Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Sema Erla opnar sig upp á gátt um líflátshótanir og rasísk skilaboð: „Þið munuð ekki sigra mig!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Baráttukonan kraftmikla, Sema Erla Serdar, hefur orðið fyrir miklum kynþáttafordómum hér á landi í mörg ár.

Hún er orðin þreytt á ástandinu og skrifaði pistil um það, sem byrjar svona:

„Mikið rosalega er svona áreiti alveg gjörsamlega óþolandi. Það er ógeðslegt hvernig fullorðið fólk leyfir sér endalaust að ráðast inn í líf mitt til þess að áreita mig og níðast á mér og uppruna mínum í þeim tilgangi að niðurlægja mig, brjóta mig niður og bara ganga frá mér!“

Sema Erla Serdar.

Hún segir að „í um áratug hef ég þurft að sitja undir fordómum, menningarlegum rasisma, íslamófóbíu, hatursorðræðu, hótunum og ofbeldi. Um mig eru skrifuð fjöldi ummæla á netið í hverri viku. Mér eru send skilaboð, ég fæ tölvupósta, það er hringt í mig. Mér er óskað dauða, mér er hótað ofbeldi og lífláti, það er hvatt til þess að ég sé myrt, mér er hótað kynferðisofbeldi, það er hótað að drepa fjölskylduna mína. Það er ráðist á mig úti á götu.“

Sema Erla segir að „þetta endalausa áreiti og ofbeldi er afleiðing af áratugalöngu skipulögðu persónuníði, ærumeiðingum, lygum og áróðri um mig af hálfu einstaklinga, hópa og fjölmiðils sem eiga það sameiginlegt að vera þjóðernissinnar, rasistar og ný-nasistar.“

- Auglýsing -

Hún færir í tal að henni séu „gerðar upp annarlegar hvatir, óheilindi og alls konar rugl og það er fullt af fólki sem trúir því. Ástæðan? Ég er kona af blönduðum uppruna sem vill að við tökum á móti fólki á flótta með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi. Það er glæpurinn sem réttlætir ofbeldi gagnvart mér.“

Sema Erla hafði betur gegn Margréti Friðriksdóttur í dómsal, eins og Mannlíf fjallaði um.

Sema Erla segir að hún sé í raun varnarlaus gagnvart slíkum hatursáróðri og hötunum:

„Það á enginn að þurfa að lifa við svona ofbeldi árum saman en við sem það gerum erum algjörlega varnalaus gagnvart þessu! Að einhverju leyti er þessi hegðun enn samfélagslega samþykkt. Það birtist meðal annars í því að kerfið verndar ekki þolendur fyrir svona áreiti og þetta ofbeldi hefur ekki neinar raunverulega afleiðingar fyrir gerendur. Afleiðingarnar geta hins vegar verið miklar og alvarlegar fyrir þolendur. Það er ekkert að grín að lifa með hatursorðræðu, áreiti og menningarlegan rasisma sem hluta af þínu daglega lífi!“

- Auglýsing -

Fyrir sjö árum tók Sema Erla „upp á því að birta skjáskot af skilaboðum og ummælum sem skrifuð eru um mig. Það gerði ég í leit minni að réttlæti og til þess að skila skömminni. Síðan þá hef ég birt margt af því sem ég fæ sent. Ekki allt, því sumt er þess eðlis að ég bara get það ekki. Þetta er það eina sem ég get gert. Þetta er mín leið til þess að skila skömminni. Í stað þess að sitja á henni, gera hana að minni, og láta hana brjóta mig niður. Því skömmin er svo sannarlega ekki mín.“

Hún nefnir að endingu að „svona ógeðsleg ummæli segja auðvitað ekkert um mig en mjög mikið um þann sem finnst í lagi að stunda svona áreiti. Við ykkur sem hagið ykkur svona vil ég segja að á meðan þið getið ekki látið mig í friði mun ég halda áfram að skila skömminni, opinbera ykkur og birta viðbjóðinn og hatrið sem þið sendið mér. Ég mun halda áfram að kæra ykkur sem beitið mig ofbeldi. Megið þið hafa ævarandi skömm fyrir hegðun ykkar.

Þið munuð ekki sigra mig!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -