Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.9 C
Reykjavik

Sex einfaldar leiðir til að bæta líðan þína

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heilbrigður lífsstíll byggist á góðum venjum sem verða að rútínu.

Það er þó hægara sagt en gert. Hér eru sex einfaldar leiðir til að bæta líðan þína og gera líf þitt árangursríkra og betra.

Farðu snemma á fætur og af stað.

1. Farðu snemma á fætur og af stað
Á morgnana erum við orkumest og athygli okkar er skörpust svo sá tími er tilvalinn til að taka á þeim hlutum sem okkur finnst erfiðastir eða krefjast meiri viljastyrks – eins og til dæmis að fara í ræktina. Ef þú átt erfitt með að stunda reglulega líkamsrækt þá gæti það verið vegna þess hvaða tíma dags þú ert að fara. Eftir langan vinnudag eru flestir þreyttir og svangir svo það síðasta sem þá langar að gera er að skella sér út að skokka. Þess vegna er svo gott að fara á morgnana fyrir vinnu því þá er það bara búið og margir segjast finna aukna orku það sem eftir er dagsins eftir að hafa byrjað hann á hreyfingu.

2. Beislaðu sjálfstýringuna
Góðir ávanar hafa þann kost að með tímanum verða þeir sjálfkrafa hluti af rútínu þinni sem þýðir að þú notar minni hugarorku í að framkvæma þá. Þannig nær einmitt íþróttafólk að halda sér í góðu formi og þjálfun en þetta á ekkert síður við okkur meðaljóna. Það tekur um það bil tuttugu og einn dag að venja sig á eitthvað nýtt, en getur auðvitað tekið lengri tíma þannig að það verði okkur eðlislægt. Það þýðir að ef þú átt erfitt með að fá þér ekki sætindi seinnipartinn þá muntu smám saman hætta að hugsa um það og eftir þrjár vikur verður þú jafnvel alveg laus við löngunina.

3. Skoðaðu góðu ávana þína
Ein besta leiðin til að losa sig við slæma vana er að bæta góðum ávana við þá sem þú þegar hefur. Til dæmis ef þú ert vön að fá þér kaffibolla á morgnana getur þú tekið upp á því að fá þér grænt te eða heitt vatn með sítrónu. Þá skiptir þú út slæmum vana fyrir góðan. Þar sem þú færð enn þá heitan drykk á morgnana er breytingin auðveldari en að hætta bara að drekka kaffið. Síðan getur þú haldið áfram og vanið þig á tíu mínútur af hugleiðslu með drykknum. Smám saman verður til keðja af góðum venjum sem er í raun það sem heilbrigður lífsstíll gengur út á.

4. Skrifaðu hlutina niður
Það sem við skrifum niður er oft betur greipt í minni okkar en það sem við hugsum eða heyrum. Við erum öll af vilja gerð að standa okkur en með því að skrifa áætlanir okkar niður verðum við ósjálfrátt ábyrgari gagnvart þeim og líklegri til að standa við þær. Þó að tæknin sé til margs góðs þá hefur það ekki sömu áhrif að skrifa hlutina niður í snjallsíma eða tölvu. Sestu heldur niður og skrifaðu slæma ávana niður á blað ásamt því hvernig þú ætlar að losa þig við þá. Hengdu listann svo upp þar sem þú sérð hann reglulega.

5. Taktu á afsökununum
Það að vera stöðugt að afsaka slæma ávana getur staðið í vegi fyrir því að þú takir upp góða vana í staðinn. Ef við styðjumst aftur við dæmið um kaffibollann, þegar þú vaknar þreytt á morgnana eftir erfiða vinnuviku þá er auðvelt að réttlæta fyrir sjálfri sér að þú eigir kaffibollann skilið og að þú munir halda áfram í bindindinu á morgun. Vandinn er að sá morgundagur kemur aldrei og fyrr en varir ertu byrjuð að drekka kaffi á hverjum morgni aftur. Í stað þess að fara aftur í sama farið getur þú ákveðið að fá þér svart te í þetta skiptið, þannig færðu verðlaun. Sama gildir um líkamsræktina, ef þú getur ekki farið klukkan hálf sjö í spinning farðu þá á fætur klukkan hálf átta og farðu út að skokka í hálftíma. Þá heldur þú þér við efnið.

- Auglýsing -

6. Sjáðu það fyrir þér
Það er auðvelt að gleyma nýjum venjum og ástæðan fyrir því að það er erfitt að losna við slæma vana er að við erum búin að gera þá aftur og aftur í langan tíma. Til þess að auðvelda sér hlutina er hægt að búa til sjónrænar áminningar. Ef þú vilt venja þig á að nota tannþráð á morgnana settu þá minnismiða á baðherbergisspegilinn. Ef þú vilt fara í ræktina á morgnana hafðu þá líkamsræktarfötin tilbúin við hlið rúmsins, eða sofðu í þeim – það virkar. Þessar litlu áminningar munu minna þig á vanann þar til þú þarft ekki lengur á þeim að halda og vaninn er orðinn hluti af rútínunni.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -