Fimmtudagur 26. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Sex af sjö lifðu við illan leik eftir hetjulega björgun: „Geta ekkert gert var algjörlega ömurlegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hetjuleg framganga björgunarfólks og hermanna bandaríska varnarliðsins varð til þess að sex skipverjum var bjargað við illan leik í Vöðlavík á Austfjörðum. Þrátt fyrir mikinn hetjuskap náðist ekki að bjarga einum úr áhöfninni og varð mannskaðinn til þess að Landhelgisgæslan fékk öflugri björgunarþyrlur til sín.

Vöðlavík er sunnan við Gerpi, austasta odda landsins milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Þann 18. desember 1993 strandaði rækjubáturinn Bergvík VE í víkinni og gekk afar illa að draga bátinn á flot aftur, þrátt fyrir aðstoð gæslunnar við verkið. Fyrir vikið var björgunarskip tryggingafélaganna sent á vettvang, björgunarskipið Goðinn sem komið hafði að björgun yfir 50 skipa undanfarna þrjá áratugi. Hina örlagaríku nótt, 10. janúar 1994, var því miður röðin komin að björgun Goðans.

Hörmuleg sjóslys hafa orðið við Vöðlavík á liðnum árum. Mörgum er enn í minni björgunarafrekið árið 1994, þegar tókst að bjarga sex skipverjum af brúarþaki Goðans við afar erfiðar aðstæður með aðstoð tveggja þyrlna frá bandaríska sjóhernum. Ölduhæð var um 8-9 metrar þegar verst lét.

Löng bið

Í fjörunni í Vöðlavíkinni horfðu björgunarsveitarmenn á þegar Goðinn fékk á sig mikil brot. Sævar Guðjónsson björgunarsveitarmaður var á staðnum og horfði upp á þegar stýrimaður skipsins fórst samstundis. „Allir brúarglugga í brúnni brotna og báðar hurðirnar afturúr og þar ferst stýrimaðurinn; hann fer út með þessum brotum. Þeir missa stýri og öll siglingatæki og öll neyðartæki úr brúnni þannig að þeir gátu bara viðhafst í björgunargöllum í klefa aftan við brúnna til svona tíu um morguninn. Að vera staddur 250-300 metra frá sex mönnum að berjast fyrir lífi sínu og að geta ekkert gert var algjörlega ömurlegt og biðin eftir þyrlunum var löng.“

- Auglýsing -

Skipsbrotsmenn þurftu að forða sér upp á brúarbak um sama leyti og féll að. Þeir bundu sig við skorsteininn þar sem brotsjór gekk yfir þá. Í samtali við RÚV lýsti yfirvélstjóri Goðans, Níels Hansen, upplifun sinni:

„Við stóðum í eintómum brotum þarna, alveg stanslaustum brotum í þessa sex klukkutíma eð hvað það var. Við vissum það að eftir að björgunarmennirnir koma ofan á sandinn að það yrði þeirra fyrsta verk að biða um þyrlur því það væri vonlaust verk að bjarga af sjó eða landi.“

Ómar Sigtryggsson var vélstjóri á Goðanum þegar skipið fórst. Við skulum gefa honum orðið þegar hann lýsti upplifun sinni í viðtali við Sjómannablaðið:

„Ég var á vaktinni niðri í vélarrúmi þegar fyrra brotið skall á skipinu, við það brotnuðu gluggarnir í brúnni bakborðsmegin og skipið myrkvaðist. Skömmu seinna kom annað brot og við það kom meiri sjór í vélarrúmið og talsverður sjór kom á rafmagnstöfluna, sem sló út með það sama. Þá ákváðum við að koma okkur upp í klefa tii Kristjáns, en þangað voru strákarnir komnir,“ segir Ómar og heldur áfram:

- Auglýsing -

„Við klæddum okkur í galla og biðum rólegir uppi. Rúðurnar í klefanum brotnuðu og því komst sjór inn. Við reyndum að láta bekk fyrir götin og við það dró aðeins úr sjóganginum inn í klefann. Við gátum verið í klefanum í þó nokkurn tíma og gallarnir héldu á okkur hita, þannig að okkur leið alveg ágætlega.“

Ómar segir ljóst að enginn skipverjanna hefði átt möguleika án björgunargallanna. „Nei, við hefðum aldrei átt möguleika án þeirra. Bæði héldu þeir á okkur hita og félagalínurnar gerðu okkur kleift að binda okkur fasta. Þetta voru ógurleg átök sem skelltu okkur til og frá og sviptu undan okkur fótunum án þess að við fengjum nokkuð að gert, ölduhæðin var allt að tíu metrar og þunginn gífurlegur.Auðvitað vonaðist maður eftir björgun, en það gat enginn gert neitt; strákarnir í landi gerðu allt sem í þeirra valdi stóð, en gátu bara ekkert gert.“

Hetjur hersins

Slysið Vöðlavík mörgum enn í fersku minni. Kristján Sveinsson var skipstjóri á Goðanum þegar slysið varð og hann segir að það hafi fyllt skipverjana von þegar þeir fréttu af þyrlum á leiðinni. Þrátt fyrir aftakaveður þennan dag lögðu tvær þyrlur varnarliðsins af stað ásamt lítilli þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Þyrlurnar tóku eldsneyti á Höfn og kom sú fyrri í Vöðlavík upp úr klukkan þrjú, rétt fyrir myrkur eftir um fimm tíma ferðalag. Þeirra beið erfitt verkefni að hífa sex menn, tvo í einu, í mikilli ókyrrð. Tveir af skipbrotsmönnum voru veikir og þurftu á sjúkrahús. Flugmenn á þyrlunum ætluðu með þá til Egilsstaða en lentu í ógöngum og voru heppnir að brotlenda ekki annarri þyrlunni í Mjóafjarðarheiði. Þeir leituð að ljósum og lentu á fyrsta bílastæði sem þeir sáu sem reyndist vera við kaupfélagið í Neskaupstað.

Sævar björgunarmaður, sem var 24 ára gamall þennan örlagaríka slysdag í Vöðlavík, segir björgunina eitt það erfiðasta sem hann hafði upplifað. „Þetta er eini dag­ur­inn í lífi mínu sem mig lang­ar ekki að lifa aft­ur,“ sagði Sæv­ar.

 

Hvar er Vöðlavík? 

Vöðlavík hét áður Krossavík og var þar búseta fram til 1970. Auk þess var búið á Krossnesi til 1944 en það stendur við opið haf. Um er að ræða eyðivík sunnan Gerpis þar sem áður var fjöldi bæja. Mikil og skemmtileg sandfjara er í víkinni. Til Vöðlavíkur er jeppavegur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -