Árni Þórður Sigurðsson, sonur Sigga Storms veðurfræðings, er loksins laus úr öndunarvél og vonast er til að hægt verði að útskrifa hann af gjörgæslu á næstunni.
Líkt og Mannlíf greindi frá voru síðustu jól ansi erfið hjá Sigurði veðurfræðingi, sem oftast er kallaður Siggi Stormur, og fjölskyldu hans. Þá var Árna Þórði haldi sofandi á gjörgæslu vegna mjög alvarlegra líffærabilunnar.
Nú horfir loks til betri vegar og segir Sigurður að hér sé á ferðinni sannkallað kraftaverk.
„Auðvitað erum við bara í sjöunda himni en mér finnst þetta ennþá svolítið óraunverulegt. Ég get verið svolítill hörmungarhyggjumaður þannig maður hefur stigið mjög varlega til jarðar,“ sagði Sigurður í samtali við DV.
„Maður stígur varlega til jarðar í öllum fögnuði en auðvitað er okkur alveg stórkostlega létt. Það er bara eins og blý hafi verið tekið af öxlunum, kvíðahnútarnir eru allir að leysast upp. Þetta er búinn að vera alveg hræðilegur tími, skelfilegur tími, og þessi rosalega óvissa, nagandi óvissa vikum og mánuðum saman fer alveg rosalega illa með mann. En ég vorkenni mér minnst náttúrulega, það er hann sem þurfti að ganga í gegnum þetta.“
Sigurður er ákaflega þakklátur starfsfólki spítalans
„Ég er bara agndofa yfir færninni, metnaðinum, kraftinum í þessu fólki, læknunum, hjúkrunarfræðingunum og sjúkraliðunum. Þetta fólk hefur haldið manni bara á floti, ekki bara hugsað um sjúklinginn heldur okkur foreldrana líka. Þau bæði stöppuðu í mig stálinu og sendu kraftmikla og hlýja strauma. Ég held að þetta í samblandi við þetta frábæra starfsfólk á spítalanum – þetta er skýringin á því að drengurinn er á lífi.“