Kórónuveirufaraldurinn hefur haft umtalsverðar breytingar í för með sér fyrir samfélagið, bæði félagsleg og efnahagsleg. Siðmennt hefur orðið vart við það, enda breytingarnar fyrir félagið umtalsverðar, fermingum hefur verið slegið á frest og margar fjölskyldur hafa kosið að færa til giftingar og nafngjafir. Þá var talsvert alþjóðastarf fyrirhugað á árinu sem nú verður með öðru sniði.
Stjórn Siðmenntar hefur því ákveðið að verja fjármunum sem annars hefðu farið í alþjóðastarf, í sérstakan sjóð til styrktar verkefnum sem vinna gegn áhrifum faraldursins á samfélagið allt, eða einstaka hópa innan þess.
„Sjóðurinn er spánýr og tilkominn vegna COVID-19,“ segir Siggeir Ævarsson framkvæmdastjóri Siðmenntar.
„Við viljum styrkja samtök og/eða verkefni með það að markmiði að styrkurinn komi að góðum notum hratt og örugglega og í okkar nærsamfélagi. Við höfum þess vegna leitað eftir tillögum að verkefnum til að styrkja, og höfum þegar fengið margar góðar ábendingar.“
Samtals verður 1.000.000 króna varið til styrktar einu eða fleiri verkefni.
„Við erum ekki búin að setja tímamörk, en við vinnum úr þessu fljótlega,“ segir Siggeir. „Við hvetjum fólk til að senda okkur ábendingar sem fyrst, þar sem við viljum klára verkefnið fljótlega og úthluta úr sjóðnum. Við reiknum með að taka umsóknir fyrir á stjórnarfundi fyrsta þriðjudaginn í júní og taka ákvörðun um styrki þá.“
Tilnefningum má skila inn hér.