Sema Erla Serdar stjórnmála- og Evrópufræðingur og baráttukona fyrir mannréttindum greinir frá því í færslu á Facebook að hún hafi kosið sér forseta í fyrsta sinn á ævinni í dag.
„Með því á ég ekki við að ég hafi verið að mæta á kjörstað eða greiða atkvæði í forsetakosningum í fyrsta sinn,“ segir Sema Erla, sem er 33 ára. Segist hún ávallt hafa skilað auðu og ávallt verið þeirrar skoðunar að leggja eigi forsetaembættið niður
„Þar til í dag. Í dag greiddi ég atkvæði með sitjandi forseta lýðveldisins Íslands,“ segir Sema Erla.
„Það er ekki vegna þess að skoðun mín á embættinu hafi breyst. Það er vegna þess að ég ætla ekki að hafa það á samviskunni að hafa greitt leið einstaklings sem hefur sýnt af sér í orði og verki fordóma, kvenfyrirlitningu, þjóðernishyggju og múslimaandúð að embætti forseta Íslands.“
Sema Erla segir að það megi sjá til að mynda á því að flokkur Guðmundar Franklíns Jónssonar forsetaframbjóðanda, Hægri grænir, sameinaðist Íslensku þjóðfylkingunni (flokkur þjóðernissinna, nasista, rasista og útlendingahatara), aðdáun hans á Trump, ummælum hans um konur og múslima og hans helstu stuðningsmönnum, sem spúa öfgum og hatri í garð minnihlutahópa við hvert tækifæri.
„Ég kaus mér forseta því það fylgir því ábyrgð að hafa þann rétt að geta kosið í lýðræðislegum kosningum – rétt sem er ekki til staðar alls staðar eða fyrir alla – rétt sem auðveldlega er hægt að taka af okkur,“ segir Sema Erla.
Hún bendir einnig á að mikilvægt sé að mæta á kjörstað og greiða atkvæði með þeim frambjóðanda sem fólk velur, skoðanakannanir valdi því að kjósendur telji niðurstöðuna ljósa.
„Ég kaus mér forseta vegna þess að þegar einn frambjóðandi hefur yfirburði í skoðanakönnunum rétt fyrir kosningar er líklegt að stuðningsfólk hans muni ekki mæta á kjörstað. Hinir munu þó allir gera það og þá er hætta á að kosningarnar fari öðruvísi en kannanir bentu til.“
Sema Erla ítreka síðan orð sín um samvisku sína og spyr hvað aðrir kjósendur ætla að gera:
„Ég ætla ekki að hafa Guðmund Franklín á samviskunni. Ég fór og kaus því ég ætla ekki að bera ábyrgð á því að popúlisti sem vill sundra samfélaginu okkar, sem við erum alla daga að reyna að sameina, verði forseti Íslands. En þú?“