Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Sigríður Dögg: „Þykjast vera fjölmiðill þegar þú ert bara bloggsíða“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margrét Friðriksdóttir, ritstjóri síðunnar Fréttin.is, hefur fengið miðilinn skráðan sem fjölmiðil hjá Fjölmiðlanefnd. Hún sagði frá þessu í samtali við Stundina. Margrét segir aðra fjölmiðla stunda „markvissa þöggun á ákveðnum fréttum“ og þess vegna hafi hún stofnað miðilinn.

Stundin talaði við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann Blaðamannafélags Íslands og sagði hún miðillinn vera bloggsíðu sem vill láta líta á sig sem fjölmiðil og að miðillinn setji fram fréttir í ákveðnum tilgangi og starfi því ekki samkvæmt grundvallarreglum blaðamennsku.

Í viðtali við Morgunblaðið í fyrra kynnti Margrét nýjan fjölmiðil og sagði fjársterka aðila vera að baki honum sem tengdust bæði Miðflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Hún segir þá að þeir aðilar sem voru að baki miðlinum hafi hætt við vegna hótana. Aldrei hefur þó komið fram hverjir fjárfestarnir væru, né hver væri að hóta þeim. „Það var skemmt fyrir okkur vegna þess að það var haft áhrif á fjárfestana með hótunum. Við vorum komin með húsnæði í Nóatúni og það var haft áhrif á eigandann og hann lét allt í einu hækka leiguna um 50 prósent. Þannig að það svolítið féll um sig sjálft út af einhverjum hrægömmum þarna úti.“

Margrét segir miðilinn vera á byrjunarreit í leit að fjárfestum, hún ætli að halda úti söfnun á Karolina Fund eða sækja styrki á annan hátt. Hún segir töluvert marga hafa haft samband við sig og vilji styrkja miðilinn. Aðeins eru tveir starfsmenn á miðlinum en það er Margrét og Þórdís B. Sigurþórsdóttir, skráð sem blaðamaður og prófarkalesari. Að sögn Margrétar eru þær báðar sjálfboðaliðar.

Hún segir að nú þegar séu bæði einkaaðilar og fyrirtæki farin að sýna því áhuga að auglýsa á miðlinum. „En af því að við erum ekki með bankareikning þá getum við ekki innheimt kostnaðinn.“ Miðillinn er, eins og staðan er núna, að gefa auglýsingapláss.

Margrét segir aðra fjölmiðla stunda þöggun. „Nærtækasta dæmið eru þessi svakalegu mótmæli sem voru í Austurríki bara núna um helgina. Þetta eru mestu mótmæli sem hafa nokkurn tíma verið í Austurríki og þetta jaðrar bara við borgarastyrjöld. Það jaðrar við borgarastyrjöld í Evrópu út af þessum sóttvarnarlögum og -reglum sem verið er að setja og það er allt að verða vitlaust og við vorum eini miðillinn sem fjallaði um þetta. Það kom ekki fyrr en daginn eftir í mýflugumynd á Vísi en RÚV kom ekki með þetta eða Mbl. Fólk sér alveg hvað er í gangi. Við búum ekki í búbblu hérna á Íslandi þar sem fólk getur ekki aflað sér upplýsinga annars staðar en hér á Íslandi. Við búum á tækniöld þar sem er mjög auðvelt að finna upplýsingar, svo það er mjög sérstakt að íslenskir fjölmiðlar skuli leyfa sér þessa þöggun sem er viðhöfð hér. Sem er svo augljós og fólki ofbýður. Það er nú ástæðan fyrir því að ég stofnaði Fréttin.is. Við erum að opna umræðuna og við erum að fjalla um fréttir sem er markvisst verið að þagga niður. Svo erum við líka á móti pólitískum rétttrúnaði sem flestir fjölmiðlar á Íslandi eru sýktir af.“

- Auglýsing -

Margrét segir þjóðina vera hætta að fylgjast með íslenskum miðlum:

„Fjölmiðlar í dag eru mjög hlutdrægir á margan hátt, það er augljóst. Það eru rosalega margir sem sjá það. Þess vegna er fólk komið með nóg af íslenskum fjölmiðlum og margir sem ég veit um sem eru hættir að horfa á fréttir og lesa bara erlendar fréttir nema bara á Fréttin.is, þau þakka okkur fyrir því þetta er eini miðillinn sem þau geta lesið.“

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins segir miðilinn spila inn á getuleysi margra til að greina í sundur hvað er áróður og hvað er frétt

- Auglýsing -

„Það er eitt af stóru málunum í samfélagi nútímans og í samfélaginu til næstu ára, bæði hér á landi og annars staðar í heiminum, að reyna að skýra þennan mun betur í huga fólks. Það skiptir svo miklu máli að fólk skilji hvaða upplýsingar eru áreiðanlegar og hvaða upplýsingar eru það ekki.“

„Eins og þarna, þetta er bloggsíða þar sem einhver er að koma áróðri á framfæri, að það sé ekki gert með því að villa á sér heimildir, að þykjast vera fjölmiðill þegar þú ert bara bloggsíða og það er bara ábyrgðarhluti.“

Sigríður segir Viljann vera annan miðil sem hún skilgreini sem bloggsíðu, Viljinn er skráður sem fjölmiðill hjá fjölmiðlanefnd.

„Við höfum séð þetta á síðastliðnum 18 mánuðum að Björn Ingi titlar sig sem blaðamann á Viljanum en hann er ekkert annað en bloggari á sinni eigin bloggsíðu. Hann hefur ekki verið að auka skilning fólks á því hvað felst í því að vera blaðamaður. Ég er ekki þar með að segja að hann ástundi óheiðarleg vinnubrögð. Ég er að halda því fram að miðillinn hans geti ekki talist áreiðanlegur fréttamiðill sem vinnur samkvæmt skilgreiningum ritstjórnar og þeim vinnubrögðum sem þar eru viðhöfð því þetta er bara einn maður sem heldur úti bloggsíðu, það getur aldrei verið ritstjórn.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -