Mannlíf hefur undir höndum gögn er varða lækni sem er sérmenntaður sem lýtalæknir en fékk stöðu sem handarsérfræðingur.
Sjúklingur sem fór í aðgerð hjá áðurnefndum lýtalækni, sem heitir Sigríður Karlsdóttir, og er sérmenntaður lýtalæknir, er ekki sáttur.
Viðkomandi, sem sendi ábendingu á Mannlíf, vildi ekki koma fram undir nafni að svo stöddu en hann var sjúklingur hjá Sigríði.
„Þetta varðar sérfræðilækni hjá LSH. Lýtalæknir vinnur og kallar sig handaskurðlækni. Af hverju veit ég ekki, en komst að þessu því ég var sjúklingur hjá viðkomandi lækni. Hún kynnti sig sem handarsérfræðing og ég hélt ég væri að fara hitta sérfræðing í því fagi eins og stóð a pappírum sem ég fekk í pósti. Sendi afrit af því með.“
Viðkomandi aðili segist ekki vera sáttur við afgreiðslu á sínu vandamáli:
„Og þess vegna fór ég að gramsa í þessu. Á heimasíðu Landlæknisembættisins er hægt að sjá hvort læknir sé með réttindi eða ekki og þá sá ég að Sigríður er með leyfi sem lýtalæknir en ekki handarskurðlæknir. Veit ekki hversu lengi hún hefur verið þarna, en mér finnst þetta mjög einkennilegt; að þykjast vera handarskurðlæknir en ekki vera það. Ég var ekki að þykjast vera sjúklingur, og ég þóttist ekkert vera með bakverki, ég þurfti á þjónustu handarskurðlæknis að halda.
Í bréfi sem ég fékk frá bæklunarskurðdeildinni stóð að ég hefði fengið tima hjá Sigríði Karlsdóttir handarsérfræðingi og þannig kynnti hún sig. Ég man vel eftir því. Mér þykir þetta allt vera hið undarlegasta mál og kalla eftir skýringu á þessu. Spurningin er: Af hverju þetta er látið viðgangast?
Ég hefði haldið að maður þyrfti að vera með réttindi í því fagi sem maður vinnur við sem sérfræðilæknir. Getur þá hvaða sérfræðingur sem er unnið í allt öðru fagi en hann er menntaður, og er það eitthvað eðlilegt og bara almennt? Til dæmis, hjartalæknir gæti þá unnið og kallað sig gigtarlækni? Er þetta einhver klíkustarfsemi hjá þessum spítala?“
Hinn ósátti sjúklingur sem Sigríður meðhöndlaði bætir þessu við mál sitt:
„Svo fór að ég náði mér í enn frekari upplýsingar bæði hjá landlækni og landspítala:
„6 gr.
Rétt til að kalla sig sérfræðing í sérgrein innan læknisfræði og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.“
„Það stendur skýrt að viðkomandi má ekki kalla sig handarsérfræðing samkvæmt 7 gr.
Umsækjandi um sérfræðileyfi í sérgrein og undirsérgrein innan læknisfræði skal fyrst hafa hlotið sérfræðileyfi í því ríki þar sem sérnámið eða meirihluti sérnáms fór fram; og þar sem sérnámi lauk.“
Bendir á 9. gr:
„Sérfræðileyfi má veita að loknu viðurkenndu formlegu sérnámi, sbr. 7. og 8. gr.
Til að hljóta sérfræðileyfi í undirsérgrein innan viðkomandi aðalgreinar skal umsækjandi hafa hlotið sérfræðileyfi í viðkomandi aðalgrein og hafa lokið formlegu viðurkenndu sérnámi í undirgreininni. Með undirgrein er átt við frekari sérhæfingu á fræða- og starfssviði sem fellur innan viðkomandi aðalgreinar. Auk tveggja undirsérgreina er hægt að viðurkenna eina viðbótarsérgrein skv. 10. gr.
10. gr:
Sérgreinar: Sérgrein skal standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi Samkvæmt þessari reglugerð má veita Bæklunarskurðlækni viðurkenningu í handarskurðlækningum sem undirsérgrein. Einnig má veita sérfræðileyfi i handarskurðlækningum eftir viðurkennt nám i þeirri grein samkvæmt 8 gr.“
„Samkvæmt 10 gr. þá er ekkert nefnt að lýtalæknar geti fengið handarskurðlækningar metið sem undirsérgrein í dag.
Eftir að hafa lesið í gegnum þessa reglugerð þá er hér tvímælalaust um brot á reglum að ræða.
Horft hefur verið framhjá reglum og kröfum varðandi menntun til handarskurðlæknis að mínu mati sem sjúklings.“
Bætir við:
„Svo kynnti ég mér hvernig stöðuveitingar sérfræðilækna fara fram, hjá LSH; ræddi við lækni sem ég þekki lítillega og hann sagði mér að allar sérfræðistöður ættu að fara i gegnum nefnd, og spurning hvort það var farið fram hjá því í þessu ferli? Fór veiting Sigríðar lýtalæknis sem handarskurðlæknis í gegnum eðlilegt ferli, í gegnum nefnd.“
Sjúklingur Sigríðar lýtalæknis sem hélt að hún væri handarskurðlæknir spyr:
„Hver ákveður svona veitingar og af hverju. Væri ekki gott að athuga það? Mér finnst þetta vera frétt sem á erindi til almennings og hvernig farið er skattpeninga okkar og hreinlega logið að okkur skattborgurum og sjúklingum. Þetta er ekki í lagi! Fær maður bara sí svona að vinna við fag og kannski taka vaktir án þess að hafa réttindi?
Ég komst líka að því að samkvæmt starfslýsingu séfræðilækna að það finnast svokallaðar hæfnikröfur hja LSH, sem eru:
„Læknir með sérfræðileyfi hefur lokið sérnámi (framhaldsnámi) í þeim sérgreinum sem hann hyggst stunda á Landspítala – brot þarna – og LSH hefur sýnt fram á íslenskt sérfræðileyfi í sinni sérgrein – líka brot þarna. LSH býr yfir hæfni í mannlegum samskiptum og vilja til teymisvinnu og samvinnu, jafnt við aðra lækna sem og annað heilbrigðisstarfsfólk.“
Sjúklingur Sigríðar spyr að lokum:
„Er eitthvað meira um svona ráðningar hjá LSH? Ég bara spyr.
Bestu kveðjur,
Skattborgari á Íslandi.“
Mannlíf sendi ítarlega fyrirspurn á Ólaf Baldursson, Ölmu landlækni og fleiri sem gætu varpið ljósi á ráðningu Sigríðar.
Svör bárust ekki frá neinum sem menntaðir eru í læknisfræði, heldur fékk Mannlíf svör frá Kjartani Hreini Njálssyni, aðstoðarmanni landlæknis og fyrrum blaðamanni.
Hér eru spurningarnar:
- Mega sérmenntaðir læknar í sinni sérfræðigrein eða sérfræðigreinum starfa sem sérfræðingar í öðrum sérfræðigreinum sem þeir eru ekki útskrifaðir í? Ef svo er, þarf þá skriflega undanþágu veitta af ykkur og/eða nefnd? Og yrði slík undanþága þá tímabundin eða til langframa?
Starfsheitið „læknir“ er lögverndað starfsheiti, sbr. lög um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012. Sá sem lokið hefur læknisfræðinámi og því starfsnámi sem við á getur sótt um starfsleyfi sem læknir. Sá sem lýkur sérfræðinámi getur að auki sótt um viðurkenningu á því og þar með fengið leyfi til notkunar lögverndaðs sérfræðiheitis. Lögverndun felur í sér að sá einn má nota starfsheitið og sérfræðiheitið sem fengið hefur leyfi landlæknis til slíks.
Í 2. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi nr. 467/2015 kemur fram að rétt til að kalla sig lækni og starfa sem slíkur hér á landi hafi sá einn sem fengið hefur útgefið almennt lækningaleyfi frá landlækni. Þá segir í 6. gr. sömu reglugerðar segir að rétt til að kalla sig sérfræðing í sérgrein innan læknisfræði og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.
