Leikkonan Meghan Markle gengur að eiga Harry Bretaprins þann 19. maí næstkomandi. Meghan skildi við leikarann og framleiðandann Trevor Engelson árið 2013 eftir tveggja ára hjónaband, en í nýrri bók, Meghan, A Hollywood Princess eftir Andrew Morton, kemur fram að Trevor hafi ekki haft hugmynd um að erfiðleikar hafi verið í hjónabandinu þegar Meghan bað um skilnað. Þetta kemur fram í frétt The Times.

„Trevor fór frá því að tilbiðja Meghan í, eins og einn vinur benti á, að líða eins og hann væri eitthvað sem væri fast við skósólann hennar,” skrifar Andrew í bókinni sem kom út fyrir stuttu.
Sjá einnig: Allt sem við vitum um konunglega brúðkaupið
Vinur parsins heldur því fram að hjónabandið hafi endað mjög skyndilega og að Meghan hafi sent trúlofunar- og giftingarhringana í pósti til Trevors. Annar vinur parsins, sem er nafnlaus í bókinni, segir einnig að ákvörðunin um að binda enda á hjónabandið hafi verið tekin af Meghan og hafi komið Trevor algjörlega í opna skjöldu.

Heimildir Andrews herma að slitnað hafi uppúr hjónabandinu vegna þess hve mikið Trevor og Meghan voru í sundur, þar sem leikkonan eyddi miklum tíma í Toronto við tökur á sjónvarpsþáttunum Suits. Þá segir einnig í bókinni að ein af ástæðum þess að sambandið gekk ekki upp hafi verið að ferill Trevors var ekki á jafn hraðri uppleið og ferill Meghans.
Sjá einnig: Meghan Markle geislar í brúðarkjól
„Á meðan hennar frægðarsól reis var ferill eiginmanns hennar ekki uppá marga fiska,” skrifar Andrew í bókinni og bætir við að Trevor sé enn reiður yfir sambandsslitunum.
„Þó fimm ár séu liðin getur hann varla dulið reiði sína.”
