„Staðan er þannig að það er ekkert að frétta,“sagði Sunna Dóra Möller, settur sóknarprestur í Digranes- og Hjallaprestakalli í samtali við Fréttablaðið. Ásakanir á hendur séra Gunnari Sigurjónssyni, sóknarpresti í Digranes- og Hjallaprestakalli urðu til þess að hann var sendur í leyfi en það hefur nú verið framlengt til 1.maí næstkomandi.
Gunnar hefur verið í leyfi frá því í desember vegna ásakana sex kvenna um kynferðislega áreitni, einelti og kynbundið ofbeldi.
Stóð það til að Gunnar yrði í leyfi til 1.mars, á meðan mál hans væri skoðað hjá óháðu teymi sem starfar utan við stofnanir kirkjunnar.
Staðfesti Sunna Dóra að ekkert væri að frétta af málinu og að Gunnar væri enn í leyfi frá störfum. „Málin liggja hjá teyminu og við bíðum eftir því að niðurstaða skili sér. Þetta er náttúrulega flókið og margslungið mál og í mörg horn að líta þannig að þau þurftu bara aðeins lengri tíma til að fara yfir þetta og hann var settur í leyfi í allavega tvo mánuði í viðbót,“ sagði hún og bætti við að minnsta kosti sjö mál sem tengdust Gunnari væru til rannsóknar.