Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Séra Davíð Þór um helvíti og tiltal biskups: „Sá ekki fyrir að viðbrögðin yrðu svona heiftarleg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, hristi upp í mörgum nýverið þegar hann á Facebook-síðu sinni skaut hörðum skotum að ríkistjórninni vegna málefna flóttamanna og hælisleitenda og notaði meðal annars orðið „helvíti“ í þeim pælingum. Hann fékk í kjölfarið tiltalsbréf frá biskupi sem hann líkir við gula spjaldið. Í viðtali við Mannlífið með Reyni Traustasyni ræðir hann meðal annars um þessar pælingar sínar, tiltalsbréfið og flóttamenn. Þá ræðir hann einnig um Radíusbræður og húmor og svo er það dauðinn.

 

Þú varst nú grimmur um daginn þegar þú sagðir að ríkisstjórnin færi til helvítis.

„Ég sagði það nú ekki. Ég vitnaði í orð Martin Luther Kings sem sagði að heitustu staðirnir í helvíti væru fráteknir fyrir þá sem ekki taka afstöðu gagnvart siðferðislegu ófremdarástandi. Ég vitnaði líka í Madeleine Albright sem sagði að það væri sérstakur staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki konum. Þetta er bara orðtak að það sé sérstakur staður í helvíti fyrir þessa og hina,“ segir séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju.

Og það varð allt vitlaust.

„Það varð allt vitlaust, já, af því að þið hafið litið svo á að ég væri með lyklavöld að helvíti og ég væri búinn að panta svíturnar þar fyrir ríkisstjórn Íslands. Og það er kallað „hótanir“ sem ég skil ekki alveg. Hótun hlýtur að fela það í sér að maður sé í aðstöðu til þess að láta verða af henni, er það ekki? Myndir þú taka það alvarlega ef ég myndi hóta þér því að þú fengir loftstein í hausinn á leiðinni heim?“

- Auglýsing -

Nei, ætli það. Ég myndi halda að þú ættir kannski erindi til læknis.

Þetta kemur kirkjunni ekkert við.

„Nákvæmlega. Af einhverjum ástæðum voru þessi ummæli mín skilin sem hótun og það er vegna þess að ég er prestur. Ef ég hefði verið í einhverju öðru starfi þá hefði fólk látið þetta sem vind um eyru þjóta. En pældu í því hvað það er áhugavert að viðbrögðin eru: „Það er grafalvarlegt að kirkjan sé að tjá sig með þessum hætti.“ Fyrirgefðu, kirkjan var ekkert að tjá sig með þessum hætti. Það var ég, borgari í þessu samfélagi, að tjá mig heima á minni persónulegu Facebook-síðu. Þetta kemur kirkjunni ekkert við. Ef ég væri bakari hefði þá einhver sagt „það er grafalvarlegt að Myllan sé farin að skipta sér af þjóðfélagsumræðu“? Þar fyrir utan auðvitað á kirkjan að skipta sér af þjóðfélagsumræðu; það er beinlínis í starfslýsingunni.“

Davíð Þór er bent á að hann sé orðinn svo mikið í fararbroddi fyrir presta og akkúrat í þessum málum og það sé þess vegna svolítið erfitt að skilja á milli Davíðs Þórs óbreytta og séra Davíðs Þórs.

- Auglýsing -

„Það er nefnilega málið.“

Þegar ég tek af mér kragann og ég verð aftur bara Dabbi Jóns úr Hafnarfirði.

Ertu ekki alltaf séra Davíð Þór, alveg sama hvar þú kemur?

„Í raun og veru er ég alltaf séra Davíð Þór, jú, sama hvert ég kem. En það er samt munur á því hvenær ég er í starfi og hvenær ekki. Ég er ekki í vinnunni núna. Ef síminn myndi hringja og ég væri kallaður eitthvað út í bæ í sorgarhús eða af því að það væri eitthvað neyðarástand þá myndi ég setja á mig kragann og þá er ég orðinn séra Davíð Þór. Þá er ég kominn í vinnuna. Og þá gilda allt aðrar reglur um það hvernig ég haga mér og hvað ég segi heldur en þegar ég tek af mér kragann og ég verð aftur bara Dabbi Jóns úr Hafnarfirði.“

 

Tiltalsbréf

Davíð Þór var snupraður fyrir ummælin. Hvernig leið honum með það?

„Mér fannst það ósanngjarnt. Því máli er lokið af hálfu biskups; ég treysti því bara að hún standi við það.“

Það má segja að tiltal sé eins og að vera á gulu spjaldi.

Var það áminningarbréf?

„Já, það heitir tiltalsbréf. Málinu er lokið og ég vil ekki endilega tjá mig mikið um innihald þess bréfs; ég þarf að hugsa um atvinnuöryggi mitt og fjárhagsafkomu fjölskyldunnar af því að tiltal er hluti af uppsagnarákvæðum kjarasamnings Prestafélags Íslands. Þannig að það má segja að tiltal sé eins og að vera á gulu spjaldi. Og leikmaður sem er búinn að fá gult spjald; það hefur pínulítil áhrif á leikstílinn. Þannig að allavega sem stendur og allavega á meðan málið er þar sem það er núna þá vil ég ekki tjá mig um það að öðru leyti en því að segja að mér þótti þessi viðbrögð of harkaleg. Það hefði mátt leysa þetta öðruvísi. Ég veit bara að það barst fullt af kvörtunum undan þessu til Biskupsstofu. Málið er að á mig rigndi stuðningsyfirlýsingum en á biskup rigndi annars konar yfirlýsingum. Þannig að ég vildi óska að þeir sem myndu vilja lýsa yfir stuðningi við mig gerðu það við biskup. Það væri skemmtilegra. Það eina sem biskup sér er náttúrlega allt fólkið sem ég er að reita til reiði.“

Séra Davíð Þór er spurður hvort hann hafi séð eftir að hafa skrifað þetta.

„Já, ég geri það vegna þeirra afleiðinga sem það hafði. Ég sá það ekki fyrir að viðbrögðin yrðu svona heiftarleg en aðallega sé ég eftir að hafa tekið sterkt til orða vegna þess að fyrir vikið fór fókusinn af því sem ég var að tala um. Allt í einu vorum við ekki lengur að tala um þá ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að senda tæplega 300 manns í aðstæður þar sem vitað er að mannréttindi þeirra eru virt að vettugi og meðal annars börn og segjandi síðan í hinu orðinu að við höfum lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem er skýrt kveðið á um að hann gildi um öll börn í lögsögu ríkis óháð því með hvaða hætti þau komu þangað og að allar ákvarðanir sem varða heill og hamingju barna eigi að taka með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.“

Þér tókst nú að vekja hraustlega athygli á þessu.

Svo var meira að segja farið að velta upp tilfinningalífi mínu eins og það var fyrir 20 árum.

„Athyglin fór á það hvað ég væri vondur maður, að ég væri að hóta helvítisvist, hvað tilfinningar ákveðins þingflokks væru allt í einu orðnar særðar og hvað ég væri mikill ruddi. Og svo var meira að segja farið að velta upp tilfinningalífi mínu eins og það var fyrir 20 árum. Erum við að að tala um hvernig við sem samfélag komum fram við þá sem höllustum fæti standa mitt á meðal okkar, viðkvæmasta og veikasta hópinn, hóp sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér bókstaflega einfaldlega vegna þess að þau hafa ekki þann rétt einu sinni að höfða mál? Erum við að tala um það hvernig við sem samfélag komum fram við þá sem hvergi hafa höfði að halla eða eigum við að tala um það með hverjum ég bjó um síðustu aldamót?“

Þá ertu að tala um Katrínu [Jakobsdóttur forsætisráðherra].

„Já. Ég sé eftir að hafa sett þetta fram. Ekki vegna þess að ég standi ekki við það sem ég sagði; orðalagið var mjög óheflað. En það sem ég sé eftir er að viðbrögðin urðu á þá lund að í staðinn fyrir að fókusera á það sem umræðuefnið var þá fór það að fókusera á mína persónu, mína sögu og minn talsmála sem er algjörlega óviðkomandi.“

 

Róttækari og rauðari

Davíð Þór hefur væntanlega vakið hraustlega athygli á málum þessa fólks.

„Já, ég vona það.“

Burtséð frá helvítisvistinni og öllu því tali þá setti hann málin á dagskrá; stjórnvöld virðast hafa hrokkið aðeins við.

„Biskup var nýbúinn að senda frá sér yfirlýsingu sem var efnislega samhljóma því sem ég sagði nema að ég sagði það eins og togarasjómaður.“

Það er fínt að vera togarasjómaður.

„Og þá var hlustað.“

Samfélagið er á yfirborðinu slétt og fellt og dýru jepparnir eru komnir aftur og menn eru farnir að gambla í verðbréfum. Sérð þú einhvern allt annan veruleika? Er mikil neyð undir? Er mikil fátækt hjá fleirum kannski en hælisleitendum?

Rasistarnir og útlendingahatararnir eru ekki keyrandi um á 20 milljóna króna jeppum.

„Já, og það er það sem er svo hættulegt. Rasistarnir og útlendingahatararnir eru ekki keyrandi um á 20 milljóna króna jeppum. Þeir eru að draga fram lífið á bótum, sveltandi og horfandi í hverja einustu krónu. Við búum í samfélagi þar sem ríkasta prósentið er með allan auðinn fyrir framan sig, allar kökurnar nema eina: Sá sem verkamaðurinn er með. Og ríki maðurinn segir við verkamanninn: „Passaðu þig á útlendingnum, hann ætlar að taka kökuna af þér.“ Og þannig nær hann að sitja á toppnum og vera í friði og egna þessum hópum hvorum gegn öðrum. Maður skilur það ósköp vel. Þú átt ekki fyrir salti í grautinn, þú átt ekki fyrir tómstundum fyrir börnin þín og þú átt ekki fyrir vetrarflíkum handa þeim og svo sérðu í fréttum að það er verið að flytja hingað inn fólk frá Sýrlandi, flóttamenn, og Ellingsen eru svo góðir að þeir gefa litlu flóttabörnunum fínar Didriksons-vetrarúlpur sem þú getur ekki látið þig dreyma um að þú getir klætt börnin þín í.“

Þarna liggur kannski hluti af meininu.

„Þarna liggur meinið. Nákvæmlega þarna. Ég verð alltaf róttækari og róttækari og rauðari og rauðari í pólitík eftir því sem ég er prestur lenegur og sé betur og kynnist betur fólkinu sem okkar kapítalíska hagkerfi er að skilja út undan.“

Varst þú kannski einhvern tímann til hægri í pólitík?

„Ég hef nú aldrei verið til hægri í pólitík; reyndar alinn upp af formanni Alþýðubandalagsfélags Hafnarfjarðar. En ég held ég hafi aldrei verið eins langt til vinstri og ég er í dag.“

Ég vil sjá okkur taka vel á móti fólki á flótta og sjá okkur setja stórfé í að hjálpa því að aðlagast.

Davíð Þór er spurður hvað hann vilji sjá breytast.

„Ég vil sjá okkur taka vel á móti fólki á flótta og sjá okkur setja stórfé í að hjálpa því að aðlagast. Það er fjárfesting í borgurum, nýjum og nýtum borgurum, vegna þess að okkur vantar mannskap. Það hefur komið í ljós að það tekur tvö ár fyrir meðalhælisleitandann að borga sig upp. Það er að segja hann er búinn að borga til baka það sem var sett í að hjálpa honum til að koma sér fyrir og aðlaga sig. Á tveimur árum er hann búinn að borga það til baka í tekjusköttum og neyslusköttum. Ef hann á bíl sem eyðir miklu bensíni þá ábyggilega miklu fyrr. Það þarf ekki einu sinni sérstaklega þolinmótt fjármagn til að líta á það sem góða fjárfestingu að taka á móti fólki og hjálpa því að koma sér hérna fyrir. Auðvitað þýðir það ekki að við eigum hér að opna dyr okkar fyrir hverjum sem er; ég meina, fólk þarf að laga sig að grundvallarreglum samfélagsins. Ég er ekki að segja að taka upp íslenska menningu. En það eru ákveðnir hlutir sem ég vil kalla ómenningu sem tíðkast í sumum löndum eins og lýsir sér í kvennakúgun og náttúrlega óréttlætanlegri afstöðu til hinsegin og kynsegin fólks og svo framvegis.“ Davíð Þór segir að það þurfi þá að segja að ákveðnir hlutir séu ekki í boði hér í samfélagi okkar.

 

Radíusbræður

Hvað var það sem kom Davíð Þór inn á þá braut að verða prestur?

„Það kann að virðast skrýtið af því að ég hlaut þannig séð ekki kristlegt eða kirkjulegt uppeldi. Ég var ekki í KFUM eða sótti sunnudagaskóla. Ég ólst mikið upp hjá afa mínum og ömmu á Stóru-Fellsöxl í Borgarfirði. Þau voru 19. aldar fólk þannig að maður var signdur áður en maður var settur í ullarbolinn og blessaður og þar með er það upptalið sem er svolítið skrýtið af því að afabróðir minn var prestur en dó löngu áður en ég fæddist. Hann var mikið eldri en afi og afi fæddist árið 1894.

Mér hefur alltaf þótt trú og trúarbrögð mjög heillandi fyrirbæri bara sem partur af mannlegu samfélagi og því hvernig mannssálin virkar. Mér fannst sem krakki að tíbeskir munkar hlytu að vera toppurinn á því að vera á góðum stað andlega. Hvort það var af því að ég las of mikið af Tinna í Tíbet eða hvað það var. Þegar ég var 12 ára máttum við skrifa ritgerð um hvað sem við vildum og ég skrifaði um trúarbrögð mannkyns.

Ég heillaðist af alls konar nýaldarþvælu og vitleysu.

En svo gerðist það að ég var mjög leitandi sem ungur maður. Ég heillaðist af alls konar nýaldarþvælu og vitleysu og var að stúdera þetta þegar ég varð fyrir eins konar trúarlegri reynslu þegar ég var á sjónum og á sama tíma átti ég konu og hún varð barnshafandi að seinna barni okkar og ég fór að hugsa um að koma mér í land – ég var háseti á línubáti frá Sandgerði. Ég ætlaði að fara í íslensku og fór niður í háskólann til að skrá mig í íslensku og sé þar bækling um námsefnið og þar var deild, guðfræðideild. Þannig að ég kíkti aðeins á námsefnið. Ég átti góðan vin sem hafði verið í guðfræðinámi en reyndar ekki lokið því. Mér hafði alltaf fundist þetta svolítið heillandi fag og þar sá ég kúrsa eins og trú og þjóðfélag Hebrea og saga og bókmenntir Hebrea og gríska og hebreska og samtíðarsaga Gamla testamentisins. Mér fannst þetta bara svo heillandi að ég skráði mig í guðfræði. Þetta var haustið 1991.“

Davíð Þór Jónsson stundaði nám við guðfræðideild Háskóla Íslands í tvö og hálft ár. Svo fór hann út í skemmtanabransann.

Hugsaði með mér að guðfræðideildin yrði ekki lögð niður en þessi gluggi yrði ekki endalaust opinn.

„Á meðan ég var í guðfræðinni sló í gegn útvarpsþáttur sem ég og félagi minn, Steinn Ármann, vorum með. Þannig urðu Radíusbræður til. Það hafði alltaf blundað í mér draumurinn um að verða leikari; ég hafði haft áhuga á leiklist. Ég sótti um ítrekað í Leiklistarskóla Íslands. Ég komst þrjú ár í röð í lokaúrtakið án þess að komast inn þannig að það var passlegt þegar ég var búinn að gefa þann draum upp á bátinn þá var ég kominn í þá stöðu eftir tvö og hálft ár í guðfræðinni að það var of mikið að vera í fullu námi og vera líka í „show business“. Þannig að ég varð að velja og hafna og hugsaði með mér að guðfræðideildin yrði ekki lögð niður en þessi gluggi yrði ekki endalaust opinn. Þannig að ég fór „all in“ í „show business“. Eitt leiddi af öðru og 13 árum síðar skráði ég mig aftur í guðfræði og tók upp þráðinn.“

 

Var of mikið

Þið voruð svolítið grófir.

„Við vorum það og lögðum upp með það. Við sögðum að það að panta Radíusbræður að skemmta og kvarta yfir því að við værum grófir væri eins og að panta fatafellu og verða reiður af því að hún fer úr fötunum. En við vorum ekkert að finna þetta upp. Málið er að á þessum tíma í upphafi 10. áratugarins á Íslandi var íslenskt grín of svolítið á eftir með fullri virðingu fyrir þeim frábæru listamönnum sem þá voru að gera grín eins og Spaugstofan, Gísli Rúnar, Halli og Laddi og Ómar Ragnarsson. Það var svolítið fréttagrín og grett, fettu og brettuhúmor en við Steinn höfðum verið að fylgjast með Monty Python sem er sýrður og steiktur húmor og við höfðum verið að horfa á myndbönd með erlendum uppistöndurum eins og Eddie Murphy, Andrew Dice Clay, Billy Connolly og fleirum og þá var þetta bara línan að vera svona rosalega grófur. Við erum í raun og veru afsprengi af þessari alþjóðlegu bylgju af húmor sem þá var að ganga yfir heimsbyggðina. Hún birtist í Radíusbræðrum á Íslandi.“

Ég myndi fá aulahroll.

Davíð Þór er spurður hvernig honum líði þegar hann horfir á þetta í dag.

„Sem betur fer geri ég það ekki. Og ég veit ekki til þess að það séu til neinar upptökur af okkur. Eitthvað gerðum við fyrir sjónvarp, en þá völdum við það mildasta fyrir það. Ég myndi fá aulahroll og ég geri mér alveg grein fyrir því að mikið af Radíusbræðrahúmornum hefur ekki elst neitt vel, enda var hann saminn fyrir stað og stund og sniðinn að stað og stund og var ekkert ætlað að verða eitthvað sígilt sem myndi 30 árum síðar enn þá vera hlegið að. Það var ekkert lagt upp með það. Jú, jú, ég gæti rifjað upp einhverja brandara og beðist afsökunar á hommafordómum og kvenfyrirlitningu og jafnvel rasisma í einhverjum bröndurum. En þessi húmor var barn síns tíma og ég er ekki lengur þar. Þú bara heldur áfram.“

Þið voruð að gera út á ákveðinn húmor og sjokkera. Þið voruð ekkert endilega rasistar?

„Nei, maður fer bara í hlutverk á sviðinu.“

Var meira að gera lítið úr og hæðast að.

Er eitthvað sem þú sérð eftir í einhverju uppistandinu?

„Ég get alveg nefnt eitthvað. Svo verður fólk svo viðkvæmt. Já, já, ég get alveg nefnt ósmekklegt grín sem ég gerði af frægu fólki sem ég hugsa eftir á að var eiginlega ekki í lagi. Var of mikið. Var í raun og veru kannski ekki fyndið; var meira að gera lítið úr og hæðast að. En ég sé enga ástæðu til að vera að rifja það upp. Það er bara búið. Þetta er í fortíðinni. Og ég er búinn að setja tappann á í þessa flösku líka.“

Jú, séra Davíð Þór Jónsson er fyrrverandi sjómaður, fyrrverandi skemmtikraftur og svo er hann fyrrverandi ritstjóri tímaritsins Bleikt og blátt.

„Málið er að vegna sögu minnar og fortíðar þá fæ ég meiri athygli en margir kollegar mínir þó ég sé í raun og veru ekki að gera annað en að segja og gera það sama og þeir eru að gera. Það bara ratar ekki í blöðin þegar þeir gera það. Og því fylgir ákveðin ábyrgð.“ Davíð Þór segir að hann sé ekki eins róttækur og framsækinn og skeri sig úr eins og margir halda.

 

Dauðinn

Davíð Þór er spurður hvort fólk sé aldrei smeykt við hann; mann sem var með þennan rosalega húmor. Er fólk aldrei smeykt við að hann standi ekki undir nafni sem sálusorgari?

„Ábyggilega en það fólk leitar ekki til mín. Það leitar annað. Fólkið sem leitar til mín er voða mikið að leita til mín einmitt vegna þess að það veit hvaðan ég kem og það hefur heyrt mig tala. Partur af ranghugmyndum sem fólk hefur um prestastéttina er að fólk heldur að það mæti bara einhverju bænahjali og hallelújatali þegar það fer að tala við prest um vandamálin sín. En gagnvart mér af einhverjum ástæðum virðist fólk nokkuð sannfært um að það mæti ekki svoleiðis löguðu.“

Hvað segir séra Davíð Þór við deyjandi fólk? Hvað tekur við?

„Ég seti að ég geti ekki vitað það. Ég segi fólki það ekki. Ég spyr það hverju það trúi, hvað það haldi. Ég hjálpa deyjandi fólki að valdefla sig vegna þess að þetta er svo mikil sjálfræðissvipting sem það stendur frammi fyrir þegar það fær þær fréttir að þetta sé að verða búið. Ég hef verið tekinn í prufur af deyjandi fólki; það hefur komið til mín og spjallað við  mig og útskýrt fyrir mér sína stöðu og við spjöllum saman og svo „ok, þú stóðst prófið“ Ég vil að þú jarðsyngir mig“.

Útför þess getur verið nákvæmlega eins og það vill hafa hana.

Ég hef kynnst deyjandi fólki. Það er búið að taka lífið af því og það er orðið leiksoppur afla og örlaga sem það hefur ekkert um að segja. Það getur tekið dauðann í sínar eigin hendur. Það getur ekki lifað á sínum eigin forsendum en það getur dáið á sínum eigin forsendum.“ Og Davíð Þór talar við deyjandi fólk um væntanlega útför þess. „Líf þess og dauði getur ekki orðið eftir höfði þess en útför þess getur verið nákvæmlega eins og það vill hafa hana. Og ég hef orðið var við það að fólk sem er deyjandi upplifir ákveðna reisn og ákveðinn styrk í því.

Ég er ekkert að predika yfir fólki um það hvað bíður handan grafar og dauða vegna þess að við getum ekki vitað neitt um það og staðreyndin er sú að ef þú ætlar að fara að leita að einhverju um það í Biblíunni þá stendur það hvergi. Þú þarft að fara að beita túlkun á ritningarstaði eins og himnaríki. En Jesús sagði líka að himnaríki væri mitt á meðal okkar eða hið innra með okkur. Þannig að í mínum huga talaði Jesús aldrei um himnaríki sem einhvern áfangastað eftir dauðann. Hins vegar veit ég að dánu fólki líður ekki illa.“

Hvernig veistu það?

„Vegna þess að það er dáið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -