Föstudagur 25. október, 2024
4.9 C
Reykjavik

Setið um heimili Birnu Einarsdóttur bankastjóra Íslandsbanka í hruninu: „Ég skildi alveg reiðina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, rifjar hér meðal annars upp reiðina í hennar garð í kjölfar hrunsins þar sem stundum var setið um heimili hennar. Hún hafði greinst með brjóstakrabbamein ári áður og það hjálpaði að hafa nóg að gera í vinnunni þegar hún gekk í gegnum það. „Maður er alltaf með smááhyggjur,“ segir hún um áhrif þess að hafa greinst á sínum tíma. Birna svarar meðal annars þeirri spurningu í viðtalinu hvernig sé að komast af í þessum harða heimi og nefnir hún til dæmis það að hafa gott fólk í kringum sig og vera auðmjúk. Bankastjórinn segist halda að allir séu sammála um að peningar skipti máli, sérstaklega ef fólk hefur ekki nóg af þeim, og hún segir að í dag ríki önnur viðhorf en í hruninu. Eða fyrir hrun. Svo er það heimsfaraldurinn sem hefur leikið mörg fyrirtæki grátt og nefnir Birna nýsköpun sem hún telur að verði fjórða sterka stoðin undir efnahagslífið. „Alltaf þegar eru áföll, þá koma út úr því einhver tækifæri og ég held að það sé mikilvægt að við grípum þau.“

 

 

„Ég skildi alveg reiðina og hún braust svona út. Þetta var óþægilegt; ég átti unga dóttur. En ég skildi að þetta var útrás fyrir reiði sem var alveg réttlætanleg,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í Mannlífinu með Reyni Traustason þegar rifjað er upp að reiði almennings í hruninu beindist meðal annars að bankastjórum og var setið um heimili hennar.

Var hún aldrei hrædd?

„Jú, örugglega. Það fennir sem betur fer vel yfir þennan tíma.“

- Auglýsing -

Birna, sem var bankastjóri Glitnis á þessum tíma, óskaði eftir því haustið 2008 við Fjármálaeftirlitið (FME) að það tæki kaup einkahlutafélags í hennar eigu á hlutabréfum í Glitni banka hf., sem reyndar aldrei voru framkvæmd, til skoðunar en þetta kom fram í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér vegna umfjöllunar fjölmiðla um málið. Í yfirlýsingunni sagði Birna meðal annars: „Ég hef ekkert að fela í þessu máli og upplýsti stjórnarformann bankans um málið áður en starfssamningur var undirritaður. Engin launung þarf að vera í þessu máli – hvorki af minni hálfu né annarra.“

Á heimasíðu Íslandsbanka segir um feril Birnu: „Á árunum 1998 til 2004 starfaði Birna sem vörustjóri hjá Royal Bank of Scotland. Birna starfaði jafnframt sem framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka en hafði áður gegnt stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðsmála, útibússtjóra og markaðsstjóra hjá Íslandsbanka. Hún hefur jafnframt starfað sem markaðsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins, Stöðvar 2 og Íslenskrar getspár. Birna hefur einnig, meðal annars setið í framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands. Birna er með Cand.Oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá Háskólanum í Edinborg.“

Það var verið að stilla bankanum upp aftur eftir hrun o

Það var í október 2008 sem Birna var ráðin bankastjóri Íslandsbanka; þegar reiðin kraumaði í landanum svo stundum sauð upp úr, hlutum var kastað í Alþingishúsið og Stjórnarráðið og fólk barði á potta og pönnur í búsáhaldabyltingunni, en hvorki kraumaði né sauð upp úr pottunum sjálfum í það skiptið. „Það var verið að stilla bankanum upp aftur eftir hrun og til þess að taka við hluta af þessum efnahagsreikningi sem Glitnir var með og ég var bara beðin um að taka það að mér. Ég bjóst ekki við að það yrði í svona mörg ár; ég hélt að það yrði bara tímabundin ráðstöfun. En við unnum úr þessu og þetta hefur gengið vel og síðan eru liðin 13 ár.“

- Auglýsing -

Birna fór í viðtal hjá Inga Frey Vilhjálmssyni blaðamanni á DV, en blaðið hafði fjallað um kúlulán sem hún hafði fengið. „Ég hafði ekkert að fela í neinum af þeim málum sem voru til umræðu. Ingi gerði þetta vel og við áttum gott spjall og náðum að vera á persónulegum nótum. Ég held að þegar verið er að taka að sér svona starf eins og ég var í, á mjög erfiðum tíma, þá þarf svolítið að gefa af sér og það þarf að sýna hvernig karakter maður er. Ég var að reyna að gera það í þessu viðtali.“ Birna talaði í því viðtali meðal annars um strákaklúbbinn og slaginn við að gera sig gildandi. Birna talar um, nú á nýju ári í viðtali við Mannlíf, hve mikið hefur breyst. Hve viðhorf og andrúmsloftið í atvinnulífinu hefur breyst mikið. „Við vorum á sérstökum stað þegar ég ræddi við Inga en það hefur samt mikið breyst.“ Í viðtalinu í DV útskýrði Birna að það hafi ekkert annað verið í boði en að taka kúlulán. „Þetta var hluti af því að vera í framkvæmdastjórateymi á þeim tíma og auðvitað þáði maður það og gerði það. Þetta var kúltúrinn og hefur hann mikið breyst? Ég veit það ekki. Ég held að fólk skoði þetta með aðeins öðrum hætti núna og hugsi um afleiðingarnar af því.“

 

Brjóstakrabbamein

Birna greindist með brjóstakrabbamein árið 2007, 45 ára gömul. Ári fyrir hrun. Ári áður en hún tók við bankastjórastöðunni. Hún segir að það hafi verið áskorun að glíma við það á þeim tíma að henda sér bara beint í djúpu laugina.

„Tölfræðin segir að 10% kvenna geti lent í því, þannig að við erum heppnar, konur á Íslandi, að þetta hefur gengið svo vel og lífslíkurnar eru svo miklar að við verðum að horfa fram á það og vera með bjartsýnina að leiðarljósi þegar er verið að eiga við svona. Mér tókst það nokkuð vel og ég var heppin. Þetta gekk allt vel. En auðvitað er maður reynslunni ríkari eftir svona reynslu.

Það var auðvitað skelfilegt að fá þessa frétt – að vera með brjóstakrabbamein.

„Þegar maður fær svona fréttir þá á maður bara eina ósk: Að maður læknist. Áður átti maður svo margar óskir, en allt í einu átti maður bara eina. Maður eignaðist aftur þessa drauma þegar maður komst í gegnum það; auðvitað gerði maður sér grein fyrir mikilvæginu, en það var gott að finna það að aftur komu draumar og óskir um ýmislegt þegar maður var kominn yfir þetta að mestu leyti.“

Maður er alltaf með smááhyggjur. Það er það sem gerist þegar maður fær svona fréttir, þetta fer aldrei frá manni.

Birna talar um hve vinnan var henni mikilvæg. „Það sem var að gerast kom mér svolítið í gegnum þetta af því að maður var upptekinn í öðru en bara að hugsa um sjálfan sig. Kannski er það þess vegna sem ég er enn þá á þessum stað; ég lærði að meta það hvað vinnan er mikilvæg og hvað hún gefur manni mikinn kraft.“

Birna missti hárið vegna lyfjameðferðar og það var erfitt. Þá grét hún.

„Ég var að vinna og að reyna að komast í gegnum daginn og ég var alltaf með hárkollu. Ég sé þegar við erum að tala um aukið sjálfstæði og sjálfsöryggi kvenna að nú eru fáar að nota hárkollu. Þær ganga um með ekkert hár. Mér fannst það ekki koma til greina á þeim stað sem ég var á á þeim tíma. Þetta er kannski eitt merki um hvernig sjálfstraust kvenna hefur aukist í atvinnulífinu.“

2007. Það eru 15 ár á þessu ári síðan Birna greindist.

„Maður er alltaf með smááhyggjur. Það er það sem gerist þegar maður fær svona fréttir, þetta fer aldrei frá manni. En ég er ekki að hugsa um þetta á hverjum degi, fjarri því, og bara held áfram.“

 

Gufugatið

Birna Einarsdóttir er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og síðan lauk hún námi í viðskiptafræði og  er með MBA-gráðu eins og þegar hefur komið fram.

„Þetta er einhver formúla. Ég byrjaði fljótlega í bankageiranum og heillaðist af því. Mér finnst sá geiri mjög spennandi. Ég hélt síðan út og vann hjá Royal Bank of Scotland í sex ár og lærði þar náttúrlega heilmikið. Svo kom ég aftur heim.

Ég segi oft við þessar ungu konur að þær þurfi að vera við gufugatið.

Ég var heppin á þessum tíma, þegar ég var að útskrifast og var að koma úr námi, en þá voru tækifæri fyrir menntað fólk fjölmörg og þau voru á góðum stað í skipuritum fyrirtækjanna. Ég held að fólk sem er að koma úr masternámi núna þurfi að sætta sig við að byrja kannski á enn lægra þrepi, sem við höfum öll gott af, þannig að ég var á réttum tíma og fékk tækifæri. Svo var ég að vinna með góðu fólki sem gaf mér tækifæri og sem ég lærði af. Þegar ég er að mentora ungar konur, sem ég geri töluvert af og gef mér tíma í, þá segi ég oft að tækifærin komi ekkert af sjálfu sér og að þær þurfi að hafa fyrir þessu. Og það er alveg mín reynsla. Ég segi oft við þessar ungu konur að þær þurfi að vera við gufugatið og það fyndna er að þær vita ekkert hvað það þýðir; það er að maður þarf að vera þar sem eitthvað er að gerast og maður þarf að vera viðbúinn að grípa tækifærin og koma sér á framfæri. Ég held að það sé enn þá mjög mikilvægt fyrir ungar konur að vera meðvitaðar um að þær þurfa að hafa fyrir því að sækja sér þau störf sem þær langar til.“

Birna var ráðin framkvæmdastjóri hjá Íslenskum getraunum eftir nám, sem hún segir að hafi verið svolítið grín af því að hún kunni ekkert í fótbolta.

„Ég held að 14 hafi sótt um og ég var eina konan; þarna var bara framsýnt fólk sem hugsaði hvort það væri ekki bara gaman að breyta til þannig að ég fékk skemmtilegt tækifæri þar. Ég var þar í einhver ár og fór síðan í bankageirann. Ég fór til Vals Valssonar í Iðnaðarbankanum og tók þátt í sameiningu fjórbankanna, sem var afar spennandi; það er ótrúlega langt síðan, en maður er búinn að vera svo lengi í bransanum. Síðan fór ég til Skotlands og svo kom ég hingað aftur í Íslandsbanka sem þá var.“

 

Karlar og konur

Birna er spurð hvernig hún fari að því að komast af í þessum harða heimi.

„Með því að hafa gott fólk í kringum mig og vera svolítið auðmjúk og vinna bæði með starfsfólki og viðskiptavinum. Ég held að það sé leiðin í þessu.“

Konur versus karlar í þessum harða heimi.

„Þetta hefur náttúrlega mikið breyst en tölfræðin sýnir okkur eðlilega að það eru ekki margar konur sem stjórna fyrirtækjum á Íslandi í dag; ekki bara á Íslandi heldur alþjóðlega líka. Auðvitað er þetta að breytast smám saman, en ég held að við eigum eftir að sjá breytingar og hvers vegna held ég það? Því að ég sé í framkvæmdastjóralaginu í flestum fyrirtækjum í dag að þar er orðin nokkuð góð blanda, þannig að þetta á eftir að skila sér upp. Ég er sannfærð um það.“

 

Bankastjórinn er spurður hvort munur sé á körlum og konum í stjórnendastöðum.

Það er eins og konur séu aðeins sterkari í framkvæmdinni en karlmenn gefa út að þeir séu sterkari í stefnunni.

„Þetta er góð spurning og ég hef velt þessu heilmikið fyrir mér. Við gerum starfsmannakönnun á hverju ári þar sem við mælum alla leiðtogana innanhúss, alla sem eru stjórnendur hjá okkur og hvernig þeir standa sig sem stjórnendur, og ég hef aðeins látið gefa mér niðurstöður milli kynjanna. Það er eiginlega enginn munur á þeim. Það er eins og konur séu aðeins sterkari í framkvæmdinni en karlmenn gefa út að þeir séu sterkari í stefnunni. Það er nánast hægt að segja að það sé ekki neinn munur. Mér finnst þetta vera áhugavert, en það gæti haft eitthvað með fyrirtækjamenninguna hjá okkur að gera, þannig að ég veit ekkert hvernig þetta er almennt. En þetta er eitthvað sem væri áhugavert að skoða.

Ég held að karlstjórnandinn sé líka að breytast þannig að hann er að taka upp gildi sem hafa töluvert breyst líka. Þannig að ég held að það verði minni munur og að við verðum búin að finna leiðina í þessu.

Þetta er á réttri leið. En þetta gerist náttúrlega afar hægt. Ég held að allir séu nú sammála um það.“

 

Peningar

„Money makes the world go round“ söng Liza Minelli í söngleikjamyndinni Cabaret. Hvað finnst bankastjóranum um peninga?

„Ég held að allir séu sammála um að peningar skipta máli, sérstaklega ef fólk hefur ekki nóg af þeim, og auðvitað upplifa þeir það sem eru í vandræðum, en það hefur mikil áhrif á líf þeirra. Það er sýn Íslandsbanka að vera hreyfiafl til góðra verka. Það er kannski þess vegna sem mér finnst vera gaman að vera í banka og mér finnst fjármálageirinn vera áhugaverður, því mér finnst við oft ná því að láta svona drauma rætast; bæði varðandi atvinnulífið og varðandi það að ungt fólk er að kaupa sér fasteignir og svo framvegis. Ég lít á peningana svolítið þannig hvað þeir geta verið mikið hreyfiafl til góðra verka bæði fyrir samfélagið í heild sinni og síðan fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.“

Hvað ráðleggur svo bankastjórinn ungu fólki sem er að koma sér fyrir í lífinu og byggja upp eigin efnahag?

„Það þarf að gera sér svolítið raunhæf markmið, en ég verð líka að segja að það verður líka að vera aðeins kjarkað; að hafa hugrekki til að stíga skrefið.“ Hún talar um þegar ungt fólk veltir fasteignakaupum fyrir sér, sem sé stór og mikil ákvörðun, sé gott að banki fái að taka þátt í því. „Það þarf að sýna ákveðið hugrekki. En skynsemi að sjálfsögðu.“

Það er bara allt betur undirbúið, bankarnir gera líka meiri kröfur um upplýsingagjöf og svo framvegis og fyrirtækin eru þar líka.

Birna er spurð hvort eitthvað hafi breyst síðan í hruninu, hvort sama brjálæðið sé í gangi eða jafnvel hvort það séu önnur viðhorf.

„Það eru allt önnur viðhorf. Það er bara allt betur undirbúið, bankarnir gera líka meiri kröfur um upplýsingagjöf og svo framvegis og fyrirtækin eru þar líka. Varðandi heimilin þá er neytendalöggjöf sem gerir það að verkum að fólk þarf nákvæmlega að vita hvað það þarf að greiða mikið. Þannig að það er bæði lagalegt umhverfi og almennt viðhorf hefur líka breyst mikið. Margir spyrja núna hvort þetta sé ekki að fara í sama farið, en nei, ég er ekki þar. Mér finnst vera enn þá meiri hugsun í þessu og það er meira eigið fé í verkefnum sem verið er að fara í en var þá. Og það hjálpar svo mikið þessum verkefnum.“

 

Nýsköpun

Covid 10. Heimsfaraldurinn. Hvað segir Birna um horfurnar? Efnahagshorfurnar?

Þegar þessi heimsfaraldur kemur yfir okkur erum við á betri stað en þegar við berum þetta saman til dæmis við þegar við lentum í síðasta stóra áfalli, sem var 2008.

„Covid er búið að vera mjög erfitt, fyrir ferðaþjónustuna sérstaklega, og við erum með marga slíka kúnna. 9% af lánasafni okkar er til ferðaþjónustunnar. Mér finnst kúnnarnir okkar hafa staðið sig ótrúlega vel, sýnt ótrúlega getu í að komast í gegnum þetta með útsjónarsemi og bjartsýni, í sjálfu sér. En auðvitað er þetta búið að vera mjög erfitt tímabil. Ríkisstjórnin og ríkið hefur líka stutt mjög vel við fyrirtækin og það sem var kannski gott í þessu var að staðan í íslensku efnahagsumhverfi var með þeim hætti að bæði gat ríkið komið inn með stuðning, fyrirtæki voru minna skuldsett en áður og heimilin voru líka minna skuldsett. Þegar þessi heimsfaraldur kemur yfir okkur erum við á betri stað en þegar við berum þetta saman til dæmis við þegar við lentum í síðasta stóra áfalli, sem var 2008. Við vorum á allt öðrum stað, en auðvitað er þetta búið að vera mjög erfitt hjá mörgum fyrirtækjum og við þurfum náttúrlega að sjá ferðaþjónustuna dafna og við þurfum að fá ferðamennina aftur til þess að efnahagslíf Íslendinga verði aftur á þeim stað sem við viljum sjá það. En ég held á sama tíma, eins og alltaf þegar við lendum í áföllum, að þá byggist upp eitthvað nýtt; það kemur eitthvað nýtt út úr því líka; eins og ferðaþjónustan kom upp úr síðustu áföllum þá held ég að núna sé það þessi nýsköpun – ég held að við séum að fara að búa til fjórðu sterku stoðina undir efnahagslífið. Alltaf þegar eru áföll þá koma út úr því einhver tækifæri og ég held að það sé mikilvægt að við grípum þau.“

Hlaðvarpsviðtal við Birnu er að finna hér. 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -