Sigríður Jóhannsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands, lést 23. júní á Landspítala í Fossvogi eftir stutt veikindi, 91 árs að aldri. Frá þessu segir í Morgunblaðinu.
Sirgíður fæddist á Akureyri 11. nóvember 1929. Hún starfaði um tima á skrifstofu KEA en innritaðist svo í Hjúkrunarskóla Íslands. Hún lauk þaðan prófi í mars 1954. Hún hélt til Bandaríkjanna og lauk námi í gjörgæsluhjúkrun. Eftir heimkomuna var Sigríður heimavinnandi á meðan börnin voru ung en vann aukavaktir á Landakoti og Borgarspítalanum eftir ástæðum. Árið 1973 fór hún í fulla vinnu utan heimilis og hjúkrun varð ævistarf hennar.
Árið 1979 réðst hún sem kennari við Hjúkrunarskóla Íslands, varð yfirkennari 1982 og skólastjóri 1983-1987. Þá var skólinn lagður niður og allt hjúkrunarnám flutt á háskólastig. Sigríður var í broddi fylkingar um að sameina allt hjúkrunarnám á Íslandi á háskólastigi. Á árunum 1988 til 1993 var hún hjúkrunarforstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Keflavík.
Eiginmaður Sigríðar var Valtýr Bjarnason, yfirlæknir. Hann lést árið 1983. Börn þeirra eru: Bjarni, Jóhann, Valtýr og Sigríður Þórdís. Sigríður átti 13 barnabörn og 10 barnabarnabörn.