Læknir með sérfræðiviðurkenningu A má ekki kalla sig sérfræðing í B hafi hann ekki sérfræðileyfi landlæknis í B. Landlæknir veitir ekki undanþágur til að læknar geti kallað sig sérfræðing í öðru en þeir hafa menntað sig til og uppfyllt sett skilyrði fyrir sérfræðiviðurkenningu. Spurningin felur í sér hvort til sé eitthvað það sem er störf sem enginn má sinna nema sá sem hefur sérfræðileyfi. Má t.d. heimilislæknir sinna börnum eða mega bara barnalæknar sinna börnum? Þarf sérfræðing í myndgreiningum til að lesa úr myndgreiningu eða má t.d. sérfræðingur í lungnasjúkdómum lesa úr lungnamyndum? Svarið er að einstök verk eru ekki lögvernduð. T.d. eru við störf hér á landi, á heilsugæslustöðvum og víðar læknar sem lokið hafa læknanámi en hafa ekki lokið sérfræðinámi í t.d. heimilislækningum. Með sama hætti gæti t.d. sérfræðingur í lyflækningum unnið á t.d. heilsugæslustöð, á grundvelli almenns lækningaleyfis síns. Eðli málsins samkvæmt er það hlutverk stjórnenda á heilbrigðisstofnun að tryggja að læknir sinni ekki öðrum störfum en þeim sem við á. Og að sjálfsögðu er það á ábyrgð hvers og eins að taka ekki að sér önnur verkefni en þau sem viðkomandi ræður við.
Það gefur auga leið að sum störf og verk eru sérhæfðari en önnur; þannig getur enginn læknir framkvæmt hjartaskurðaðgerð nema hjartaskurðlæknir og enginn læknir framkvæmt heilaskurðaðgerð nema heilaskurðlæknir.
Um þetta er t.d. fjallað í 13. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, þar sem segir: „Heilbrigðisstarfsmaður skal virða faglegar takmarkanir sínar og leita eftir aðstoð eða vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns eftir því sem nauðsynlegt og mögulegt er, svo sem ef hann telur sig ekki geta veitt honum viðeigandi heilbrigðisþjónustu.“
Þá má einnig hafa hliðsjón af í 10. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 í þessu sambandi þar sem segir: „Þeim sem ekki hefur gilt leyfi landlæknis er óheimilt að nota löggilt starfsheiti eða starfa sem heilbrigðisstarfsmaður. Honum er jafnframt óheimilt að veita sjúklingi meðferð sem fellur undir lögverndað starfssvið löggiltrar heilbrigðisstéttar eða gefa læknisfræðilegar eða aðrar faglegar ráðleggingar.“
Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna kemur fram að við túlkun á því hvenær heilbrigðisstarfsmaður starfar sem slíkur og hvenær hann fer inn á lögverndað starfssvið annarrar heilbrigðisstéttar verði að líta til þess að víða er veruleg skörun á starfssviði heilbrigðisstétta og mörkin ekki alltaf skýr. Við mat á því hvort heilbrigðisstarfsmaður hefur farið inn á lögverndað starfssvið annarrar stéttar skal litið til hagsmuna sjúklinga af því að heilbrigðisstarfsmaður hafi nauðsynlega faglega þekkingu og hæfni til viðkomandi starfa, fremur en hagsmuna heilbrigðisstéttar af því að útiloka aðrar heilbrigðisstéttir frá því að sinna tilteknum störfum.
2. Má sérfræðingur í til dæmis innkirtlaskurðlækningum og háls-, nef- og eyrnaskurðlækningum starfa sem hjarta- og brjóstholsskurðlæknir eða sem lýtalæknir?
Sjá svar við 1. spurningu.
3. Má til dæmis þvagfæraskurðlæknir kynna sig sem æðaskurðlæknir fyrir sjúklingum sínum, eða verður viðkomandi sérfræðilæknir alltaf að segja hvaða sérgrein viðkomandi lagði stund á og útskrifaðist í?
Sjá svar við 1. spurningu, þ.e. um lögvernduð sérfræðiheiti. Það á hvaða sérgrein viðkomandi lagði stund og útskrifaðist í nægir ekki til að mega kynna sig sem sérfræðing í þeirri sérgrein. Viðurkenning landlæknis á sérfræðináminu og þar með heimild til notkunar lögverndaðs sérfræðiheitis er forsenda. Hér má vísa til áðurgreindra ákvæða 6. gr. reglugerðar nr. 467/2015 um lækna og 10. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.
Úr Læknablaðiðinu:
,,Í dag eru samtök almennra skurðlækna, æðaskurðlækna, barnaskurðlækna, lýtalækna, bæklunarskurðlækna, hjarta- og brjóstholsskurðlækna, handarskurðlækna, þvagfæraskurðlækna, heila- og taugaskurðlækna, innkirtlaskurðlækna og háls-, nef- og eyrnaskurðlækna aðilar að Skurðlæknafélagi Íslands.“
4. Geta sérfræðilæknar sem eru til dæmis heila- og taugaskurðlæknar verið félagar í samtökum þvagfæraskurðlækna? Svo dæmi sé nefnt.
Embætti landlæknis kemur ekki að ákvörðun um það í hvaða félagasamtökum menn eru. Embætti landlæknis bendir á að Læknafélag Íslands væri rétti aðilinn til þess að svara þessari spurningu.
5. Ef möguleg aðgerð fer af einhverjum völdum illa eða ekki nægilega vel, getur mögulegur sjúklingur krafist miskabóta, farið í mál til dæmis við viðkomandi lækni, LSH og jafnvel Landlækni, vegna þess að möguleg aðgerð fór úrskeiðis og mögulegur sérfræðilæknir hafi ekki kynnt sig fyrir mögulegum sjúklingi sem þann sérfræðilæknir sem hann útskrifaðist sem?
Embætti landlæknis ákveður ekki miskabætur. Í hverju einstöku tilviki er metið hvort sjúklingatrygging Sjúkratrygginga Íslands og vátrygging sjálfstætt starfandi lækna á við um skaða sem hlýst af aðgerð. Embætti landlæknis kemur ekki að því. Sjúklingur getur lagt fram kvörtun til embættis landlæknis telji hann um mistök eða vanrækslu að ræða. Sem fyrr segir er lögverndun á ákveðnum starfsheitum og sérfræðiheitum. Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmaður á að hafa vátryggingu. Benda má á lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 þar sem segir í 10. gr., um faglega ábyrgð á heilbrigðisstofnunum:
- gr.Fagstjórnendur.
Á heilbrigðisstofnun skal starfa framkvæmdastjóri lækninga, framkvæmdastjóri hjúkrunar og eftir atvikum aðrir faglegir yfirstjórnendur sem bera faglega ábyrgð á þjónustu stofnunarinnar gagnvart forstjóra.
Yfirlæknar sérgreina eða sérdeilda innan heilbrigðisstofnunar bera faglega ábyrgð á þeirri læknisþjónustu sem undir þá heyrir gagnvart framkvæmdastjóra lækninga eða næsta yfirmanni samkvæmt skipuriti stofnunar.
Deildarstjórar hjúkrunar innan heilbrigðisstofnana bera faglega ábyrgð á þeirri hjúkrunarþjónustu sem undir þá heyrir gagnvart framkvæmdastjóra hjúkrunar eða næsta yfirmanni samkvæmt skipuriti stofnunar.
… 1) [F]agstjórnendur innan heilbrigðisstofnunar bera faglega ábyrgð á þeirri þjónustu sem þeir veita og undir þá heyrir í samræmi við stöðu þeirra í skipuriti stofnunarinnar.
kv.,
Kjartan Hreinn Njálsson
aðstoðarmaður landlæknis
Mannlíf sendi Kjartani Hreini Njálssyni ekki tölvupóst. Sendir voru tölvupóstar með ofangreindum spurningum á eftirtalin netföng: