Siðfræðingurinn Henry Alexander Henrysson segir sorglegt að sjá að einhver fyrirtæki hafa nýtt hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar af tómri græðgi fremur en nauðsyn. Hann tekur þó fram að það krefjist hugrekkis að stíga fram og viðurkenna mistök líkt og forsvarsmenn nokkurra stórra fyrirtækja hafa gert undanfarna daga.
Hvert stórfyrirtækið á fætur öðru sendir nú frá sér yfirlýsingu þess efnis að þau muni endurgreiða Vinnumálastofnun þær upphæðir sem hafa runnið til starfsfólks þeirra í gegnum svokallaða hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar. Vel stæð fyrirtæki hafa sætt gagnrýnin undanfarna daga fyrir að nýta þetta neyðarúrræði stjórnvalda sem sett var á laggirnar til að sporna gegn uppsögnum á íslenskum vinnumarkaði vegna kórónuveirufaraldurins.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur nú sagt að lögum um hlutabótaleiðina verði breytt í ljósi þess að vel stæð fyrirtæki hafa nýtt úrræðið á móti skertu starfshlutfalli starfsmanna. „Að sjálfsögðu þá var ekki ætlunin sú að stöndug fyrirtæki væru að nýta sér þetta neyðarúrræði til að greiða niður laun sinna starfsmanna,“ var haft eftir Katrínu í frétt Rúv.
Teygja sig í kökukrúsina af græði en ekki nauðsyn
„Í fyrsta lagi er dapurlegt að sjá enn og aftur hvernig fólk fellur í freistnigildrur í rekstri fyrirtækja,“ segir Henry Alexander Henrysson heimspekingur og siðfræðingur í samtali við Mannlíf þegar hann er beðinn um álit á málinu út frá siðferðilegu sjónarmiði.
„Vissulega má segja að tímarnir séu viðsjárverðir og sjálfsbjargarhvötin er rík á stundum sem þessum, en að sama skapi er ljóst að þarna voru sumir að teygja sig í kökukrúsina af græðgi fremur en nauðsyn. Það að ekki hafi verið girt fyrir að maður geti sótt í tiltekin gæði þýðir ekki að maður hafi rétt á þeim. Og enn og aftur sjáum við að það er tilefni fyrir íslensk stjórnvöld að skerpa á eftirliti og umsýslu fremur en að treysta á dómgreind forsvarsmanna fyrirtækja.“
Hann segir að það sé á svona stundum sem mikilvægi fjölmiðla kristallist.
„Þar hafa fjölmiðlar enn og aftur sýnt mikilvægi sitt. Fyrirtæki eru ekki einstaklingar sem við þurfum að fara varlega að.“
„Þó er gott að sjá í þessu máli hvernig lýðræðislegt aðhald virkar í samfélaginu. Stofnanir og regluumhverfi hefur virkað til að láta forsvarsmenn fyrirtækja svara fyrir ákvarðanir sínar. Þar hafa fjölmiðlar enn og aftur sýnt mikilvægi sitt. Fyrirtæki eru ekki einstaklingar sem við þurfum að fara varlega að. Flest starfa þau með sérstök leyfi frá samfélaginu um takmarkaða ábyrgð hluthafa. En þótt hún sé takmörkuð að vissu leyti er hún það ekki frá siðferðilegu sjónarhorni. Í raun má segja að siðferðilega ábyrgðin sé því meiri sem rekstrarlega ábyrgðin er takmarkaðri.“
Krefst hugrekkis að viðurkenna mistök
Vegna umræðunnar stíga nú forsvarsmenn fyrirtækja fram og viðurkenna mistök. Henry segir það vera aðdáunarvert því það krefjist hugrekkis.
„Á móti kemur að mér finnst hafa verið nokkur bragur á því hvernig margir forsvarsmenn hafa nú viðurkennt mistök sín – jafnvel eftir að hafa komið í viðtöl og sagst ekki ætla að gera það. Mörgum finnst kannski lítið til koma í ljósi þrýstings úr fjölmiðlaumræðu en við skulum ekki gleyma því að það krefst alltaf hugrekkis að viðurkenna mistök. Við höfum oft séð forystufólk forherðast við samfélagslegan þrýsting og ég er feginn að við sáum það ekki gerast í þessu tilviki,“ segir Henry.
Hann bætir við að viðskiptasiðferði sé flókið fyrirbæri. Að það sé ekki einfalt mál að mæla siðferði fyrirtækja.
„Þessi saga öll varpar nokkru ljósi á hvernig viðskiptasiðferði er að vissu leyti flóknara fyrirbæri en við látum stundum að það sé. Á undanförnum árum hefur átt sér stað jákvæð þróun í átt að ríkari samfélagslegri ábyrgð í rekstri fyrirtækja á Íslandi. Og til þess að sú vinna hoppi ekki um mela og móa hafa verið settir fram fágaðir mælikvarðar til að sýna fram á hvernig sú vinna gengur og hvaða fyrirtæki skara framúr. Eins jákvæð og þessi vinna er, þá skulum við ekki blekkja okkur um að nú getum við einfaldlega mælt siðferði fyrirtækja. Eðli siðferðilegra ákvarðana er örlítið annars eðlis en margir sjá fyrir sér og þær verða ekki smættaðar í forsniðna meginþætti.“
Sjá einnig: Ekki ætlunin að vel stæð fyrirtæki myndu nýta úrræðið