Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Sigga Eyþórs: „Ég er örugglega að koma úr erfiðu fyrra lífi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frá vinstri: Eyþór Gunnarsson, Sigga Ey og Ellen Kristjánsdóttir. Aðsend mynd.

Sigga og systurnar eiga sér greinilega marga aðdáendur. Að borðinu okkar á kaffihúsinu kemur fólk og óskar henni til hamingju með sigurinn. Sigga þakkar fyrir sig af hógværð og einlægni og fjörugar samræður fara af stað um flutninginn, lagið, Eurovision og stuðning þeirra við trans-börn. Það er ljóst að tilhlökkunin eftir keppninni í vor er mikil. Eftir áhugavert samtal um keppnina horfum við hvor á aðra og drögum andann djúpt. Svo tökum við upp þráðinn að nýju og ræðum aðeins betur um kvíðann, sem Sigga segir að hafi hrjáð hana alla tíð.

„Ég held að ég hafi örugglega fæðst með kvíða. Ef ég tek þetta út frá jógaheimspekinni þá er ég örugglega að koma úr erfiðu fyrra lífi. Mamma og pabbi hafa alltaf talað um að ég hafi verið svo vör um mig þegar ég var barn. Svo gat ég líka verið svo hvatvís, sem er kannski skrítið þegar maður er kvíðinn. Ég fór bara í heimsókn til fólks og treysti bara. Ég labbaði bara inn. Ég trúði því að allir væru góðir, en svo var brotist inn til mín og öllu rænt.

Mér finnst góður eiginleiki að trúa því að allir séu góðir og ég vil ekki breyta því. Fyrst var ég svolítið hrædd eftir innbrotið, því ég var ein heima með dóttur mína og einhver hefði getað gengið inn á okkur. En svo hugsaði ég; þetta er bara fólk sem er að ströggla í lífinu. Þetta er ekki minn sársauki, þetta er meira þeirra. Ég hafði líka hugsað fyrir innbrotið að ég þyrfti að fara að losa mig við jakka og alls kyns föt, svo þau sáu bara um það fyrir mig. Ég vil ekki festast í reiðinni og ég er ekki langrækin. Ég held að reiði sem tilfinning sé stundum nauðsynleg til þess að koma manni í gegnum erfið áföll svo maður gefist ekki upp. En svo þarf að gera hana upp, svo hún verði ekki að andlegu meini.

Ein stærsta áskorunin sem ég hef lent í var þegar ég missti íbúðina mína eftir bankahrunið og þurfti að flytja heim til mömmu og pabba og búa hjá þeim í þrjá mánuði. Það var mjög mikið högg fyrir sjálfsmyndina og óttinn við að geta ekki skapað börnunum mínum betra líf var mikill. Ég trúði ekki að ég myndi missa heimili mitt. Ég er samt svo heppin að eiga ótrúlega góða fjölskyldu sem stendur við bakið á mér og ég þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að eiga ekki í mig og á.

Hins vegar ýfði þetta áfall mjög upp kvíðann hjá mér. Að finna að ég væri ekki örugg sem einstæð móðir. Með tíð og tíma, og með hjálp alls þessa yndislega fólks sem ég hef í kringum mig, komumst við út úr þessu. Sem betur fer. Kvíðinn yfir því að hafa ekki nóg fyrir mig og börnin mín tók stundum yfir, en ég hef verkfæri til að takast á við það sem veldur mér kvíða.“

Þegar maður hefur misþyrmt líkamanum þá þarf maður að byggja sig aftur upp frá grunni

Sigga átti sitt fyrsta barn tvítug. Hún var hins vegar að nálgast 37 ára aldurinn þegar hún átti fjórða barnið. „Munurinn á að eiga barn núna er sá að ég er ekki eins sjálfhverf og þegar ég var tvítug. Mér finnst ég ekki alltaf vera að missa af einhverju. Núna er ég viðkvæm fyrir því að missa svefn hahaha … Ég læt það ekki stoppa mig, en ég þarf að vera rosalega meðvituð um það. Það kemur líka út frá átröskuninni, það er viss aftenging við líkamann og virðingarleysi. Þegar maður hefur misþyrmt líkamanum þá þarf maður að byggja sig aftur upp frá grunni með virðingu að leiðarljósi.

- Auglýsing -

Ég þakka samfélagslegum breytingum hversu góðum bata ég hef náð. Og ég sé líka hvernig hugarfar mitt er orðið miklu betra. Mér finnst fjölbreytileikinn vera þannig að allir líkamar eru fallegir. Ég fagna því að fitufordómar séu á undanhaldi. Af því að ég er svo grönn þá fæ ég meira línur í andlitið. Ég get ekki einu sinni breytt neinu og húðlæknirinn minn sagði að það eina sem ég gæti gert til þess að fylla í hrukkur væri að bæta aðeins á mig,“ segir Sigga í gríni en segist ekki vilja fara út í umræðuna um aldursfordóma. „Það er fallegt að eldast og það er fallegt að það sjáist að þú hafir lifað.

Mér finnst svo gaman að börnin mín fái að sjá mig fertuga að vinna Söngvakeppnina. Það sýnir þeim að maður getur allt sem maður vill. Þau eru búin að vera með mér einstæðri og sjá mig harka svo mikið. Það er því ekki síður persónulegur sigur að ná þessum árangri.“

Helstu sigrarnir

Við höldum áfram að tala um sigrana hjá Siggu. Hún færir sig til í stólnum og það kemur viss værð yfir hana þegar hún útskýrir stolt að hennar helstu sigrar séu börnin hennar.

- Auglýsing -

„Þau eru stórkostlegar manneskjur, kurteisar og fallegar. Mér er alveg sama hvað þau fá í einkunn í skólanum, bara að þau séu góðar manneskjur. Það er helsta afrekið. Mér þykir líka svo vænt um samband mitt við fjölskylduna, því það er ekki sjálfgefið að maður eigi það.“

Við höfum lifað og hrærst í  tónlistarheiminum alla tíð og það hefur gagnast okkur helling

Sigga ólst upp við tónlist. Foreldrar hennar eru tónlistarmenn, en auk þess voru afi hennar, Jón Múli Árnason, og amma hennar, Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, bæði þjóðþekkt og daglegir gestir á íslenskum heimilum gegnum Ríkisútvarpið. „Það kom alveg stundum fyrir að ég óskaði þess að fjölskylda mín væri hefðbundnari, að allir væru í dagvinnu og við hefðum getað verið meira heima á kvöldin og um helgar. En svo öfunduðu aðrir mig af því að fá að upplifa þennan heim, gista á hótelum og vera á tónleikum og eiga þekkta foreldra. Við höfum lifað og hrærst í  tónlistarheiminum alla tíð og það hefur gagnast okkur helling.

Eyþór Gunnarsson og Sigga Ey að spila á píanó. Eyþór er þekktur djasspíanisti. Aðsend mynd.

Foreldrar mínir hafa alltaf stutt okkur svo mikið. Og amma Sísý á meðan hún lifði. Hún var mér svo mikil fyrirmynd. Hún hafði svo óbilandi trú á mér. Hún sá mig alltaf sem einhverja súperstjörnu þó að ég hefði aldrei trú á því. Mamma og pabbi sjá líka alltaf meira í okkur en við sjálfar. Ég hef átt alls konar fyrirmyndir í mínu lífi. Þar á meðal eru hinn andlegi kennari Ram Dass, sem ég er rosalega hrifin af, og Alan Watts heimspekingur og fleiri. Þeir hafa kennt mér mikið um lífið. Ég lít til þeirra, því þeir boða kærleika, jöfnuð og frið, að allir fái að vera þeir sjálfir. Með þeim skoða ég hvernig ég virkja friðinn innan frá mér. Ég laðast að öllum sem breiða út þann boðskap.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni inn á vefblaðinu HÉR.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -