Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-1 C
Reykjavik

Sigrar og sorgir Sigmars: „Það var til dæmis mjög sárt þegar ég féll“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigmar Guðmundsson er reynslubolti í fjölmiðlaheiminum. Boltanum var kastað nýlega til hans úr annarri átt og nú er hann kominn í framboð fyrir Viðreisn. Hann talar hér um Viðreisn, eftirminnilegustu málin á fjölmiðlaferlinum og sjálfan Bakkus. 

„Þetta kom eiginlega mjög óvænt upp,“ segir Sigmar Guðmundsson þegar hann er spurður um tilurð þess að hann ákvað að gefa kost á sér fyrir Viðreisn í komandi Alþingiskosningum.

„Ég var ekkert sérstaklega að hugleiða þetta en aðili frá uppstillinganefnd hafði samband við mig og var ég spurður hvort ég væri til í að hugleiða þetta ef þannig færi. Og ég sagði bara „já“ en hugsaði mig um í smátíma áður. Svo heyrði ég ekkert í þeim í góðan tíma og svo allt í einu stóð ég frammi fyrir valinu – vildi ég taka 2. sætið eða ekki? Og þá varð þetta áþreifanlegt. Ég fann strax að þetta togaði í mig; bæði finnst mér þetta vera spennandi og skoðanir flokksins eru mínar skoðanir. Þannig að ég ákvað bara að gera þetta. Ég var náttúrlega búinn að vinna lengi á sama vinnustaðnum, RÚV, og það togaði svolítið mikið í mig að breyta til.“

Fjölmiðlamaður að störfum

Frjálslyndur flokkur

Sigmar nefndi skoðanir flokksins sem eru líkar skoðunum hans.

„Fyrir það fyrsta er Viðreisn flokkur sem er frekar til hægri en um leið frjálslyndur en ekkert mjög sérstaklega íhaldssamur eins og kannski aðrir flokkar á Íslandi sem eru aðeins hægra megin í tilverunni. Þannig að frjálslyndið höfðar mjög mikið til mín. Svo vil ég nefna þessa miklu áherslu á að beina sjónum fólks að því að stærsta efnahagsmálið og stærsta málið fyrir buddu almennings og fyrirtækja er gjaldmiðillinn. Það hefur lengi verið skoðun mín sem venjulegs manns í þessu landi að það þyrfti að laga það að þurfa endalaust að vera að horfa á þessa háu vexti, verðbólgu og húsnæðislán sem hækka. Og Viðreisn hefur talað mjög skýrt um það. Síðan er Viðreisn flokkur sem hefur talað svolítið fyrir því að stokka upp þessi stóru, þungu kerfi sem eru búin að vera hérna við líði í áratugi og hafa einhvern veginn hlaðið ofan á sig og sumpart sum hver vaxið sjálfstætt einhvern veginn. Þannig að það eru líka þessar miklu kerfisbreytingar sem flokkurinn vill ráðast í sem höfða til mín.“

- Auglýsing -

Sigmar segist hafa kosið Viðreisn frá því flokkurinn var stofnaður. 

„Þegar ég var í framhaldsskóla og rétt um tvítugt þá var ég skráður í Sjálfstæðisflokkinn og starfaði í Sjálfstæðisflokknum í Garðbæ en svo hætti ég því. Þegar ég varð fréttamaður þá hætti ég öllu vafstri í kringum pólitík. Svo smátt og smátt breyttust skoðanir manns. Ég var hér og þar í pólitík áður en Viðreisn var stofnuð en ég átti erfitt með að samsama mig ákveðnum flokki. En auðvitað er það þannig þegar maður er í fréttamennskunni að maður er ekkert mikið að tjá sig um þessi mál hvað þá að starfa í kringum þetta. Það er algjörlega nýtt fyrir mér að vera í kosningabaráttu og vera allt í einu pólitískur út á við og opinn með skoðanir mínar og annað.“

 

- Auglýsing -

Reiðin og uppgjörið

Sigmar segir að áratuga reynsla sín í fjölmiðlum þar sem hann hefur fjallað um samfélagsmál sé án efa góður skóli ef hann fer á þing. 

„Fréttamennska er fag þar sem það skiptir máli að geta greint aðalatriðin frá aukaatriðunum og það skiptir máli að geta sett flókna hluti fram með einföldum hætti þannig að fólk skilji. Það eitt og sér er mikill og góður grunnur fyrir þingstörf myndi ég halda. Svo eru allir fjölmiðlar á Íslandi tiltölulega litlir þanig að maður þarf að hafa áhuga á öllu og þarf að geta fjallað um alla málaflokka og það held ég að sé eitthvað sem muni nýtast manni mikið í þessu starfi ef ég næ kjöri.“

Þegar Sigmar er spurður hvað standi upp úr á fjölmiðlaferlinum segir hann að hann hafi verið svo heppinn að fá að gera svo margt og verið í svo fjölbreyttum verkefnum.

„Ef ég ætti að nefna eitthvað eitt þá var það ótrúlega lærdómsríkt að vinna í Kastljósinu í hruninu og aðdraganda þess sem og á árunum á eftir. Þetta var svo erfiður tími. Hann var svo tilfinningahlaðinn og það var svo mikil reiði. Maður var náttúrlega með allar þessar tilfinningar, reiðina, og uppgjörið inni á gafli hjá sér í þættinum alla daga. Það var rosaleg lífsreynsla að vinna við þetta í þannig nágvígi. Og ég held að það sé ekkert annað sem komist ofar á blað heldur en það.“

Afhjúpun barnaníðings

Hvað með ákveðið mál? Ákveðna frétt?

„Það var auðvitað mjög eftirminnilegt og áhugavert að hafa fjallað um Karl Vigni og brotin hans og hafa afhjúpað hann og verið með Jóhannesi Kristjánssyni, Helga Seljan og fleirum í því.“

Sigmar ásamt vinnufélögum sínum, Jóhannesi Kr. Kristjánssyni og Helga Seljan.

Frétta- og blaðamenn eru stundum gagnrýndir fyrir fréttir sem þeir vinna í. Sigmar hefur ekki farið varhluta af því.

„Ég hef þurft að svara fyrir mín verk fyrir dómi í tvígang,“ segir hann. „En það er annars vegar að Jónína Bjartmarz fór í mál við Kastljós og Jón Baldvin í mál gegn mér og Aldísi Schram.  Ég var sýknaður í bæði skiptin. Þetta er bara fylgifiskur vinnunnar sem maður leyfir sér ekkert að velta sér of mikið upp úr. Ef fólk er ósátt og ef fólki finnst á sig hallað og finnst að það sé brotið gegn sér þá fer fólk dómstólaleiðina og það er voða lítið við því að segja. Þannig að ég dvel ekkert mikið við svoleiðis. Ég ýti því í burtu. Eins og í Kastljósinu og núna í Kveik þá er oft verið að stinga á einhverjum kýlum og menn eru oft mjög ósáttir við umfjöllun, réttmæta umfjöllun. Þeir sjá þetta með öðrum augum og telja á sig hallað. Mér finnst það bara vera hluti af starfinu að fá á sig gagnrýni. Það er hluti af starfinu að taka á sig ágjöf þess vegna frá stjórnmálamönnum sem eru ósáttir við umfjöllun og hringja reiðir. Þá er þetta spurning um að standa í lappirnar. Ég geri ekki miklar athugasemdir við það þó menn vilji hafa sterkar skoðanir á fjölmiðlum. Það bara eiginlega fylgir þessu starfi.“

 

Þetta er sjúkdómur sem hefur litað líf mitt

Það hefur gefið á bátinn í einkalífi Sigmars og hann hefur tekið á sig ágjöf. Hann er alkóhólisti og hefur gengið í gegnum dimma og djúpa dali í þeim heimi. 

„Þetta er hjartans mál fyrir mér. Þetta er sjúkdómur sem hefur litað líf mitt. Þetta er ekki neitt til þess að fara í felur með og þetta er ekkert sem ég skammast mín fyrir. Þetta er eitthvað sem er hluti af mér. Og það að sigrast á þessu er einhver mesti sigur minn í lífinu sem ég er stoltur af. Alkóhólismi er krónískur sjúkdómur sem getur lamið fólk niður aftur og aftur og hefur líka mikil áhrif á aðstandendur. Alkóhólismi þarf að vera í umræðunni; þetta er heilbrigðisvandi eins og það þarf að ræða um aðra sjúkdóma. Að mínu mati er þetta einn stærsti heilbrigðisvandi samtímans og veldur gríðarlegum kostnaði í heilbrigðis- og velferðarkerfinu en einnig þegar kemur að löggæslu og dómstólum. Þar fyrir utan stendur svo allur afleiddur kostnaður vegna þeirra áfalla sem aðstandendur verða fyrir. Þeir gleymast oft í þessari umræðu og þar verður mikill skaði. Við erum með ágætt meðferðarkerfi, sem þarf reyndar meiri peninga, en það þarf að gera miklu betur í að hlúa að allri fjölskyldunni sem stundum er rjúkandi rúst út af þessum sjúkdómi. Ég hef þurft að ganga í gegnum dimma dali en líka unnið stóra sigra.“

Mikil vonbrigði

Sigmar er spurður um dimmasta dalinn. Þar sem sortinn ríkti.

„Það var til dæmis mjög sárt þegar ég féll fyrir nokkrum árum eftir að hafa verið edrú lengi. Og það átti sér aðdraganda eins og alltaf hjá okkum ölkunum; við hættum að sinna okkur og hættum að gera það sem við erum vön að gera. Við hlúum ekki lengur að okkur og missum tenginguna við batann. Svo bara féll ég. Og það voru mikil vonbrigði. Ég fór ekki vel með mig á tímabili og hætti að sinna fjölskyldunni og vinnunni eins og ég átti að gera og þetta varð allt erfitt. Það tók mig tíma að vinna mig upp úr þessu. Mér tókst það. Ég átti góða fjölskyldu, vinnufélaga og yfirmenn þegar þetta dundi yfir og ég fór í gegnum þetta. Það var erfitt – ég ætla ekkert að draga fjöður yfir það. Það er erfitt þegar svona gerist og maður veldur sjálfum sér og öðrum vonbrigðum en að sama skapi er maður svolítill sigurvegari þegar maður fer upp úr því.“

Sigmar segir að í dag geri hann það sem þarf að gera til að sinna sér. Passa upp á sjálfan sig.

„Þegar fólk er í bata frá alkóhólisma þá er lífið bara venjulegt. Það gengur sinn vanagang. Og það er nákvæmlega þannig. Ég er á þannig stað að ég er ekkert að velta mér upp úr fortíðinni og lifi bara lífinu frá degi til dags eins og á að gera. Það að vera óvirkur alki er ekki eitthvað sem er inni í heilanum á manni allan daginn og allar nætur 365 daga ársins. Þetta er bara eitthvað sem maður veit af. Maður þarf að vera meðvitaður um þetta; maður þarf að passa sig á að gera réttu hlutina, ég þarf að forðast ákveðnar aðstæður og ákveðna hluti. Maður bara heldur sér í standi.“

Nýr kafli

Sigmar er í standi til að takast á við nýjan vettvang í lífinu. Nýr kafli er hafinn. Hvað með fjölmiðlana sem hann hefur starfað við í áratugi? Mun hann sakna atsins þar þótt atið verði öðruvísi á öðrum vettvangi ef allt gengur að óskum?

„Það að vinna á fjölmiðli er eitthvað sem mig dreymdi um strax á unglingsárunum. Síðan fékk ég tækifæri til að starfa við fjölmiðla og ég hef gert ótrúlega spennandi hluti. Það að vera fjölmiðlamaður hefur verið stór partur af sjálfsmyndinni. Þetta er ekki bara starf; þetta verður svolítið baktería. Þetta heltekur mann svolítið. En á einhverjum tímapunkti þarf maður að vega og meta það hvort maður vilji gera eitthvað annað í lífinu. Þetta tengist því að ögra sjálfum sér og prófa eitthvað nýtt.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -