Pál við vinnslu fréttarinnar en Tara Jensdóttir, framkvæmdastjóri Mamma veit best, vísar ásökunum starfsmannanna fyrrverandi á bug. Sagði hún að allir starfsmenn væru á launaskrá og að svo hefði alltaf verið. Aðspurð út í ofangreinda ársreikninga þar sem launakostnaður er hverfandi sagði hún að um allt annan rekstur væri að ræða en í dag og að þessi félög væru hætt rekstri.
Efling mætti á staðinn
María Lóa Friðjónsdóttir, sérfræðingur ASÍ í vinnustaðaeftirliti, staðfestir í samtali við Mannlíf að ábendingar hafi borist varðandi ísbúðina Joylato og heilsuvöruverslunina Mamma veit best og að farið hafi verið í eftirlit í fyrirtækin.
„Ábendingarnar snúast aðallega um að þarna sé reglulega ráðið inn fólk erlendis frá, fólk sem ætti í raun að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi en það komi á ferðamannapassa og í einu tilfelli kom starfsmaður á námsmannapassa. Málið er til skoðunar hjá Eflingu,“ útskýrir María Lóa.
Hjá Eflingu fengust þau svör að fulltrúar á þeirra vegum hafi farið í eftirlit í umrædd fyrirtæki fyrir um mánuði síðan. „Ég var með í fyrsta eftirlitinu sem þarna fór fram og það var sláandi að starfsfólkið virtist ekkert meðvitað um sín réttindi,“ segir María Lóa og bætir við að stéttarfélögin séu háð því að fólk leiti til þeirra eftir leiðréttingu. „Stéttarfélagið hefur ekki heimild til að fara af stað með slík mál að eigin frumkvæði.“
Starfsfólk fékk uppfræðslu og bæklinga um sín réttindi og kjör þegar eftirlitsaðilar létu sjá sig og var fólkið hvatt til þess að leita til stéttarfélagsins til að fá leiðréttingu ef það teldi á sér brotið.
María Lóa nefnir sérstaklega eitt atriði sem henni þykir alvarlegt: „Við fengum ábendingu um a.m.k. eina manneskju sem kom til landsins til að vinna hjá þessum aðilum, væntanlega á ferðamannapassa; vann í ákveðinn tíma og fór svo aftur til baka. Hún ætti vitanlega að fá íslenska kennitölu og borga skatta og gjöld hér á landi,“ segir hún og bætir við að það sé orðin vinnuregla í svona tilvikum að skattayfirvöldum og Vinnumálastofnun sé gert viðvart.