„Það er alveg pínu erfitt að selja kjólinn en ég er samt ekki tilbúin að hafa svona dýran kjól inní skáp. Ég vil frekar nota peninginn í einhverja aðra upplifun,“ segir Valdís Sylvía Sigurþórsdóttir. Valdís gekk að eiga Friðþjóf Arnar Friðþjófsson í Háteigskirkju þann 11.11.2017, en Valdís gifti sig í sérsaumuðum kjól eftir dansdrottninguna Hönnu Rún Bazev Óladóttur.
Þorði ekki að versla af netinu
„Ég var búin að leita að brúðarkjól úti um allt. Ég þorði samt ekki að versla mér á netinu, of margar fyndnar sögur af því. En ég var búin að finna mér sirka kjól sem ég vildi en var alls ekki tilbúin að greiða fyrir hann það sem hann kostaði. Ég talaði svo við klæðskera hér heima en ég var ekki sannfærð um að hún myndi skilja hvað það var sem mig langaði í. Svo kom Hanna upp í huga mér því ég þarfnaðist manneskju sem væri með þetta í sér. Manneskju sem ég taldi að gæti gert þetta verk,“ segir Valdís. Fyrst þegar hún hafði samband við Hönnu Rún og bað hana um að sérsauma brúðarkjólinn sagði hún nei, en Valdís missti ekki trúna.
„Hún reyndar neitaði mér fyrst til að byrja með en ég bað um að fá að hringja í hana daginn eftir. Hanna hefur lifað og hrærst í þessum danskjólaheimi og já, ég valdi rétt. Ég var róleg allan tímann því ég hef fylgst með henni í gegnum vinkonu mína, hana Unni systur hennar,“ segir Valdís, en fyrrnefnd Unnur hefur náð góðum árangri í fitness-heiminum.
„Hanna hefur séð um Unni í fitness og ég hef aldrei séð neitt annað en: Vá. Það var aðalástæðan fyrir því að mér datt hún í hug. Ég treysti henni á undan henni sjálfri.“
Orðlaus þegar hún sá kjólinn
Það tók Hönnu Rún þrjú hundruð klukkutíma að sauma kjólinn og límdi hún þrjátíu þúsund steina á hann. Og viðbrögð Valdísar létu ekki á sér standa þegar hún sá kjólinn í fyrsta sinn.
„Ég held að það hafi ekki komið nein orð. Ég var meira orðlaus og svo kom gæsahúðin.“
Valdís hefur nú sett kjólinn á sölu með verðmiða uppá 750 þúsund krónur. Það þykir líklegast vel sloppið þar sem Hanna Rún verðleggur kjól sem þennan á eina og hálfa milljón.
Brúðarvalsinn var danskeppni
Hanna Rún sá ekki aðeins um að hanna og sauma brúðarkjólinn heldur tók hún einnig virkan þátt í brúðkaupsveislunni ásamt eiginmanni sínum og dansfélaga, Nikita Bazev.
„Hugsunin var allan tímann að hafa brúðkaupið stórt partý, enda erum við bæði orðin fullorðin, ég er 45 ára og maðurinn minn fimmtugur. Þannig að við tjölduðum öllu til í skemmtiatriðum. Veislustjórinn var Rikki G og til okkar komu Sigga Kling, Pétur Jóhann, Ingó veðurguð og svo var brúðarvalsinn okkar í anda Dancing with the Stars þar sem ég keppti við eiginmanninn. Ég dansaði við Nikita og hann dansaði við Hönnu Rún,“ segir Valdís og brosir er hún rifjar upp keppnina. En hver ætli hafi unnið það kvöldið?
„Ég vann, en við höfum hvorugt farið í danstíma. Við erum meira „action“ fólk, en snjósleðasportið á hug okkar beggja og vorum við því með snjósleðana okkar í myndahorninu í veislunni.“
Mælir með að hafa góðan veislustjóra
Valdís kann vel við hjónalífið.
„Það er eitthvað sem gerist í hjartanu við að giftast. Eitthvað sem ég get ekki útskýrt en einhvers konar sameining,“ segir Valdís og á nokkur góð ráð til verðandi brúðhjóna uppí erminni.
„Ég mæli með að hafa góðan veislustjóra. Við réðum Rikka G og það sem gerist við að fá sér fagmann er að maður sleppir bara tökum og nær 100% að njóta. Síðan var fólk alltaf að segja: Þetta er ykkar dagur og þið ráðið þessu sjálf. Þið ráðið öllu. Mér fannst þetta alltaf voðalega skrítið hvernig fólk orðaði þetta en í dag skil ég þetta. Ég mæli með því að hugsa þetta. Ég er orðlaus yfir okkar degi og hvað hann er rosalega merkilegur dagur.“
Myndir / Úr einkasafni