Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir áhrif pólitísks rétttrúnaðar vera skaðleg samfélaginu. Nú sé í gangi ný menningarbylting sem ýti undir kynþáttahyggju og feli í sér endurskoðun sögunnar, fórnarlambsmenningu og samfélagslegar aftökur.
„Nú þarf að standa vörð um grunngildi vestrænnar siðmenningar. Þau gildi sem skilað hafa samfélögum meiri árangri en nokkuð annað í mannkynssögunni. Þar ber hæst hugsjónina um að allir skuli teljast jafnréttháir óháð líkamlegum einkennum … Byggjum áfram á því besta sem síðustu árþúsund hafa skilað okkur en köstum því ekki á glæ til að þóknast þversagnakenndum og gölnum tíðaranda sumarsins 2020,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, undir yfirskriftinni Sumarið 2020 og nýja menningarbyltingin.
Í greininni fjallar Sigmundur Davíð um skaðleg áhrif pólitísks rétttrúnaðar, sem virðast tröllríða öllu á Vesturlöndum að mati formannsins. Tilefni skrifanna virðist meðal annars vera barátta hreyfingarinnar Black Lives Matter gegn ofbeldi stjórnvalda og lögreglu á svörtu fólki í Bandaríkjunum, en hreyfingin hefur sérstaklega látið til sín taka eftir að morð lögreglu á George Floyd í Minneapolis náðist á myndband og var dreift á samfélagsmiðlum í lok maí á þessu ári.
Virðist Sigmundur Davíð telja að hreyfingin endurveki kynþáttahyggju og sé hluti af nýrri menningarbyltingu sem beri m.a. með sér öll einkenni öfgatrúar, „þ.m.t. athafnir sem fólki er ætlað að undirgangast til að sanna undirgefni sína gagnvart rétttrúnaðinum“.
„Menningarbylting Vesturlanda er byggð á því sem kallað hefur verið fórnarlambamenning. Tilhneigingu til að skipa fólki í hópa sem njóta mismikilla réttinda eftir því hversu hátt þeir skora á óformlegum fórnarlambaskala,“ skrifar Sigmundur Davíð meðal annars í grein sinni.
Þótt leiðtogar nýju menningarbyltingarinnar hafi ekki vald til að taka fólk af lífi séu þó aftökur eitt helsta einkenni hreyfingarinnar, það er að segja samfélagslegar aftökur, bendir hann á. Allir sem fjalli á gagnrýninn hátt um atburðarásina geti átt von á að verða „teknir af lífi“ á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Þar sé enginn óhultur. Meira þeir sem taki þátt í henni geti vænst þess að verða skotmörk síðar meir. „Byltingin étur börnin sín“. Til viðbótar við ritskoðun samtímaumræðu felist mikilvægur þáttur menningarbyltingarinnar síðan í því að endurskrifa söguna. Þar sé ekkert óhult, hvorki sígildar kvikmyndir né söguleg minnismerki.
Telur Sigmundur Davíð tímabært að spyrna við fótum og standa vörð um grunngildi vestrænnar siðmenningar. Gildin sem skilað hafa samfélögum meiri árangri en nokkuð annað í mannkynssögunni.