Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Siggi Björns trúbador: „Sex tímar þar til varðskip náði að koma vír á milli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Siggi Björns. Trúbador. Tónlistarmaður. Togarasjómaður að vestan.

„Upp úr 1977 fór ég að fara á netavertíðar. 1975/1976 fór ég á Patreksfjörð. Tálknafjörð. Ég fór frægan túr rétt fyrir jól með Sæla. Við söltuðum olíulausir einhvers staðar á 30 mílunum í kolvitlausu veðri með fullan bát af fiski. Báturinn var eins og tappatogari. Hann kom beint frá Danmörku eftir vélarskipti og tanksýstemið í honum, olíutankarnir, var eitthvað öðruvísi heldur en áður; það bara bara fyllt upp í helminginn. Við héldum hann vera fullan.“ Svo drapst á öllu. „Og við vorum á reki í kolvitlausu veðri. Ég held það hafi verið um sex tímar þar til varðskip náði að koma vír á milli,“ segir Siggi Björns í viðtali við Reyni Traustason.

Svo var ykkur dröslað í land.

Síðan var farið í siglingu til Grimsby rétt fyrir jól. „Það tók tvo daga að komast úr úr höfninni aftur. Það vantaði alltaf einhvern um borð þegar átti að fara.“

 

Hin vota gröf

- Auglýsing -

Siggi Björns fæddist árið 1955 á Flateyri og þar ólst hann upp.

Hann segir að kinnungurinn af Mumma hafi legið á bryggjunni.

Hann var níu ára þegar Mummi og Snæfellið frá Flateyri sukku árið 1964. „Ég man það eins og það hefði gerst í gær. Ég man eftir stemmningunni,“ segir Siggi og segist hafa farið niður á bryggju um nóttina þar sem um nóttina þar sem brak hafi komið á land; hann segir að kinnungurinn af Mumma hafi legið á bryggjunni. „Ég þekkti alla. Þetta voru hetjur manns. Þegar ég var 12 ára voru hetjurnar ekki popparar, gítarleikarar eða leikarar. Það voru þessir karlar. Maður var alltaf niðri á bryggju þegar þeir komu í land. Þetta voru hetjurnar. Hannes Óli, Benni og Hringur Hjörleifs. Hetjurnar gerðust ekki stærri. Haraldur Olgeirsson, frændi minn. Þannig að maður þekkti alla þessa menn. Og þetta voru fyrirmyndir og maður horfði upp til þeirra svipað og maður sæi einhverjar poppstjörnur í dag bara við hliðina á sér í sundi. Þetta voru hetjurnar. Ég man eftir öllum þessum mönnum.

Svo 1967 fer Freyja úr Súðavík með kærasta Kiddýjar systur og stjúppabbi hans. Það var á hverju ári sem fórst bátur.“

- Auglýsing -

Þetta er breytt núna.

„Þetta er viðhorfsbreyting og vitneskja um öryggismál.“

 

Danskurinn

Siggi lenti í óhappi þegar hann 10 ára. Og það var farið að kalla hann „danskinn“ í kjölfarið.

Ég held það hafi blætt inn á heilann.

„Við vorum að grýta máva og ég fékk einn hnullung í hausinn. Ég held það hafi blætt inn á heilann. Ég lá fyrst í tvær vikur á sjúkrahúsinu heima og fór svo á Landspítalann og þar kom í ljós að það voru blæðingar í gangi og ég var strax settur í flugvél.“ Leiðin lá til Danmerkur. „Þar sýndi myndataka að þetta hafði gengið til baka að hluta til. Þar var verið að pæla í að skera eða ekki sem var mjög áhættusamt á þessum tíma. Þetta með danska nafnið; menn voru ekkert sigldir á þessum tíma.“

Þú varst eini púkinn á eyrinni sem hafði komið til útlanda.

„Já.“

Sagan segir að nafnið hafi komið til þegar maður nokkur sagði að nú kæmi strákurinn heim með danskan heila af því að það væri búið að skipta um heila í honum.

„Þeir gleyptu þetta sumir; þetta nafn kom upp úr því: Danskurinn.“

 

Beitningaskúrinn

Siggi var farinn að vinna í beitningum 13 ára gamall.

„Ég og vinur minn frá Flateyri skiptum með okkur átta bölum. Þetta var 1969. Ég man að þeir voru helvíti langir fyrstu dagarnir og svo man ég að þetta var sumarið þegar Hey Jude kom fyrst í útvarpið. Það er myndin sem ég á frá þessu sumri.“

Það var ákveðinn kúltúr í beitningaskúrunum. Þetta voru mestu kjaftamaskínur þorpsins; ef fólk ætlaði að frétta eitthvað þá þurfti það að fara í beitningaskúrinn.

„Þarna voru búnar til fréttir og allt saman. Þarna var hægt að rífast án ábyrgðar. Það var sagt í gamla daga þegar maður sagði eitthvað bull „þetta er eitthvað skúrakjaftæði“. Sumt af því sem á að heita samskipti á Facebook og netmiðlunum væri ekki einu sinni hæft í skúrunum. Þetta er komið langt yfir það.“

Þarna er átt við nettröllin.

Ég man eftir sjóslysinu 1968 í Ísafjarðardjúpi þegar Ross Cleveland fórst.

Siggi segir að beitningaaðstaðan á Flateyri hafi lengi verið með eindæmum góð. „Hún var miklu betri en á öðrum stöðum. Það var viss menning í kringum það. Til dæmis var alltaf skákborð. Það var teflt. Jafnvel fjartefli. Menn komu aðeins frá balanum og kíktu.“

Og héldu svo áfram að beita.

„Ég man eftir sjóslysinu 1968 í Ísafjarðardjúpi þegar Ross Cleveland fórst. Þá var ég fram á kvöld í beitningaskúrnum. Þá var hlustað á bátabylgjuna; þá var útvarp í fremsta skúrnum. Það var fullt af körlum þar. Og ég fékk að vera langt fram á kvöld til að fylgjast með þessu. Þetta fór allt fram í beinni; þessi slagur inni á djúpi.“

Siggi Björns segir að þessi beitningaskúramenning hafi verið sérstök.

 

Verbúðaflakk

Hann var 18 ára þegar vinur hans féll milli báts og bryggju í Ólafsvík. „Það var þá reiknað með að það væru svo og svo margir karlar á ári. Ótrúlegt alveg.“ Hann segir það hafa verið tilviljun hverjir lifðu af og hverjir ekki.“

Hann vann í trésmiðju í eitt ár. Flaskan var farin að heilla. Svo byrjaði verbúðarflækingurinn.

Þú varst náttúrlega svaðblautur.

„Það kom fyrir,“ segir Siggi Björns og hlær.

Þú reyndir oft að hætta og svo bara allt í einu tókst það.

Margar meðferðir í tvö og hálft ár.

„Upp úr 1980 fór ég að reyna. Það tók tvö og hálft ár að ná því. Margar meðferðir í tvö og hálft ár. Þá var ég búinn að vera árinu á undan á verbúðaflakki; ég var á vertíðum – kom kannski heim um sumar og stundum spilaði ég með strákunum og stundum ekki.“

Hann er að tala um hljómsveitina Æfingu frá Flateyri.

„Svo var ég á vertíðum á veturna; stundum á tveimur stöðum yfir veturinn.“

Nei, það var ekki auðvelt að snúa baki við Bakkusi. „Það voru tvö og hálft ár í helvíti með að reyna það. Svo gerðist það. Það kom inn hugmynd hjá mér seinast í meðferð að ég væri í þeim hópi sem mögulega ætti séns. Svo einhvern veginn small það.“

Jú, það var þetta verbúðaflakk. „Það var spennandi í byrjun og svo varð alltaf lægra og lægra á því risið.“ Siggi talar um verbúð á Höfn í Hornafirði. „Ég átti ekki fyrir fari út á flugvöll þegar ég var búinn með vertíðina.“ Hann segir þar hafa verið flottustu verbúð landsins. „Ég var einn í herbergi.“ Þar voru um 90 manns og megnið stelpur. „Það var ekki hægt að biðja um betra. Það var rosa fín aðstaða.“

 

Miklar tekjur

Hann beitti.

„Ég fór svo á reknetið; fór svo á rek. Við vorum með hæstu bátum; var á Þóri. Kom um haustið til að beita á bát sem hét Jakob. Það var brasútgerð og ég endaði sem afleysingamaður um borð í Steinunni uppi á Ólafsvík hjá Leifi og svo á Þóri. Beitning og svo netin. Ég átti ekki krónu eftir þegar kom að vori.“

Siggi var búinn að vera víða á þvælingi þegar hann fór á Gylli.

„Já, ég var orðinn edrú þegar ég fór á Gylli. Ég kom vestur á móti öllum ráðum. Ætlaði að vera í tvo mánuði bara í beitningu og svo var það fínt og ég hélt áfram að vera þar. Ég kom vestur af því að það vantaði mann á Ásgeir Torfason í tvo mánuði. Ég var þar til 1988/1989 þegar ég fattaði að það væri hægt að lifa af að spila þessi grip sem ég kann.“

Hvað Man Siggi Björns helst frá þessum árum á rauða og hvíta skipinu; Gylli?

„Ég man að ég þóttist vera mjög heppinn þegar ég fékk pláss þarna um borð.“

Já, þetta eru miklar tekjur.

Maður labbaði inn í apparat sem virkaði.

„Já, þetta voru miklar tekjur og kjarninn af mannskapnum var búinn að vera lengi. Maður labbaði inn í apparat sem virkaði. Mér var tekið strax. Það var enginn aðlögunartími sem ég þurfti. Ég þekkti flesta, var búinn að þekkja þá alla ævi og þekkti í sumum tilfellum pabba og mömmur og afa og ömmur.“

Siggi segir að hann væri sennilega enn um borð ef hann hefði ekki farið í þetta gítarævintýri.

 

Slatti af plötum

Saknar Siggi Björns þess ekkert að vera ekki á sjó?

„Það kom fyrir fyrstu árin en það voru mjög stutt móment.“

Hann segist þrisvar hafa farið í kringum hnöttinn og endað í Danmörku og síðan er hann búinn að lifa af þessu. „Þetta“ er músíkin.

Hann byrjaði snemma í músíkinni.

Það kom meira að segja fyrir að maður spilaði á balli án þess að muna eftir því daginn eftir.

Og hann talar um partíin áður en hann hætti að drekka. „Maður er ekki eins lengi í partíum eins og áður. Maður var alltaf síðastur og vaknaði stundum í partíinu þegar næsta partí var að byrja. Það kom fyrir.“

Það var rokk og ról.

„Það kom meira að segja fyrir að maður spilaði á balli án þess að muna eftir því daginn eftir.“

Jú, Sigga langaði að vita hvernig hann gæti lifað af þessu í eitt eða tvö ár. „Bara prófa eitthvað nýtt og þá hugsaði ég með mér að ef ég gerði þetta í eitt eða tvö ár og það gengi upp þá gæti ég komið heim aftur og þá væri ég með einhverja reynslu sem hinir væru ekki með. Svo er það þannig að maður gefur einhverju séns og þá gefa aðrir manni séns. Ég gerði ekkert einn. Það kom fullt af fólki að þessu,“ segir hann og nefnir nokkur nöfn. „Því jákvæðari sem ég er og gef hlutunum séns því fleiri gefa sama hlut séns. Kannski ekki alveg eins og maður hugsaði sér en það lendir einhvern veginn í sínu fari.“

Ég held þær séu átta með eigið efni og svo í samstarfi við aðra líka.

Siggi segist vera búinn að gefa út slatta af plötum. „Ég veit ekki hvað þær eru margar. Ég held þær séu sex eða sjö með eigið efni og svo annað sem er staðbundið eða með blönduðu efni eða gömlum bæði „live“ upptökum og öðru. Ég held þær séu átta með eigið efni og svo í samstarfi við aðra líka. Í Danmörku og Þýskalandi. Þannig að það er búinn að koma slatti út.“

Siggi Björns og Fransizka, eiginkona hans, við æfingar fyrir tónleika.

Hann segir að á síðustu plötunni sé lag með texta sem varð til eftir að hann og vinkona hans horfðu á útsendingu BBC. „Það voru tónleikar, sögustund, um slysin 1968. Það voru þrír togarar sem fóru á 10 dögum frá Hull. 58 menn. Einn komst af.“ Hann talar um konurnar sem risu upp í Hull, rottuðu sig saman og fóru allt leið til London og heimtuðu betri öryggismál fyrir sjómenn.

Textinn er á ensku. „Það hreyfði við manni aftur og maður fór til baka; hvaða bátar fóru niður? Svanurinn, Freyjan, Mumminn og Snæfellið; endalaust bátar sem voru að fara á hverjum vetri.“

 

Bölvaði svo fallega

Hvert er besta lagið hans?

„Það eru tvö sem ég held dálítið upp á í augnablikinu. Annað er Lost at Sea; það er um sjóslysin. Svo er það Stormurinn. „Það er um helvítis veðurfréttamanninn. Ég gerði það fyrir vísnasöngvartúr um Norðurlöndin með Svía, Norðmanni og Dana og þurftum við að spila lög á okkar eigin tungumáli. Ég var ekki með neitt lag sem hljómaði eins og vísnasöngur og ákvað að gera dálítið grín að vísnasöngvurum. Ég gerði lag – melódíu – sem hljómaði eins og grín að vísnasöng og það er mikið af blótsyrðum í laginu. Ég byggði þar á karli sem ég var með á sjó frá Höfn í Hornafirði og á verbúð sem hét Guðmundur. Ég hef aldrei heyrt mann fyrr eða síðar bölva svona fallega. Hann gat bölvað í tvær mínútur án þess að draga andann og aldrei nota sama orðið tvisvar. Og allt á íslensku. Hann notaði aldrei tökuorð. Og hann náði sér aldrei betur á strik heldur en þegar veðurfréttirnar í sjónvarpinu voru.“

Siggi Björns býr í Berlín. „Þegar ég kem út aftur verðum við með tvenna tónleika.“ Það er dúett. Svo kemur sonur hans fram með dúettinum á seinni tónleikunum; spilar á slagverk. Svo verður pakkað niður og haldið til Bornholm en þar hefur Siggi spilað í 32 sumur. Þetta verður því 33. sumarið hans þar.

Verður hann einn að spila þar?

„Ég tek oft gesti með mér. Það koma tónlistarmenn í heimsókn.“

Hann segir fyrstu kvöldin vera uppbókuð. Og haustið er bókað. „Þetta ár er farið og næsta ár meira og minna líka.“

Verða næstu ár svona?

„Ég vona það. Þetta er spurning um hugarfar og heilsu og hversu lengi maður heldur þetta út.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -