Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi bregst við umfjöllun CBS og íslenskra fjölmiðla.
„Áhersla okkar í bandaríska sendiráðinu á Íslandi er áfram sú sama og hún hefur ávallt verið – það er að styrkja tvíhliða samband Bandaríkjanna og Íslands sem er til hagsbóta fyrir okkar frábæru þjóðir,“ segir Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, í skriflegu svari til mbl.is. Segir hann það vera sér mikinn heiður að leiða teymi þeirra „á þessum farsæla tímabili gagnkvæmrar velþóknunar og virðingar milli Bandaríkjanna og Íslands,“ eins og það er orðað í frétt mbl.is.
Gunter hefur verið til umræðu í íslenskum fjölmiðlum eftir umfjöllun CBS sem heldur því fram að sendiherrann vilji sérstakt leyfi til að bera skotvopn hérlendis, vopnaðan lífvörð og brynvarðan bíl þar sem hann óttist um líf sitt á Íslandi. Umfjöllunin hefur ekki beint fallið í kramið meðal netverja hérlendis.
Sjá einnig: Umfjöllun um sendiherra veldur usla
Í fyrirspurn mbl.is til sendiherrans og bandaríska sendiráðins á Íslandi er meðal annars spurt hvort umfjöllun CBS sé efnislega rétt og hvort sendiherrann upplifi sig öruggan hérlendis og hvort honum hafi borist hótanir vegna stöðu sinnar sem sendiherra á Íslandi. Í svari sendiráðsins segir að stefna bandarískra stjórnvalda sé að tjá sig ekki um öryggismál sem lúta að sendiráðum eða starfsfólki þeirra.