Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Semur leikrit um kynferðislega áreitni: „Mennirnir hér eru töluvert grófari“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Karen Erludóttir flutti til Los Angeles í september 2016 til að læra kvikmyndaleiklist í skólanum New York Film Academy. Hún vinnur nú að lokaverkefni sínu þar sem hún safnar saman sögum kvenna af kynferðislegri áreitni. Hún segir Los Angeles vera sitt annað heimili, þó að borgin hafi vissulega sína galla eins og aðrir staðir í heiminum.

Auðvitað er Karen búin að heimsækja Central Perk, enda mikill Friends-aðdáandi.

„Ég er mikið fiðrildi að eðlisfari og hef búið á hinum og þessum stöðum í heiminum og fannst því þessir flutningar ekkert nema spennandi. Það er auðvitað alltaf erfitt að skilja eftir fólkið sem maður elskar, en maður verður að elta draumana sína meðan maður getur. Veðrið hér hjálpar líka heilmikið. Það er erfitt að fá heimþrá þegar maður liggur við sundlaugarbakkann að sleikja sólina,“ segir Karen og hlær.

Heilsteyptari og hamingjusamari

Karen útskrifast í vor með AFA-gráðu í leiklist frá New York Film Academy í Los Angeles. Þó að áherslan í náminu sé á leiklist, lærir Karen flest sem tengist kvikmyndagerð, svo sem leikstjórn, lýsingu, klippivinnu og fleira.

„Það að fara í þetta nám er án efa besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir Karen sem blómstrar á þessari braut þótt námið taki oft á. „Námið er gífurlega krefjandi, erfitt og ég hef aldrei þurft að gefa jafnmikið af mér, en það er allt þess virði. Í sannleika sagt finnst mér mjög leiðinlegt að ég sé alveg að fara að útskrifast sem er alveg glæný tilfinning, en ég held að það segi allt sem segja þarf,“ segir Karen. Hún bætir við að námið hafi í raun þvingað hana til að fara í mikla og djúpa sjálfskoðun.

„Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart í þessu námi er hvað ég hef kynnst sjálfri mér mikið, eins fáránlegt og það kannski hljómar. Ég hef töluvert meira sjálfstraust en ég hef nokkurn tíma haft og er miklu öruggari í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Ég kem ekki bara út úr náminu sem reyndari leikkona heldur líka sem miklu heilsteyptari og hamingjusamari einstaklingur. Sem er algjörlega ómetanlegt.“

Karlmenn í Los Angeles talsvert grófari

Karen vinnur nú í lokaverkefni sínu, sem felst í því að hún skrifar sitt eigið leikrit og setur það síðan á svið í lok annar. Hún ákvað að sækja innblástur úr tíðarandanum í samfélaginu og #metoo-byltingunni.

- Auglýsing -

„Ég hef ekki mikla reynslu í að semja en ákvað að fyrst þetta er eitthvað sem ég á að gera þá ætla ég að gera það almennilega. Ég vildi því skrifa sögu sem skiptir máli, nýta tækifærið til hins ýtrasta og vonandi hafa einhver áhrif. Ég ákvað því að skrifa um kynferðislega áreitni gagnvart konum þar sem það er eitthvað sem við lendum allar í, á einn hátt eða annan, og það virðist bara vera normið sem það á svo sannarlega ekki að vera,“ segir Karen. Til að fá vissa breidd í verkið ákvað hún að auglýsa eftir sögum kvenna sem lýstu þessari áreitni. Þar kom hún ekki að tómum kofanum.

„Mér fannst ég ekki getað skrifað aðeins út frá minni reynslu og mínu sjónarhorni, svo ég auglýsti eftir sögum frá öðrum konum, því þetta er ekki bara mín saga, þetta er sagan okkar allra. Ég fékk gífurlegt magn af sögum sem ég er rosalega þakklát fyrir, en á sama tíma gera þær mig svakalega reiða. Það sýndi mér bara enn þá frekar hvað það er mikilvægt að tala um þetta, opna augu fólks,“ segir þessi dugnaðarforkur og bætir við að ekki sé of seint að senda henni sögu.

Karen fékk smjörþefinn af bransanum þegar hún fór á Óskarsverðlaunahátíðina fyrr á árinu.

„Ég er enn að taka á móti sögum og hver saga hjálpar. Ég sjálf hef heilt haf af sögum að segja og þá sérstaklega eftir að ég flutti hingað til Los Angeles, þar sem mennirnir hér eru töluvert grófari og það var aðalkveikjan að þessari hugmynd. Viðhorfið þarf að breytast og ég ætla ekki bara að sitja á rassinum og vona að það gerist, svo ég er að reyna að leggja mitt af mörkum. Eins og staðan er núna er þetta bara skólaverkefni, en það er aldrei að vita nema ég fari með þetta eitthvað lengra.“

Lenti næstum í árekstri við Courteney Cox

Los Angeles hefur oft verið kölluð borg draumanna, enda margir sem leggja leið sína þangað eingöngu með drauma um frægð og frama í farteskinu. Því verð ég að spyrja hvort Karen vilji festa rætur í borginni?

- Auglýsing -

„Eins og ég nefndi áðan þá er ég mjög mikið fiðrildi og er því ekki aðdáandi þess að plana langt fram í tímann. Ég vil frekar bara bíða og sjá hvert lífið tekur mig. En eftir útskrift er stefnan tekin heim til Íslands og í sumar verð ég að kenna börnum og unglingum leiklist. Hvar ég verð í haust eða vetur er hins vegar ekki ákveðið. Ég er mjög heimakær þrátt fyrir að vera fiðrildi og mig langar rosalega að geta unnið sem leikkona heima á Íslandi. Ég er þó ekki tilbúin til að kveðja Los Angeles alveg, svo ég kem hingað fljótt aftur,“ segir Karen sem er mjög hugfangin af borg englanna. „Borgin hefur að sjálfsögðu sína galla, eins og hver annar staður, en hér líður mér vel. Los Angeles verður án efa alltaf mitt annað heimili.“

Talandi um borg draumanna, þá hafa sumir þá ímynd af Los Angeles að þar séu stjörnur á hverju horni. Er það rétt?

„Ég myndi kannski ekki segja á hverju horni, en skólinn minn er við hliðina á Warner Brothers Studios og ég bý þar mjög nálægt svo ég hef séð töluvert margar stjörnur. Sem brjálaður Friends-aðdáandi mun það alltaf standa upp úr þegar Courteney Cox/Monica Geller keyrði næstum á mig. Hún varð alveg miður sín, en ég var ekki lengi að fyrirgefa henni þetta. Annars hef ég líka séð Matt LeBlanc, Ellen, Önnu Faris, Celine Dion, Wilson Bethel, Leu Thompson, Margot Robbie, Chris Pratt, Apl.de.ap, Redfoo og marga fleiri,“ segir Karen.

Á góðri stundu með Apl.de.ap úr ofurgrúbbunni Black Eyed Peas.

Sýnd klámmynd í Uber-bíl

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur upplifað í Los Angeles?

„Ég er hreinlega ekki viss um hvort það sé Uber-bílstjórinn sem sýndi mér klámmyndina sem hann lék í, á meðan hann var að keyra, alveg óumbeðinn. Eða komast að því að strákurinn sem bjó í íbúðinni fyrir ofan mig var Íslendingur. Ég meina, við erum nú ekki mörg og Los Angeles er mjög stór borg. Eða þegar ég fann tvífara minn hér og lenti með henni í bekk. Við erum ekki bara mjög líkar útlitslega heldur með nánast sama persónuleika og sama smekk á öllu. Það eru einhver stórundarleg tengsl okkar á milli og við vitum nánast hvað hin er að hugsa öllum stundum,“ segir Karen.

En það skemmtilegasta?

„Úff, það er afar erfitt að velja bara eitt. Eitt af því sem ég mun aldrei gleyma er þegar ég fór á Óskarinn og þegar ég horfði á tökur á Mom-þáttunum í Warner Brothers Studios og var dregin upp á svið. Þeim fannst svo áhugavert að ég væri íslensk, en Ameríkanar gjörsamlega elska okkur, svo þau spurðu mig spjörunum úr um Ísland og báðu mig svo að lokum að syngja fyrir þau á íslensku,“ segir Karen, sem fékk ekki að sleppa við það, enda Óskarsverðlaunaleikkona í leikaraliðinu.

Karen með tónlistarmanninum Redfoo sem er hvað þekktastur úr sveitinni LMFAO.

„Ég syng ekki fyrir framan fólk og neitaði því. Þau tóku hinsvegar ekki neitun sem svari og þegar sjálf Allison Janney var farin að hvetja mig áfram gat ég eiginlega ekki sagt nei. Ég meina, konan var tilnefnd, og vann síðan Óskarinn. Svo ég söng eina íslenska lagið sem mér datt í hug í augnablikinu, Rómeó og Júlíu, án undirspils og í míkrafón fyrir framan sirka þrjú hundruð manns og töluverður hluti þeirra var mikilvægt fólk í bransanum. Það þagnaði hver einasta sála í öllu stúdíóinu og starði á mig. Ég þakka enn fyrir það að hafa ekki liðið út af. En þvílíkt adrenalínkikk sem þetta var,“ segir Karen og brosir þegar hún hugsar um þetta stórkostlega augnablik.

Matvöruverslanir eins og félagsmiðstöðvar

Í náminu sem Karen er í er aðaláhersla lögð á leiklist.

Ísland togar í okkar konu og það er ýmislegt sem hún saknar frá heimalandinu.

„Fyrir utan fjölskyldu mína og vini sakna ég klárlega íslenska vatnsins. Nói Siríus kemst að vísu ansi nálægt vatninu, en samviskan segir að velja vatnið frekar,“ segir Karen og hlær. „Ég sakna líka íslensku menningarinnar mjög mikið. Menningin hér er töluvert ólík, sem kom mér mikið á óvart. Hér verð ég rosalega mikið vör við kynþáttahatur, gömul viðhorf gagnvart konum og bara almennt er mun meira misrétti en á Íslandi. En aftur á móti er fólk mun opnara hér og þú lendir miklu oftar í því að spjalla við bláókunnugt fólk tímunum saman. Það að skreppa inn í matvöruverslun hér getur oft verið eins og að ganga inn í félagsmiðstöð, á meðan þú labbar inn í Bónus heima og segir ekki orð allan tímann. Tækifærin í Los Angeles eru líka endalaus og töluvert meira úrval en heima á Íslandi. Ég gæti, held ég, þulið endalaust upp en Los Angeles og Ísland eru bara afar ólíkir staðir að öllu leyti, það er í það minnsta ekki margt sem þessir staðir eiga sameiginlegt.“

Ævistarfið er leiklistin

Talið berst að framtíðardraumunum og þó að Karen sé mikill flakkari og plani ekki langt fram í tímann er ljóst að leiklistin á eftir að spila stórt hlutverk í lífi hennar.

„Mig hefur alltaf langað að vera leikkona, alveg síðan ég man eftir mér. Aumingja mamma þurfti að horfa á ófá leikritin heima í stofu þegar ég var krakki. Svo þegar hún var hætt að nenna, tók ég þau bara upp á myndavél og horfði svo sjálf. Ég fékk síðan loksins kjarkinn til að sækja um að komast í skólann og sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég sé mig ekki gera neitt annað í lífinu.“

Í Los Angeles er alltaf sól og blíða.

Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -