Sema Erla Serdar er stofnandi Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.
Hún segir að hluti þeirra hælisleitenda sem voru fluttir af landi brott síðastliðinn fimmtudag með mikilli hörku og í skjóli nætur séu heimilislausir og án matar; að þá gangi stúlkurnar sem voru í námi við FÁ ekki í skóla í höfuðborg Grikklands, Aþenu.
Sema Erla reynir allt hvað hún getur til að halda sambandi við sem flesta þá sem reknir voru héðan, en það sé erfitt enda hafa margir þeirra ekki tök á því að hlaða símana sína:
„Hussein hefur síðustu daga farið á milli spítala í Aþenu í leit að hjálp. Hann er mjög veikur og þarf að komast undir læknishendur. Hann kemur alls staðar að lokuðum dyrum. Enginn vill hjálpa honum. Honum er alls staðar vísað í burtu,“ ritar Sema Erla Serdar og bætir við:
„Honum er tjáð að spítalinn sé lokaður á meðan annað fólk gengur þar inn. Svo mikil er fyrirlitningin og fordómarnir í garð flóttafólks í Grikklandi að veikt fólk fær ekki aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það er búið að svipta flóttafólk mennskunni. Það er búið að taka af þeim mannlega reisn.“
Sema Erla segir að „þetta eru aðstæðurnar sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sér ekkert athugavert við að senda fatlað flóttafólk í; aðstæður þar sem ofbeldi, mismunun og niðurlæging tekur á móti flóttafólki, þar sem það nýtur engrar virðingar. Aðstæður sem ráðherrar segja uppfylla lagalegar skuldbingingar um vernd (bla) fyrir flóttafólk. Aðstæður sem þingfólk segir flóttafólk ljúga til um. Það er nokkuð ljóst að einu lygararnir og óþokkarnir eru íslensk stjórnvöld!“