Sr. Frank M. Halldórsson fyrrum sóknarprestur í Nessókn er látinn. Hann lést á bráðadeild Landsspítalans í Fossvogi þann 31. júlí s.l. 90 ára að aldri.
Frank fæddist í Reykjavík 23. febrúar 1934.
Frank lauk stúdentsprófi frá MR árið 1954; las síðan guðfræði við Háskóla Íslands; nam einnig guðfræði í Sviss, við The Graduate School of Ecumenical Studies í Chateau de Bossey sem og við Háskólann í Heidelberg í Þýskalandi.
Frank lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands í janúar 1959; prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands tólf árum síðar.
Frank var skipaður sóknarprestur í Nesprestakalli frá 1. janúar árið 1964; gegndi því starfi allt til ársins 2004.
Frank hafði afar mikinn áhuga á því að kynna söguslóðir Biblíunnar; í sextán ár ráku þau Jóna Hansen ferðaskrifstofuna Víðsýn; með þeim fór mikill fjöldi Íslendinga til Biblíulanda.
Frank var formaður Prestafélags Suðurlands í áratug; sat í skipulags- og starfsháttanefnd Reykjavíkurprófastsdæmis í ein þrjú ár.
Útför Franks verður gerð frá Neskirkju, mánudaginn 26. ágúst klukkan 15.00.
Blessuð sé minning hans.