Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Séra Gísli Gunnarsson, nýkjörinn vígslubiskup á Hólum: „Sorgin gleymir engum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Í haust mun ég ásamt konu minni, Þuríði Kr. Þorbergsdóttur, flytja heim að Hólum þar sem við verðum búsett og þaðan mun ég sinna starfinu; við erum svo sem ekki að flytja neitt burt úr Skagafirði. Við erum bara að færa okkur til,“ segir séra Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæ í Skagafirði, sem nýlega var kjörinn vígslubiskup að Hólum. „Vissulega verður töluverð breyting á starfinu þar sem ég hætti að vera sóknarprestur og tek við störfum vígslubiskups sem eru með nokkru öðrum hætti heldur en prestsstarfið.“

Séra Gísli segir að helstu verkefni vígslubiskups að Hólum felist í að sjá um þá starfsemi sem er á Hólum í Hjaltadal og vera kirkjulegur talsmaður staðarins og sjá einnig um þá dagskrá sem þar fer fram til dæmis á sumrin þar sem er messað á hverjum sunnudegi. Þá hafa verið haldnir þar tónleikar og aðrir menningarviðburðir aðallega á sumrin. „Hólastifti er landsvæðið frá Hrútafirði að vestan og austur að Álftafirði þannig að þetta er töluvert stórt svæði og vígslubiskup á að hafa yfirumsjón með kirkjulegu starfi á svæðinu og vera til halds og trausts fyrir starfsfólkið og einnig að heimsækja söfnuðina og sinna þeim verkefnum sem til falla. Svo fylgja þessu embætti líka ýmsar skyldur varðandi nefndarstörf innan stjórnsýslu kirkjunnar eins og til dæmis biskupafundir. Ég mun líka sjá um að messa í Hóladómkirkju í samstarfi við sóknarprestinn sem býr á Hofsósi.“

 

Sr. Gísli Gunnarsson

 

Jón Arason og Guðbrandur Þorláksson

- Auglýsing -

Vígslubiskup að Hólum. Upp í hugann koma gengnir biskupar. Sagan. Í lista yfir Hólabiskupa má meðal annars finna þá sem voru í kaþólskum sið svo sem Jón Ögmundsson (1106-1121), Guðmund góða Arason (1203-1237)  og svo var það Jón Arason (1524 – 1550). Að lútherskum sið má meðal annars nefna Guðbrand Þorláksson (1571-1627). Hvaða máli skiptir það fyrir séra Gísla að verða vígslubiskup á þessum sögufræga stað?

„Það skiptir miklu máli. Þarna var settur á stofn biskupsstóll árið 1106 þannig að sagan er orðin mjög löng og eins hefur verið skólastarf þarna í gegnum aldirnar og er enn. Nú er háskóli á Hólum. Og auðvitað er þarna mikil saga. Manni finnst það dálítið skrýtið að vera hlekkur í þeirri keðju sem þarna er. Ein kirkjan sem ég þjóna er Víðimýrarkirkja og á sínum tíma varð prestur þar biskup að Hólum og það var Guðmundur góði. Þannig að þetta er allavega í annað sinn sem prestur sem þjónar á Víðimýri verður biskup að Hólum.“

Séra Gísli er spurður hvern af fyrirrennurum hans hann líti mest upp til. „Saga Jóns Arasonar er vissulega ákaflega merkileg; hann var síðasti kaþólski biskupinn. Og turninn á Hólum var einmitt reistur til minningar um hann. En ætli maður myndi ekki samt nefna Guðbrand Þorláksson sem gaf út fyrstu Biblíuna á Íslandi, Guðbrandsbiblíu.“

- Auglýsing -

Séra Gísli fetar þannig í fótspor merkra manna.

„Já, reyndar hefur þetta embætti í seinni tíð verið með öðru sniði en var á öldum áður. En engu að síður þá má segja að maður sé að taka þátt í þessari sögu með því að vera kominn til Hóla.“

Það sem ég vil helst leggja áherslu á er að efla þjóðkirkjuna og þá þarf að ná til unga fólksins.

Hvernig vill séra Gísli að fólk minnist hans sem vígslubiskups að Hólum; hvaða fingraför vill hann skilja eftir á þessum sögufræga stað? „Það er alveg ljóst að ég er ekkert unglamb og mun ekki vera þarna í mjög mörg ár. En það sem ég vil helst leggja áherslu á er að efla þjóðkirkjuna og þá þarf að ná til unga fólksins; efla barna- og æskulýðsstarf. Ég hef mikinn áhuga á að styðja við það góða starf sem víða er unnið í því og eins varðandi sálgæslu – að kirkjan bjóði upp á sálgæslu fyrir alla og þá er ég ekkert að tala endilega bara um trúarlega sálgæslu heldur það að starfsfólk kirkjunnar sem margt hefur góða menntun á þessu sviði nái betur til fólks sem er í einhvers konar erfiðleikum.“

 

Trúin í daglega lífinu

Hvað er trúin í huga prestsins og tilvonandi vígslubiskups?

Ég er ekkert að pæla endilega í því hvernig hann var getinn.

„Trúin skiptir miklu máli í lífinu; í daglegu lífi. Að geta treyst á það að æðri máttur sé til; æðri máttur sem hægt er að nálgast í bæninni til dæmis og lestri, íhugun og hugleiðslu. Það skiptir miklu máli því oft er það þannig í lífinu að maður ræður ekki við alla hluti og hefur ekki stjórn á öllu og þá er gott að geta treyst því að æðri máttur sé til sem hægt er að fela þá hluti sem maður ræður ekki við. Og hvíla í því; hvíla í þeirri trú. Og fyrir mér er trúin ekki einhver upphafning heldur hluti af daglegu lífi; að fólk geti falið áhyggjur sínar og erfiðleika æðri mætti sem í huga kristins fólks er Guð. Hver er hugmynd séra Gísla varðandi það hvort Jesús hafi verið eingetinn? „Þetta er mjög guðfræðileg spurning. Og hvað þýðir það að vera eingetinn? Fyrir mér þýðir það að Jesús hafi verið sendur frá Guði og ég er ekkert að pæla endilega í því hvernig hann var getinn. Það er ekkert trúarlegt vandamál í mínum huga.“

Þrír bræður látnir

Margir leita til sóknarprestsins síns á sorgarstundum og hann huggar fólk. Gefur því ráð. Sjálfur hefur séra Gísli upplifað sorgina.

Allir lenda á einhvern hátt í sorginni.

„Ég missti á síðasta ári tvo bræður mína úr krabbameini og áður hafði ég misst þann þriðja. Þannig að auðvitað kemst enginn frá því að kveðja þá sem þeim þykir vænt um og allir lenda á einhvern hátt í sorginni. Sorgin gleymir engum. Og þá hefur það reynst mér vel að eiga trú og geta notað bænina.“

Að hvaða leyti hjálpaði trúin séra Gísla í sorginni? Hann segir að það felist meðal annars í að biðja fyrir viðkomandi og trúa því að dauðinn sé ekki endir alls. „Ég trúi því að við eigum líf að loknu þessu lífi og það huggar líka þó það sé erfitt að kveðja. Og líka að þakka fyrir það sem maður hefur átt með viðkomandi. Aðkoma kirkjunnar í tengslum við andlát og útför veitir einnig huggun og líkn.“

 

Ekki neinar tilviljanir

Sumir segja að hinir látnu séu hjá okkur og sumir segjast komast í samband við þá. Hver er skoðun séra Gísla á þessu?  “Jesús var ekkert að lýsa því hvernig lífið væri eftir dauðann. Hann bara benti okkur á að þetta líf héldi áfram hjá Guði. Ég ætla ekki að setja mig í dómarasæti varðandi fólk sem hefur reynslu af því að finna fyrir einhverju varðandi sálir þeirra sem eru látnir en sjálfur hef ég ekki farið til miðla og hvet fólk ekki til þess. En ég er heldur ekkert að dæma fólk sem gerir það.“

Hins vegar er ýmislegt sem gerist sem erfitt er að útskýra.

Hefur séra Gísli einhvern tímann upplifað eitthvað óútskýranlegt? „Nei. Ég sjálfur er ekkert næmur á slíkt og hef ekki reynslu af því. Hins vegar er ýmislegt sem gerist sem erfitt er að útskýra. Ég trúi því að ýmislegt gerist í lífi manns sem getur verið bænasvar jafnvel þótt maður sjái það ekki akkúrat þegar það gerist en uppgötvar seinna að þetta var manni til góðs eða leiddi mann eitthvað lengra en maður ætlaði.“

 

Bæn Frans frá Assisi

Hvaða áhrif getur bænin haft? Hversu sterk er hún?

„Bænin getur verið hugleiðsla. Fólk getur til dæmis að kvöldi til farið yfir í huganum eitthvað sem gerðist um daginn og sem viðkomandi líður kannski illa yfir. Það er líka hægt að þakka fyrir eitthvað sem gerðist sem viðkomandi er þakklátur fyrir. Fólk biður stundum um eitthvað ákveðið en stundum getur bænasvarið verið á annan veg en við ætluðum. Lífið er oft ekkert réttlátt og ég held að það sé ekki gott að reyna að útskýra alla hluti. Okkur er ekki ætlað að skilja allt. Sumt er eitthvað sem við skiljum ekki og við leggjum það þá í hendur þess sem öllu ræður og viðurkennum að við ráðum ekki við eða skiljum ekki alla hluti. Þannig að það bara.“

Á tilvonandi vígslubiskup að Hólum uppáhaldsbæn?

„Gömlu bænaversin sem maður lærði sem barn eru alltaf rík í huga svo sem „Vertu yfir og allt um kring”. Faðirvorið er aðalbænin sem maður fer alltaf með og mér finnst bæn Frans frá Assisi falleg og sterk. Einnig má nefna AA-bænina.“

Séra Gísli nefndi bæn Frans frá Assisi. „Hann er að biðja um að vera ljós í myrkrinu og koma með kærleika þar sem hatrið ríkir.“

 

Bæn heilags Frans frá Assisi

 

Drottinn, lát mig vera verkfæri friðar þíns.

Hjálpa mér til að leiða inn kærleika,

þar sem hatur ríkir,

trú, þar sem efinn ræður,

von, þar sem örvæntingin drottnar

 

Hjálpa mér að fyrirgefa, þar sem

rangsleitni er höfð í frammi,

að skapa eindrægni þar sem sundrung ríkir

að dreifa ljósi þar sem myrkur grúfir

og flytja fögnuð þar sem sorgin býr.

 

Meistari, hjálpa mér að kappkosta ekki

svo mjög að vera huggaður sem að hugga,

ekki svo mjög að vera skilinn sem að skilja,

ekki svo mjög að vera elskaður sem að elska.

 

Því að það er með því að gefa að vér þiggjum

með því að fyrirgefa að oss verður fyrirgefið

með því að týna lífi voru að vér vinnum það.

Það er með því að deyja að vér

upprísum til eilífs lífs.

AMEN

 

(Í þýðingu sr. Sigurjóns Guðjónssonar.)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -