Ritstjóri Wikileaks, Kristinn Hrafnsson er ansi harðorður um hryðjuverkamálið og varar við aukinni valdheimild til löggæsluembætta í nýjustu Facebook-færslu sinni. Segir hann lögregluna áður hafa verið misnotaða og blekkta í „pólitískri aðför“.
„Vegna stóra hryðjuverkamálsins er rétt að rifja upp gamla hryðjuverkaógn sem reyndist fullkominn tilbúningur, því sömu aðilar koma að hluta við sögu. Vopnabúrið stóra sem lagt var hald á dögunum og enginn fær enn að vita hvort tengist beint eða óbeint föður Ríkislögreglustjórans, fannst í húsnæði í umsjá lögmanns, hvers þekktasta lögmannsverk síðustu misseri var að vera Sigurði Þórðarsyni (a.k.a hakkara) til ráðgjafar í ferð til USA þar sem skjólstæðingur hans gékk frá vitnisburði og friðhelgissamkomulagi við þarlent dómsmálaráðuneyti og Alríkislögregluna FBI. Þetta var hluti af pólitískri aðför að Julian Assange.
Vert er að setja stóra fyrirvara við auknar valdheimildir til löggæsluembætta sem hafa svo lélega greiningardeildir innanborðs að þau átta sig ekki á því þegar verið er að misnota þau og blekkja í pólitískri aðför. Nema ef vera kynni að menn tóku þátt í misbeitingunni vitandi vits. Það er skelfileg tilhugsun. Það er einnig varasamt að veita lögreglunni aukin völd til réttindaskerðingar þegar ljóst er að þau eru nú undir pólitískri yfirstjórn sem heldur uppi vörnum fyrir misbeitingu valds lögreglu og saksóknara vegna þjónkunar við eitt stærsta fyrirtæki landsins.