Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Sigmundur Ernir talar hreint út: „Okkur var hent út á sama tíma og elsta dóttir okkar var að deyja“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rússneski fáninn, fótum troðinn, á mynd sem Fréttablaðið birti og í kjölfarið heimsóttu tveir starfsmenn rússneska sendiráðsins hér á landi ritstjórnarskrifstofu Fréttablaðsins. Sendiráðið vildi afsökunarbeiðni. Sem það fékk ekki. Ritstjórinn, Sigmundur Ernir Rúnarsson, segir að sér finnist þetta vera aðför að íslenskum fjölmiðlum. Sama dag var gerð netárás á vef fjölmiðilsins. Sigmundur Ernir hefur staðið í eldlínu fjölmiðlanna í um fjóra áratugi og talar við Reyni Traustason um ferilinn svo sem þegar hann var rekinn úr starfi fréttastjóra Stöðvar 2. „Það á og má reka fréttastjóra Stöðvar 2.“ Þá voru góð ráð dýr. Og Sigmundur Ernir gaf kost á sér og komst á þing. Hann hélt síðan áfram í fjölmiðlum eftir fjögur ár við Austurvöll og stýrir í dag fjölmiðlaveldi. Og hann skrifar bækur og gengur á fjöll. Fram undan eru tvö fjöll í Afríku. Hann talar um andardrættina þrjá í hverju skrefi.

„Ég hef verið í blaðamennsku í yfir 40 ár og hef aldrei fengið tilskipanir frá sendiráði á Íslandi sem vill hlutast til um það hvaða myndir við birtum og hvaða myndir við birtum ekki,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, í viðtali við Reyni Traustason þegar þeir ræða um afskipti rússneska sendiráðsins hér á landi í kjölfar þess að Fréttablaðið birti mynd af rússneska fánanum sem var Rússunum ekki að skapi. „Sérstaklega er þetta skrýtið í ljósi þess að eitt algengasta andlag stríðsátaka eru mótmæli þar sem fánar viðkomandi árásarríkja eru brenndir, skornir, skitnir út eða traðkaðir niður. Þetta eru einar algengustu átakamyndir allra stríða sem hafa verið háð á síðustu árum og áratugum. Það er verið að brenna ísraelska fánann, bandaríska fánann, rússneska fánann; fána þessara þjóða sem eru að ráðast á aðrar þjóðir. Og svo koma Rússar allt í einu og krefjast þess að við biðjumst opinberlega afsökunar á því að hafa birt mynd af rússneska fánanum niðurtroðnum, fótum troðnum, og krefjast þess að við gerum það í ljósi íslenskra reglna eða laga sem er í rauninni löngu úrelt. Stundum er sagt að það fyrsta sem falli í stríði sé sannleikurinn og reglur, sem sé frelsið til að mótmæla; tjáningarfrelsið verður oft og tíðum lagabókstafnum yfirsterkara. Vegna þess að fólk á heimtingu á að mótmæla blóðsúthellingum, aðförum að börnum, gamalmennum, menningu, húsum, sögu landsins. Eins og er bara að gerast í Úkraínu. Og Rússar eiga að líta sér nær heldur en þetta og hugsa sinn gang.

Mér finnst þetta aðför að íslenskum fjölmiðlum.

Sendiráð Rússa birti okkur bréf sem tveir sendiráðsmenn komu með til okkar inn á ritstjórn og við svöruðum um hæl um að þeir stjórnuðu ekki íslenskum fjölmiðlum. Mér finnst þetta ekki aðför að Fréttablaðinu í sjálfu sér. Mér finnst þetta aðför að íslenskum fjölmiðlum. Ég tók sérstaklega eftir því að íslenskir fjölmiðlar stóðu saman allir sem einn gegn þessari aðför og það er vel og ég tek hatt minn ofan fyrir íslensku fjölmiðlafólki fyrir að sýna samstöðu á svona stundum þegar sótt er að með einræðislegum tilburðum að frjálsri fjölmiðlun. Og frjáls fjölmiðlun er einn af hornsteinum lýðræðis og mannréttinda.“

Sama dag og bréfið frá rússneska sendiráðinu barst var vefurinn, frettabladid.is, tekinn niður og segir Sigmundur Ernir að hann hafi hökt fram eftir morgni. „Það kom jafnframt hótunarbréf í okkar ritstjórnarpóst væntanlega frá rússneskum þjóðernissinnum sem sögðust ætla að taka vefinn algerlega niður klukkan 12 samdægurs að Moskvutíma; klukkan níu um kvöldið að okkar tíma. Og það gekk ekki eftir. Það varð engin árás á vefinn á þeim tíma þannig að þetta var í orði kveðnu til þess að skapa ótta.“

Sigmundir Ernir segir að fundað hafi verið með utanríkisráðuneytinu, netöryggisþjónustu ríkisins og ríkislögreglustjóra. „Þau tóku þetta mjög alvarlega og mér þótti mjög virðingarvert að sjá hvað bæði utanríksiráðherra og önnur stjórnvöld tóku þetta óstinnt upp og svöruðu þessari árás. En almennt séð virðist þetta hafa verið gert til þess að hræða og hræða aðra í kringum okkur á hinum Norðurlöndunum og víðar í frjálsri Evrópu upp á að gæta sín; fara ekki að birta svona myndir – það gæti haft eftirmál. En við eigum bara að standa í lappirnar.“

Okkur er oft hótað.

Þetta hlýtur að vera svolítið álag; það er ekkert grín að fá á sig heilt heimsveldi.

- Auglýsing -

„Það komu margir að máli við mig og spurðu hvort ég væri ekki persónulega með böggum hildar; svolítið hræddur. Og ég fór að hugsa til þess. Jú, kannski á maður að vera pínulítið hræddur. Ég hef oft og tíðum sem fjölmiðlamaður og stjórnandi fjölmiðla fengið alls konar hótanir til dæmis frá fíkniefnasmyglurum sem segja að þeir viti í hvaða leikskóla eða skóla börnin mín eru. Ég hef af og til tilkynnt viðkomandi hótun til lögreglunnar en þetta er bara partur af því að stjórna íslenskum fjölmiðlum. Okkur er oft hótað.“

 

Hent út

- Auglýsing -

Sigmundur Ernir Rúnarsson er að norðan.

„Ég byrjaði í blaðamennsku 1981; kom hingað suður nýstúdent frá Akureyri. Búinn að gefa út eina ljóðabók en hafði skrifað býsnin öll af alls konar efni í menntaskólablaðið Gambra sem var stjórnarandstöðublað í menntaskólanum á móti Muninum sem var hið virðulega skólablað. Við vorum pönkararnir í skólablaðinu Gambra; ég og Hjörleifur Hjartarson, síðar skemmtikraftur með Hund í óskilum, og Þorvaldur heitinn Þorsteinsson, myndlistarmaður og rithöfundur; blessuð sé minning hans. Kristinn Eiríkur Hrafnsson, vinur minn og myndlistarmaður. Og fleira gott fólk. En ég kom hingað suður harðákveðinn í að fara í blaðamennsku og gekk alla röðina í Síðumúlanum. Fór fyrst á Þjóðviljann; fékk neitun. Svo á Dagblaðið; fékk neitun. Svo sá ég að ég gæti valið á milli Tímans hinum megin við götuna eða Vísis; mér var frekar illa við að fara á Vísi en ákvað að taka rétta röð. Og þar inni tók á móti mér Ellert B. Schram og þegar hann komst að því að ég hafði þegar gefið út eina ljóðabók, tvítugur strákurinn, þá réð hann mig á stundinni og ég gekk inn í bás hjá Árna Sigfússyni, Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni og Óskari Magnússyni. Þannig að blárra gat það ekki verið. Þetta var eins borgaralegt blað og hugsast gat en frábært fólk og miklir vinir mínir enn þann dag í dag.“

Ég er reiður þessu fólki.

Jú, Sigmundur Ernir vissi hvað hann vildi og það fékk hann. Og árin liðu í fjölmiðlaheiminum. Stöð 2 er einn af vinnustöðunum. Þar var hann fréttastjóri og segir hann að allir fréttastjórar séu reknir fyrir rest.

Sigmundur Ernir á fjalli ásamt Elínu Sveinsdóttur, eiginkonu sinni.

„Ég var rekinn og reyndar konan mín samdægurs í einhverju hefndarskyni. Ari Edwald og Ólafía Rafnsdóttir mannauðstjóri ákváðu að reka mig sem var alveg sjálfsagt mál. Það á og má reka fréttastjóra Stöðvar 2. Það er bara hið eðlilega. En þeir ákváðu að henda konunni minni út samdægurs og þetta var gert með þeim hætti að okkur var hent út. Eftir allt okkar uppbyggingarstarf, ekki síst konu minnar, Elínar Sveinsdóttur útsendingarstjóra, sem var óþreytandi og vann hjá fréttastofu Stöðvar 2 nánast frá upphafi. Okkur var hent út á sama tíma og elsta dóttir okkar var að deyja; þetta var svo fagurlega gert hjá þeim. Við vitum allt um það hvað hefur orðið um þetta fólk síðan. Og ég er reiður. Ég er reiður þessu fólki. Ég skal bara viðurkenna það. Ekki út af mér heldur út af konunni minni.“

 

Og fjölmiðlar fjölluðu svolítið um alþingismanninn sem hafði verið fjölmiðlamaður.

„Ég leið svolítið fyrir það að vera frægi karlinn.“

Maður er mótaður af mótvindi.

Þú lentir í smákrísu. Myndskeiði var deilt þar sem þú varst undir áhrifum. Slompaður í ræðustól.

„Ég hafði tekið þátt í boðsmóti bankans míns þvert um geð; fór á golfmót. Og þar var eins og stundum á þessum boðsmótum hellt svolítið upp á liðið. Ég hins vegar var svo samviskusamur að ég vissi að ég ætti ræðu klukkan 11 eða 12 um kvöldið og kom svo niður eftir og taldi mig vera færan í flestan sjó. En svo þegar hitinn innandyra sveif á mann þá fór maður kannski aðeins að slompast. Ég áttaði mig ekki þá á því að ég hefði getað frestað ræðunni. En ég var svo samviskusamur að mæta bara til leiks og það mátti heyra á mæli mínu að ég hafði fengið mér tvö þrjú rauðvínsglös. Þó það nú væri. En ég segi nú alltaf að lífið væri nú lítils virði ef maður lenti ekki í mótlæti. Og maður er búinn til úr mótvindi. Maður er mótaður af mótvindi. Og ég hef lent í alls konar erfiðleikum í mínu lífi og gert fullt af mistökum. Öðruvísi lifir maður ekki. Og maður er að mörgu leyti miklu mótaðri af mótvindi heldur en meðvindi.“

Sigmundur Ernir baðst afsökunar.

„Það sem mér finnst einna leiðinlegast við íslenskt samfélag sem er að mörgu leyti mjög heillandi og krúttlegt er að virðingin fyrir afsökuninni hefur minnkað. Samfélagsmiðlarnir eru orðnir ákafari. Gamla Gróa á Leiti er svolítið komin út á opinberan vettvang.“

Við eigum að virða afsökunina.

Hún er á Twitter.

„Hún er á Twitter, Facebook og öllum þessum samfélagsmiðlum þar sem fólk er vegið hægri vinstri og örugglega gera allir eitthvað af sér um dagana og þar á meðal ég. En við eigum að virða afsökunina. Ef menn viðurkenna mistök sín, biðjast afsökunar á þeim, biðjast vægðar og telja sig geta lært af mistökunum þá eigum við að virða afsökunina. Okkur verður öllum á. Og mér á eftir að verða aftur á. Þannig er lífið.

Við eigum að virða afsökunina og mér líst illa á þessa útilokunarmenningu sem er að halda innreið sína inn í samfélagið þar sem er verið að dæma menn úr leik án dóms og laga. Og það finnst mér vera óheillaþróun.“

Sigmundur Ernir Rúnarsson

Vinnan fram yfir vinskapinn

Sigmundur Ernir er spurður hvert erfiðasta málið sé sem hann hefur unnið að á ferlinum.

„Þau eru mörg. Auðvitað var óstjórnlega erfitt að lesa upp í tveimur fréttatímum – og ég var fréttaþulur báða dagana árið 1995 – nöfn fólksins sem fórst í snjóflóðunum á Flateyri og í Súðavík. Þetta var að mínu viti á meðal aumustu kafla Íslandssögunnar þegar þjóðin laut höfði; stóð saman sem ein fjölskylda. En ég fann hins vegar á okkur fréttafólkinu – Eggerti Skúlasyni sem fór vestur og kvikmyndatökumönnunum okkar og í rauninni bara öllum okkar hópi sem var að segja fréttir af þessu – hvað við tókum þetta inn á okkur. Þetta er einn af þeim atburðum sem maður er ennþá hvað sárastur gagnvart. Þetta er svo fámennt land. Stundum þarf maður að taka ákvörðun; á ég að segja frétt af óförum kunningja manns og vina? Jafnvel mjög náinna vina? Jú, maður kemst að þeirri niðurstöðu að maður verði að segja þessa frétt. Annars væri ég ósamkvæmur sjálfum mér. Og það hafa orðið vinslit fyrir vikið. Það er náttúrlega mjög erfitt og nánast óbærilegt að taka vinnuna fram yfir vinskapinn. Það er ekki léttvægt.“

 

Heimur ofboðslega margra hugmynda

Ritstjóri. Rithöfundur. Ljóðskáld. Fjallamaður. Hvernig hefur Sigmundur Ernir tíma í þetta allt?

„Ég hef líklega verið ofvirkur allt frá barnæsku. Ég elska að vinna. Ég elska að vera innan um fólk. Og ég elska reyndar líka einsemdina ekki síst upp til fjalla. Bara vera einn með hugsunum mínum. En ég hef alltaf verið maður margra hugmynda í einu og hef helst viljað koma þeim öllum í framkvæmd. Í þessu starfi, bæði sem rithöfundur og blaðamaður, þá æfist maður. Þá æfist maður í að fá margar hugmyndir. Sumar vondar. Aðrar skárri. Einhverjar góðar. Og þetta ágerist með árunum. Maður bara lifir og hrærist í heimi ofboðslegra margra hugmynda. Ég get nefnt sem dæmi að í hvert sinn sem ég hef klárað ljóðabók hin seinni ár þá finnst mér ég vera algjörlega tæmdur. Bara eins og tómur tankur. En svo bara óvart tveimur árum seinna er maður búinn að fylla upp í næstu ljóðabók án þess að vita af því. Þetta kemur einhvern veginn aftan að manni.“

Hann segist vera A-maður. „Ég reyni að vakna ekki seinna en sjö og ég vil helst vera kominn í vinnuna fyrir átta til að eiga alveg klukkustund til að undirbúa daginn. Svo er ritstjórnarfundur þar sem við leggjum línurnar fyrir daginn hvað varðar Fréttablaðið og frettabladid.is Svo á ég fundi með blaðafólkinu á DV sem ég er líka aðalritstjóri yfir og fólkinu á Fréttavaktinni á Hringbraut og þáttastjórnendum þar. Þannig að þetta fer mikið í fundahöld fram eftir degi. En svo reyni ég líka að skrifa í blaðið. Mér finnst ótækt að ritstjóri og vanur blaðamaður til margra ára skrifi ekki í blaðið líka þannig að ég vil helst af og til skrifa helgarviðtöl og fréttir og vera bara í stuðinu og samkeppninni meðal annarra blaðamanna um að eiga forsíðuna. Það er aðalfjörið.“

Hann segir að fréttastjórarnir ráði því hvað fari á forsíðuna.

Ég sest stundum inn á kaffihús með kompuna mína.

„Síðan er ég töluvert seinni partinn í tökum á Fréttavaktinni eða upptökum á þáttum. Ég er búinn að gera 260 Mannamálsþætti, viðtalsþættina mína í sjónvarpi. En svo af og til fer ég út á land og geri þætti þar. Ég er búinn að gera 18 fjallaskálaþætti í samvinnu við Ferðafélag Íslands um þessa merkilegu menningu sem fjallaskálarnir um öll örævi Íslands eru. Og svo nota ég kvöldin og helgar til að skrifa bækur. Ég sest stundum inn á kaffihús með kompuna mína. Ég skrifa öll mín ljóð í kompur. Litlar kompur. Ég á hundruð slíkra kompa frá því ég var í Menntaskólanum á Akureyri.“

Stundum vinnur hann fram á nótt.

Hvenær hefur hann tíma fyrir eiginkonuna?

„Á fjöllum og heima í eldamennsku. Við erum ofsalega miklir vinir. Við gerum allt saman. Við erum náin. Við unnum mikið saman, eða í kringum 20 ár, á Stöð 2 þar sem við kynntumst. Við förum mikið á fjöll. Við göngum líka mikið í bænum. Það eru ofboðslega margar fallegar gönguleiðir í bænum. Við förum mikið út á land,“ segir Sigmundur Ernir og nefnir gamla heimabæinn sinn, Akureyri, þar sem hjónin ganga jú líka.

„Við gengum um síðustu helgi rúmlega 40 kílómetra; við fórum að Fjallabak sem er einn fegursti staður landsins.“

 

Þrír andardrættir

Sigmundur Ernir segist hafa hæst verið í um 3.800 metra hæð í Andesfjöllum. „Í kringum 3.500 metrum finnur maður fyrir því þegar maður leggst á koddann að andardrátturinn er styttri en ella.“

Og fram undan er ganga í Afríku. Þar ætlar hann að klífa tvö fjöll.

„Það er annars vegar Meru, sem er um 4000 metra hátt, til að undirbúa okkur undir næsta fjall sem er Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku, sem er um 6000 metra hátt. Það verður kúnst að því leyti að labba í hita, 30 stiga hita og það verður kúnst að því leyti að þarna er matareitrun algeng. Gangan fer misjafnlega í lungu fólks.“

Sigmundur Ernir segir að síðasta daginn þurfi að ganga hægt. „Í hverju skrefi þarf maður að taka þrjá andardrætti til þess að lifa gönguna af sómsamlega vegna þess að hæðaraðlögunin er svolítið happdrætti. Og maður veit ekkert hvernig þetta fer með magann, lungun eða höfuðið. Sumir hafa endað í ranghugmyndum. En ég á von á því að við komumst klakklaust í gegnum þetta. Við verðum með frábæran leiðsögumann, Leif Örn Svavarsson.“

Svo verður gerð tveggja þátta röð um þessa ferð. „Konan verður með litla upptökuvél og lítinn dróna.“

Ég er með ofboðslega margar hugmyndir í kollinum.

Hann sem lætur landann fylgjast með málefum heimsins, býr til ævintýraheima í bókunum sínum og kynnist öðrum heimi á fjöllum og gerir um þann heim þætti sem eru meira að segja svolítið ljóðrænir segir að það sé draumur sinn að geta á næstu árum einbeitt sér enn frekar að ritstörfum. „Ég er með ofboðslega margar hugmyndir í kollinum og það er eilíflega verið að biðja mig um að skrifa hinar og þessar bækur og ég er aðallega í því að neita fólki um það. Vel rjómann. Ég er til dæmis núna að skrifa bók um konu af Ströndum. Frá Trékyllisvík. Frá bæ í Árneshreppi. Þetta er mikil örlagasaga. Dramatísk saga stúlku sem 11 mánaða gömul var flutt á spítalann á Ísafirði, berklasjúk í hryggnum. Í beinum. Og ólst þar upp til níu ára aldurs, algerlega óskólagengin“

Svo þvældist hún síðar á milli bæja. Og saga hennar hélt áfram.

Svo er það ein saga sem Sigmundur Ernir segist verða að skrifa. „Hún ber vinnuheitið „Fyrir norðan hníf og gaffal“ og fjallar um samskipti mín við Sigmund afa.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -