Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

„Að sjá barnið sitt visna og deyja er óbærileg lífsreynsla“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigmundur Ernir Rúnarsson tók í dag við sem aðalritstjóri útgáfufélagsins Torgs ehf sem og ritstjóri Fréttablaðsins en Torgi tilheyra Fréttablaðið, Hringbraut, Markaðurinn og DV.

„Ég er búinn að vera hér innandyra frá því Hringbraut sameinaðist Torgi útgáfufélagi í upphafi síðasta árs,“ segir Sigmundur Ernir sem hefur verið sjónvarpsstjóri Hringbrautar. „Við höfum síðan verið að vinna smám saman að því að auka samlegðaráhrifin milli allra miðla Torgs og þegar Jón Þórisson, fráfarandi ritstjóri Fréttablaðsins, ákvað að hætta þá fannst eigendum þessa fyrirtækis vera eðlilegt að leita til mín varðandi þessi samlegðaráhrif þannig að við gætum hámarkað útkomuna úr hverjum og einum miðli. Hlutverk mitt verður fyrst og fremst að sameina þessa ritstjórn endanlega.“

Sigmundur Ernir segir að hann muni í aðalritstjórastólnum leggja áherslu á fréttaskýringar, öflugri fréttaþjónustu og myndrænni framsetningu.

„Þess utan munum við nýta allt það efni sem til fellur á hverjum degi inn í alla miðlana. Fréttir eru ekki eins og geymsluvara. Þær eiga bara að fara beint í loftið.“

 

Erfitt að hemja tárin

Sigmundur Ernir segist vera fréttafíkill af bæði gamla og nýja skólanum. Hann sté sín fyrstu skref í fjölmiðlaheiminum á Vísi 1981 en þaðan lá leiðin á Helgarpóstinn og loks á RÚV árið 1985 þegar hann, Ómar Ragnarsson og Agnes Bragadóttir sáu um sjónvarpsþáttinn Á líðandi stundu. „Það var á þeim tíma þegar áhorf á svoleiðis þætti var 85-90%.“

- Auglýsing -

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og Sigmundur Ernir verið áberandi í fjölmiðlaheiminum fyrir utan nokkur ár þegar hann sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna.

Það er oft talað um fjölmiðlabakteríuna sem erfitt er að losna við; kannski ætti frekar að tala um fjölmiðlaveiru þar sem oftar er auðveldara að losna við bakteríu heldur en veiru. Aðalritstjórinn er beðinn um að lýsa þessari bakteríu.

„Þetta er takmarkalaus forvitni og ofboðsleg eftirsókn eftir því að taka eftir því sem er að gerast í samfélaginu. Ég hef stundum sagt að það séu forréttindi að skrifa Íslandssöguna og mannkynssöguna jafnóðum og hún gerist og það er það sem við erum að gera í þessu fagi. Við erum jafnframt að upplýsa og afhjúpa sem og að sýna samfélagið eins og það er í raun og sann en ekki eins og það hefði átt að vera eða gæti verið. Þess vegna er svo mikilvægt að sýna samfélagið í breidd sinni og alla duttlunga þess. Þegar ég var að byrja í blaðamennsku árið 1981 var varla til nokkur samkynhneigður maður eða ofbeldismaður á heimilum. Menn þögguðu allt niður. Það átti ekki að sýna samfélagið eins og það var í raun og veru en með aukinni rannsóknablaðamennsku tókst okkur að afhjúpa samfélagið eins og það er. Og það er meginhlutverk fjölmiðla á hverjum tíma að segja frá því hvernig samfélagið er í raun og sann til þess að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun um hverju það vill breyta og hvernig það vill breyta.“

- Auglýsing -

Þegar Sigmundur Ernir er spurður hvað nýtt starfi muni þýða fyrir hann segist hann fyrst og fremst ætla að njóta þess að vera búinn að afla sér um 40 ára reynslu í heimi fjölmiðla á dagblöðum, í útvarpi og sjónvarpi og svo á internetinu undanfarin ár og miðla af þeirri reynslu. „Það eru út af fyrir sig forréttindi að geta miðlað af reynslu og ég vona að mér takist það þokkalega.“

Hann segir að þau séu mörg atriðin sem hægt sé að rifja upp þegar hann er spurður hvað sé eftirminnilegast á ferlinum, bæði skemmtileg og sorgleg.

„Erfiðast var að lesa fréttir um þá sem höfðu látist í snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri.

Þá átti ég mjög erfitt með að hemja tárin og grátinn. Skemmtilegustu mómentin eru síðan að fylgjast með glæsilegum sigrum hæfileikaríks fólks í pólitík og á forsetastóli. Síðan eru það alls kyns atvik út um allt land. Stór þáttur þessa starfs tengist þeim forréttindum að kynnast öllu landinu og fólki til sjávar og sveita. Ég held ég hafi komið til allra byggðasvæða á Íslandi og meira og minna allra óbyggða. Og það er náttúrlega ómetanlegt.“

 

Að vera manneskja

Sigmundur Ernir nefndi tárin. Grátinn. Hann þekkir bæði tár og grát persónulega en hann missti elstu dóttur sína árið 2009. Hann er spurður hvort sú reynsla hafi áhrif á það hvernig hann tekur á erfiðum málum í vinnunni og hvernig hann talar við viðmælendur sem þekkja sorgina.

„Öll reynsla er mikilvæg og líka sú erfiða. Hún mótar mann og maður er fyrst og fremst mótaður af mótlæti. Það gerir mann að manneskju. Og í þessu starfi sem og svo mörgum öðrum þá má maður aldrei gleyma manneskjunni. Það er einn mikilvægasti fylginautur manns í starfi – að vera manneskja.“

Hvað er dauðinn í huga hans?

„Hann er held ég að því leyti endanlegur að viðkomandi verður ekki til staðar lengur nema í minningunni. Og minningin heldur fólki á lífi.“

Sorgin fylgir honum í gegnum lífið. Hvernig tekst Sigmundur Ernir á við hana?

„Með því að hugsa fallega um dóttur mína. Hugsa um það góða og fallegar samvistir á hverjum degi. Og það þarf líka að næra þakklætið. Eitt það mikilvægasta í lífinu er að vera þakklátur fyrir það sem maður fær en vanþakklæti er einhver mesta böl.“

Missirinn bæði mótaði hann og styrkti.

„Ég lærði að hemja reiði. Ég lærði að lifa með missi og ég fékk að kynnast því sem stundum hefur verið kallað óréttlæti þessa heims.

Að leggja erfiðan sjúkdóm á manneskju er kannski það erfiðasta sem til er í lífinu. Ég tala nú ekki um hrörnunarsjúkdóm. Að sjá barnið sitt visna og að lokum deyja er óbærileg lífsreynsla.“

Fjallgöngur í Ölpunum

Sigmundur Ernir Rúnarsson á sér líf eftir hefðbundinn vinnudag sem nær oft langt fram á kvöld. Hann er kvæntur Elínu Sveinsdóttur dagskrárframleiðanda, sex barna faðir og á eitt afabarn. Og hann á sér áhugamál. Það er íslensk náttúra. Fjallgöngur. Og svo skrifar hann. Yrkir.

„Ég fer á fjöll og reyni að hreyfa mig eins og ég get. Ég er í stórkostlegum gönguhópi sem fer út um allar trissur; til óbyggða og inn til dala og upp til fjalla. Það er svo mín núvitund þegar ég set símann út í horn og yrki. Það er mitt jóga.“

 

Farangur

 

Það kemur fyrir

að fólkið doki við

á vegamótunum

 

og átti sig á því

að öllum farangrinum

sem það er klyfjað

 

hefur verið pakkað niður

af öðrum.

 

(Úr ljóðabókinni Skáldaleyfi.)

 

Fjöllin. Hvað upplifir Sigmundur Ernir á fjöllum?

 

„Virðingu fyrir náttúrunni og afrekum forfeðra okkar sem fóru um þetta harðbýla land. Það eru ótrúlega merkilegar stundir sem nútímamaðurinn upplifir við að vera án síma og tölvu; að vera laus við þetta áreiti þessa sígjammandi heims.“ Og það upplifir hann vissulega á fjöllum.

Hvað er íslensk náttúra?

„Hún er óendanlegur fjölbreytileiki.“

Á aðalristjórinn uppáhaldsblóm á fjöllum?

„Holtasóleyin er alltaf í uppáhaldi. Að sjá hana vaxa upp um öll firnindi og lifa íslenska sumarið af; það eru galdrar.“

Hvað með lyktina? Hljóðin?

„Þau eru besta sinfónía sem hægt er að leyfa eyrunum að hlusta á. Óendanlega fjölbreytt. Og líka þögnin.“

Jú, Sigmundur Ernir Rúnarsson er þekktur fjölmiðlamaður. Opinber persóna. Hvað heldur hann að fólk viti ekki um hann?

„Ég nota ekki sjampó og ég hef aldrei gengið í gallabuxum.“

Nei. Engar gallabuxur. Hann er spurður um stílinn. Fatastílinn. Hann er stundum á skjánum í litaglöðum jakkafötum. Skrautlegum sokkum.

„Ég fer bara í þau föt sem eru hreinust á morgnana. Ég er ekki upptekinn af því sem ég klæðist; reyndar er ég skáldlegur í spjallþáttunum mínum, fréttalegur í fréttaþáttunum og sportlegur í fjallaþáttunum. Þannig að ég reyni að skipta um föt eftir því sem efni þáttanna krefur.“

Uppáhaldslitur?

„Hann er nú rauður myndi ég segja.“

Sigmundur Ernir er kannski búinn að fá draumastarfið. Aðalritstjóri. Hann er spurður hvað hann dreymdi í nótt.

„Mig dreymdi fjallgöngur í Ölpunum svo merkilegt sem það er. Það eru alltaf einhverjar brekkur í lífinu sem mann dreymir um.“

Var hann á upp- eða niðurleið?

„Ég held ég hafi verið bæði á uppleið og niðurleið; bara eins og lífið er.“

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -