Neytandi vikunnar er Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar og ritstjóri Húsfreyjunnar. Sigríður var áður forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hún er gift Daníel Gunnarssyni, lyfjafræðingi hjá Vistor. Samtals eiga þau sex börn og ellefu barnabörn, sem sagt alvöru ríkidæmi. Sigríður býr á Siglufirði og býr við þann góða kost, að eigin sögn, að þar er ein besta fiskbúð landsins og einstaklega gott bakarí.
Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?
Ég er dugleg að kaupa það sem er á tilboði hverju sinni. Eins kaupi ég 10 kílóa fiskiöskjur í Fiskbúð Fjallabyggðar, með sjófrystum þorskflökum. En við í fjölskyldunni erum mjög mikið fyrir fisk. En helsti sparnaðurinn hjá mér varðandi mat felst í því að henda aldrei mat og nýta alla afganga. Mér finnst skelfilegt að hugsa til allrar þeirrar matarsóunar sem á sér stað, hér á landi og annars staðar, því þetta þarf alls ekkert að vera svona. Það er hægt að nýta afganga á svo margvíslegan hátt og gera girnilega rétti úr þeim. Til dæmis ef rjómi er að renna út á tíma hjá mér, þá frysti ég hann. Alltaf gott að eiga rjóma í frysti til dæmis til að bæta út í súpur og sósur. Ef mjólkurvörur eru að renna út á tíma hjá mér þá baka ég úr þeim. Ef ég er með alla fjölskylduna í mat og það er mikill afgangur, þá sendi ég liðið mitt heim með afganga.
Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?
Já, ég endurnýti suma hluti. Ég nota t.d. glerkrukkur undir sultur og hlaup sem ég útbý. Eins nota ég gömul handklæði og viskustykki í tuskur og bónklúta. Ég er markvisst farin að kaupa frekar vörur sem er ekki pakkað í miklar umbúðir. Til dæmis kaupi ég frekar ávexti og grænmeti sem er ekki hlaðið umbúðum.
Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?
Ég hef notagildið í huga. Ég kaupi ekki bara eitthvað, heldur það sem virkilega er að nýtast. Þegar gjafakaup eru annars vegar erum við hjónin meðvituð um að reyna að kaupa gjafir sem viðkomandi þarf á að halda. Við erum dugleg að hafa samband við börn og barnabörn og athuga hvort eitthvað vanti, s.s. fatnað í leikskólann, eitthvað til heimilisins o.s.frv. Eins erum við dugleg að gefa góðar samverustundir eða upplifun, þ.e. eitthvað sem viðkomandi getur notið, í stað þess að gefa einhverja hluti.
Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?
Ég elska ferska ávexti og ber, ferskar kryddjurtir og gott grænmeti. Því á ég mjög erfitt með að neita mér um að kaupa þessar vörur. Því má segja að ég bruðli svolítið þegar ég kem í ávaxta- og grænmetisdeildir í verslunum. En á móti kemur, að ég nýti allar þessar vörur upp til agna. Þetta eru hollar og góðar vörur og því finnst mér í lagi að gera vel mig og fjölskylduna á þessu sviði. Við kaup á þessum vörum reyni ég alltaf að kaupa frekar innlent, ef það er í boði, heldur en innflutt.
Skiptir umhverfisvernd þig máli?
Umhverfismál skipta mig miklu máli og sem betur fer er almenningur farinn að veita umhverfismálum mun meiri athygli en áður. Við eigum að hafa áherslur
hringrásarhagkerfisins að leiðarljósi, þ.e. að draga úr óhóflegri neyslu, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur.
Ég ákvað þegar ég flutti norður að nota bílinn minn sem allra minnst. Hér í Fjallabyggð búum við við þau forréttindi að maður kemst fótgangandi á alla staði innan byggðakjarnanna Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Þegar maður leggur bílnum og fer allra sinna ferða gangandi, þá er það allt í senn; sparnaður varðandi eldsneytiskaup, gott fyrir umhverfið, þar sem ekki er verið að menga, og síðast en ekki síst góð og ókeypis líkamsrækt, því ekki er hægt að byrja né enda vinnudaginn á betri hátt en með hressandi gönguferð í öllum veðrum.
Bestu sparnaðarráð sem ég get gefið er að nota aldrei yfirdrátt og taka helst ekki lán og ALDREI að taka smálán. Auðvitað kemst fólk varla hjá því að taka húsnæðislán, en það er svo ofboðslega dýrt að skulda peninga. Því er besta sparnaðarráðið sem ég get gefið, að safna fyrir því sem á að kaupa.