Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Sema um leik Skallagríms og Berserkja: „Hvenær ætlar KSÍ að fara að taka á kynþáttafordómum?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Baráttukonan Sema Erla Serdar og stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, tjár sig um atvikið sem átti sér stað í leik Skallagríms og Berserkja. Hún veltir fyrir sér hvenær KSÍ ætli að taka sig á og fara að taka á kynþáttafordómum í boltanum af alvöru með skilvirku fræðslu- og forvarnarstarf.

„Hvað þarf til, ef atvik og umræður síðustu vikur erlendis sem og hérlendis, duga ekki til? Ef ekki núna, hvenær í ósköpunum þá,“ spyr Sema Erla á Facebook.

Tilefni skrifanna er atvik sem kom upp í fyrrakvöld í leik Skallagríms og Berserkja í 4. deildakarla í fótbolta, þar sem leikmaður Skallagríms er sagður hafa kallað leikmann Berserkja apakött og sagt honum að drullast heim til Namibíu. Skallagrímur hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem segir að Knattspyrnudeild Skallagríms muni ekki líða það að leikmenn viðhafi ummæli sem fela í sér kynþáttafordóma. Félagið muni grípa til viðeigandi ráðstafana í samráði við KSÍ.

„Viðbrögð sumra leikmanna, þjálfara, fyrirmynda og yfirmanna í knattspyrnusamfélaginu hér á landi einkenndust af meðvirkni, skilningsleysi og aðgerðarleysi.“

Sema Erla tjáir sig um yfirlýsinguna. Hún segir að það sé gott og vel að Skallagrímur ætli að grípa til viðeigandi ráðstafana í samráði við KSÍ. Viðbúið sé að umræddur leikmaður sem ekki hafi beðist afsökunar á rasismanum, verði dæmdur í langt bann fyrir ítrekaða kynþáttafordóma í leiknum í gær (og áður), strax eftir helgi, þar sem það er yfirlýst stefna beggja aðila að kynþáttafordómar sé ekki liðnir og að honum hefur áður verið refsað fyrir slíkt. „Þá má einnig búast við því að hann fái fræðslu og kennslu sem hjálpi honum að komast yfir rasisma sinn, áður en hann fær að snúa til baka í leikinn,“ skrifar Sema.

Sema telur að eflaust væri þó aðeins meiri trúverðugleiki í orðum Skallagríms ef umrædddur leikmaður hefði ekki árið 2015 verið dæmdur í tveggja ára vallarbann af KSÍ fyrir rasisma af áhorfendabekkjunum í garð dómara í leik sem hann horfði á.

Hún segir að kynþáttafordómar í knattspyrnu hafi lengi verið vandamál í boltanum og íslensk knattspyrna sé engin undantekning þar á. „Ekki er langt síðan leikmaður var dæmdur í nokkurra leikja bann hér á landi fyrir rasísk ummæli í beinni útsendingu. Viðbrögð sumra leikmanna, þjálfara, fyrirmynda og yfirmanna í knattspyrnusamfélaginu hér á landi einkenndust af meðvirkni, skilningsleysi og aðgerðarleysi. Ummæli þeirra voru meðal annars á þá leið að „þetta væri nú óþarfi, það þarf ekki að refsa mönnum fyrir svona „mistök“ og að það er nú ýmislegt sagt í hita leiksins.“ Allt eru þetta dæmi um ummæli sem afsaka, ýta undir og viðhalda rasisma í fótbolta og annars staðar í samfélaginu. Ég vona að þessir aðilar hafi eitthvað lært af umræðunni síðustu vikur og átti sig á að viðbrögð þeirra voru ekki í lagi.“

- Auglýsing -

Þegar þetta átti sér stað segir hún að hún og fleiri hafi hvatt Knattspyrnusamband Íslands til þess að bregðast við rasisma í fótbolta á Íslandi með skilvirkum hætti. „Til dæmis með því að setja skýrar verklagsreglur, reglur um viðbrögð við rasisma og viðeigandi refsiaðgerðir og einnig, og sérstaklega, að auka fræðslu innan knattspyrnusamfélagsins á fjölmenningu, mannréttindum og rasisma og alvarleika og hættulegum afleiðingum rasisma fyrir einstaklinga sem og samfélagið í heild sinni, sem ég veit ekki betur en að sé ekki nein í dag. Viðbrögðin við þessum áskorunum og boð frá mér og fleiri sérfræðingum um að aðstoða með slíkt, voru engin.“

Hún vonast til að ferill viðkomandi leikmanns Skallagríms hafi sýnt yfirmönnum knattspyrnusamfélagsins á Íslandi að refsingar dugi ekki til, að þær lækni einstaklinga ekki af rasisma, þó þær séu vissulega nauðsynlegar, ekki frekar en að einstaklingar sem búa ekki yfir rasisma láti frá sér rasísk ummæli (ítrekað) í hita leiksins.

Loks spyr Sema hvenær KSÍ ætlui að taka sig á og fara að taka á kynþáttafordómum í boltanum af alvöru með skilvirku fræðslu- og forvarnarstarfi. „Hvað þarf til, ef atvik og umræður síðustu vikur erlendis sem og hérlendis, duga ekki til? Ef ekki núna, hvenær í ósköpunum þá? Eins og áður stendur aðstoð mín ykkur til boða. Þetta er alls ekki stórt skref að taka. Það er ekkert að hræðast. Það er bara að byrja!“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -