Sif Melsteð verður jarðsungin í dag en hún lést eftir erfiða baráttu við krabbamein, aðeins 55 ára að aldri. Hún lætur eftir sig son á unglingsaldri.
Sif fæddist í Reykjavík 9. nóvember 1965. Hún ólst upp hjá móður sinni
og lauk stúdentsprófi við Kvennaskólann. Þá lauk hún einnig skrifstofu- og bókhaldsnámi og starfaði lengst við skrifstofu- og bókhaldsstörf.
Þá sótti Sif ýmis tungumálanámskeið, enda átti hún afar auðvelt með að læra tungumál og hafði gott vald á sex málum. Hún söng í Dómkórnum í mörg ár og lærði einnig silfursmíði.
Hún lést á líknadeild Landspítalans 10. maí síðastliðinn.
Ungur sonur Sifjar kveður móður sína með tregafullum orðum í minningargrein Morgunblaðsins í dag.
„Elsku mamma. Það er erfitt að þú skyldir fara svona snemma frá mér. Það var svo margt sem við áttum eftir að upplifa og gera saman. En nú þarftu ekki að berjast lengur við meinið, það var erfitt að sjá þig svona veika. Þinn sonur,“ segir sonurinn.
Kolbrún, vinkona Sifjar, minnist síkátrar vinkonu sinnar í minningargrein. „Sif var alltaf glöð og kát því sama hvað á reyndi þá var alltaf stutt í hláturinn og kímnin. Ég á eftir að sakna hennar sárt. Oft breyttust sorgarstundirnar í gleðistundir því Sif var góð í
að sjá hið broslega og góða. Guð blessi minningu hennar,“ segir Kolbrún.
Útför Sifjar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag klukkan 13.